19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Guðmundsson:

Út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. vil ég segja það, að ég held, að það sé á misskilningi byggt, sem hann hafði á móti þessari frestun. Að vísu er það rétt, að þessum 15% af bifreiðaskattinum, sem er ekki nema 60 þús. kr., á að skipta milli allra kaupstaða og verzlunarstaða á landinu, sem hafa 300 íbúa og þar yfir. Sér þá hver maður, hversu örlítill verður hlutur hvers sveitarfélags. Þess vegna er gert ráð fyrir, að þessu verði safnað í sjóð, þar til nokkur upphæð er komin á hvert sveitarfélag og það hefir möguleika til að framkvæma malbikun með þeim tækjum, sem til þess þarf, og getur lagt fram allt að helmingi á móti þeirri upphæð, sem það á þá í sjóði. Nú munu það aðeins vera tveir bæir á landinu, sem geta framkvæmt malbikun, Rvík og Akureyri. Hafnarfjörður getur það ekki, nema þá með því að kaupa sér tæki eða fá þau lánuð frá Rvík. Svo er ekki heldur loku skotið fyrir frestun á þessu í öðrum kaupstöðum, því að það geta aðrir kaupstaðir bætzt við. Þessu er aðeins frestað að því leyti, sem það er ekki notað 1935 og tilskilinn hluti lagður á móti. Þeim kaupstöðum er því enginn óréttur gerður, sem geta lagt fé til malbikunar á næsta ári. Þeir fá sinn tilskilda hluta greiddan, ef þeir vilja það. Hinir kaupstaðirnir, sem alls ekki geta þetta, fá nú í vegafénu allmikið fé til að byggja þjóðvegi til þess að koma þeim í samband við þjóðvegakerfið eins og ég áður hefi tekið fram, og mér finnst það ekki nema sanngjarnt, að þeim sé gefinn eftir sinn hluti úr þessum sjóði þetta ár og fái það heldur í vegi til þess að tengja þá við þjóðvegakerfið. Nú er t. d. lagt fram fé til Siglufjarðar og Norðfjarðar og til vegar milli Seyðisfjarðar og Héraðs og milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, til Fáskrúðsfjarðar og til kaupstaðanna á Snæfellsnesi, til vega í Barðastrandarsýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu, sem mest kemur í þágu ýmissa kauptúna.

Það er svo til ætlazt að bifreiðaskattinum sé skipt í fjóra parta, 50% gangi til akfærra þjóðvega — það hefir verið greitt —, 15% til sýsluvega, en ekki er það þó skylt, enda ekki nú tekið upp í fjárl.frv., 20% til malbikunar þjóðvega, sem hefir verið farið fram á að fresta, og 15% til malbikunar í kaupstöðum og verzlunarstöðum.

Hvað viðvíkur brtt. á þskj. 812, þá er hún mjög á annan veg en það frv., sem hér liggur fyrir. Þar er um það að ræða, að taka það fé, sem ætlað er kaupstöðunum til vega- og gatnagerðar, og verja því sem styrk á votheysgryfjur og safnþrær. Það nær engri átt að taka þannig vegafé og láta það ganga til alóskyldra hluta, og það er mikill munur á, að hver kaupstaður, sem á að fá þetta fé, fái það í nærliggjandi vegi, eða að láta það fara til að gera áburðargryfjur og súrheysgryfjur. Ég er því eindregið á móti þessari brtt. hv. þm. V.-Húnv. enda tekur hún til alls fjárins og ætlast til, að liðnum sé að öllu leyti frestað, þar sem okkar till. fer fram á, að fresturinn komi aðeins fram gagnvart þeim kauptúnum, sem sýnilega geta ekki notað þetta fé árið 1935.