01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Minni hl. n. hefir ekki getað fallizt á, að rétt sé að samþ. þetta frv. Í nál. minni hl. á þskj. 235 er gerð grein fyrir þessari afstöðu minni hl., en þó vil ég leyfa mér, hv. þdm. til glöggvunar, að lesa upp 3. gr. þeirra laga, sem hér er farið fram á að breyta. Það eru l. nr. 50 31. maí 1927. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Efni til framleiðslu innlendrar tollvörugerðar skulu undanþegnar verðtolli. Þau iðnaðarfyrirtæki, sem reka vörugerð, er fellur undir e- og d-lið 2. gr. og stofnsett eru fyrir 1. janúar 1927, skulu til ársloka 1935 njóta ívilnunar fyrir þann hluta af ársframleiðslu sinni, er samsvarar allri framleiðslu ársins 1926, þannig, að gjaldið fyrir þetta framleiðslumagn færist niður í 1/6 aðflutningsgjalds“.

Svo er með l. nr. 42 8. sept. 1931 veitt samskonar ívilnun samkynja iðnaðarfyrirtækjum, sem kunna að verða stofnuð eftir 1. jan. 1927. Í þessu frv. er nú farið fram á að fella þau l. úr gildi og ennfremur fella niður þessar ívilnanir 3. gr. l. frá 1927. Þetta getur minni hl. ekki fallizt á, því að með því er brotið á móti gefnu loforði frá Alþingi. Það hefir verið gefið það ákveðna. loforð, að þessar ívilnanir skuli gilda til ársloka 1935, og má gera ráð fyrir, að þau fyrirtæki, sem hér um ræðir, hafi beinlínis hagað sínum framkvæmdum með tilliti til þess, að þau njóti þessarar ívilnunar eins og Alþingi hefir lofað, enda mjög vafasamt, hvort þetta fengi staðizt fyrir dómstólunum, þó að þessi breyt. yrði samþ. Er leiðinlegt fyrir Alþingi að setja l., sem vafi gæti leikið á, hvort væru réttilega sett eða skylt að hlýða.

Minni hl. lítur svo á, að með þessu frv. sé að sumu leyti stefnt í öfuga átt við það, sem vera ber, þar sem hér er farið fram á að hækka framleiðslutolla á innlendum framleiðsluvörum og gera þær þannig ósamkeppnisfærar við innfluttar vörur. Er með því gengið á móti þeim straumi tímans, sem almennt samkomulag er um að beygja sig fyrir, að auka sem mest innlenda framleiðslu og spara eftir því sem unnt er erlendan gjaldeyri. En þessi ákvæði miða að því gagnstæða. Þau hníga í þá átt, að gera okkur erfiðari samkeppnina við erlendar vörur og hvetja til aukins innflutnings. Þetta er augljóst með kaffið, þar sem tollur er lækkaður á innfluttu kaffi en hækkaður á kaffibæti, sem er búinn til í landinu. Hann er nú í hærra verði en kaffið sjálft. Því má gera ráð fyrir, að af þeirri ástæðu hafi menn meiri tilhneigingu til að flytja inn útlent kaffi, þegar tollurinn hækkar á því innlenda, en lækkar á því erlenda. Hvað tilgangslaust þetta er, sér maður, þegar maður aðgætir, að tollhækkunin á innlendu vörunni nemur hér um bil alveg sömu upphæð og lækkunin á innfluttu vörunni. Það er því hrein blekking af stj., að með þessu sé verið að gera mönnum ódýrara að lifa í landinu, nema stj. og hennar flokkar geri ráð fyrir, að notkun kaffibætis fari minnkandi, en notkun á innfluttu kaffi vaxi. En þá vil ég beina því til meiri hl. n., og þá fyrst og fremst til hv. þm. V.-Ísf., að þar stefnir á móti straumi tímans.

Minni hl. mælir líka gegn því, að hækkaður sé tollur á öli. Reynslan af þeirri hækkun, sem gerð var 1933, er sú, að framleiðslan hefir minnkað að stórum mun. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að hún hafi minnkað um allt að ¼, eða 100 þús. lítra. Það er alveg augljóst að hún heldur áfram að minnka, en með því er stofnað til þess, að í þess stað neyti menn erlendra drykkja, og enginn vafi er á því, að þessi breyt. á framleiðsla öls að undanförnu er þannig til komin, að í stað ölsins hafa menn neytt erlendra drykkja.

Það leiðir líka af sjálfu sér, að ef þessi framleiðsla minnkar mikið, meðfram vegna tollhækkunar, þá er hún tilgangslaus sem fjáröflunarleið fyrir ríkissjóð, því að þá koma tekjurnar ekki inn. Þess vegna leyfir minni hl. sér að leggja eindregið til, að frv. verði fellt.