19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 6. landsk. sagði, að það væri fjarstæða að hugsa sér að láta þessa upphæð renna til allt annars en ætlazt væri til með l. Ég vil benda honum á, að öll þessi frestun á umræddum l., sem um ræðir í þessu frv., gengur í þá átt að láta fé renna til allt annars en því er ætlað með þessum 1., t. d. með frestun á því, að ríkið leggi til landsbankans 100 þús. kr. Því er frestað til þess að ríkið geti fengið það fé og ráðstafað því til allt annars en til er ætlazt með þeim l., þó að ekki sé sérstaklega tekið fram, til hvers þessar 100 þús. kr. skuli fara. Eða t. d. með skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Hér á að taka það fé og láta það fara til allt annars en ætlazt er til með l. um skemmtanaskatt. Ríkissjóður er þegar búinn að ráðstafa þessu fé til allt annars en ætlazt er til í l., sem hér á að fresta framkvæmd á. Sama er að segja um tekjur af tóbakseinkasölunni og framlag til bjargráðasjóðs. Það fé á hér að renna til allt annars en upphaflega var til ætlazt. Þannig má taka hvern einasta lið í þessu frv. Hitt er aðeins lítilsháttar formsatriði, hvort á að ráðstafa þessu fé beint í þessu ákveðna augnamiði, eða hvort það er látið renna í ríkissjóð og síðan aftur ráðstafað úr ríkissjóði. Ég vil halda því fram, að það sé að öllu leyti réttlátara að breyta ýmsum farvegi og láta féð ekki renna beint í ríkissjóð á þessu tímabili. Það getur vel verið, að öðrum finnist það öfugt, en hitt sé réttara, að láta það renna í þeim farvegi, sem 1. sjálf ákveða, og þá verður að minni hyggju að gera það upp við sjálfan sig og greiða atkv. eftir því, en á annan hátt er ekki hægt að greiða atkv. Hv. 6. landsk. segir, að þeir kaupstaðir, sem ekki geta lagt fram fé á móti, verði ánægðir, af því að þeir fái þennan styrk úr ríkissjóði til þess að komast í samband við þjóðvegakerfið. Hvað má þá segja um þá, sem hafa fjárhagslega betri aðstöðu? Hefir ríkið ekki líka lagt fram fé til að koma þeim í samband við þjóðvegakerfið? Við skulum t. d. taka Reykjavík. Það er jafnmikið gert fyrir Rvík eins og héruðin í kring, að miklu fé er varið til að gera þjóðvegasambandið þar eins gott og gert hefir verið. Þessir tveir aðilar hafa þar báðir sömu hagsmuna að gæta. Þá má segja, að þeir kaupstaðir, sem eru betur staddir fjárhagslega, eigi ekki heldur að fá þennan styrk, því að þeir hafa fengið svo mikinn stuðning til að komast í samband við vegakerfi landsins. Hér getur ekki komið til greina annað en aðeins það eitt, mat á því, hvort eðlilegra er, að þessi upphæð renni á næsta ári til þess, sem við leggjum til, eða eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég hefi áður bent á, að þau mál, sem ganga í sömu átt, t. d. umbót á fasteignaveðlánum bænda, fái annaðhvort ekki afgreiðslu á þessu þingi, eða að þeim verði breytt svo í Ed., að lítið gagn verði að. Þess vegna er ennþá meiri ástæða til, að eitthvað sé gert í þessu efni til þess að létta undir með afkomu bændastéttarinnar.