19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég er hræddur um, að nokkur misskilningur sé á bak við þessa brtt.

Ég hygg, að þessi varnagli, um að leggja þetta fé í sjóð og geyma frá ári til árs, sé gerður vegna þess, að þar, sem hlutdeild einstakra aðila er lítil, þar þyki ekki gerlegt að leggja árlega í malbikun, og því sé fénu safnað saman til þess að vinna verkið síðar. Ég er ekki viss um, að nm. hafi gert sér þetta ljóst. Ég hefi ekki haft tíma til að rifja þessi l. upp, en hygg þó, að þetta sé tilgangurinn, og því gangi brtt. þvert á móti honum. Þó ekki sé hægt að leggja fé á móti, þarf ekki að vanta viljann til framkvæmda, heldur geta legið til þess ýmsar aðrar ástæður. Ég er yfirleitt mótfallinn þessari tilraun til að seilast eftir þessu fé, sem af skornum skammti hefir verið lagt til kauptúna og kaupstaða af bifreiðaskattinum, sem í raun og veru ætti að mestu að renna til þeirra. Þar eru bifreiðarnar langmest notaðar, og sumar þeirra koma aldrei út fyrir bæjarlandið, og því engin ástæða til þess, að skattur af þeim renni í aðra vegi. Annars þykir mér leiðinlegt, þegar á síðasta þingi var sýnd þessi sanngirni, ef nú á strax á næsta þingi eftir að fara að seilast eftir þessu gjaldi og taka það aftur.