01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Emil Jónsson:

Ég get byrjuð mál mitt með því að taka undir það hjá hv. þm. V.-Ísf., að brýn nauðsyn ber til þess að athuga þau ákvæði, sem nú gilda um skatta og tolla á innlendum framleiðsluvörum, og jafnvel á erlendum vörum, sem keppa við þær. Þar er ýmislegt, sem ég efast ekki um, að mætti færa til betri vegar, og það er ekki að búast við, að frá því verði gengið svo vel sé á svo stuttum tíma, sem er til að ganga frá frv. á Alþingi. Þess vegna vil ég taka undir það, að þessi mál ætti að taka til rækilegrar athugunar fyrir næsta þing.

Ég minntist á það við 1. umr. þessa máls, að hækkun sú á gjaldi af kaffibæti, sem frv. gerði ráð fyrir, væri varhugaverð. Nú hefir hv. fjhn. og hæstv. fjmrh. tekið þetta mjög til greina, og þakka ég það.

Ég vil benda á það í sambandi við till. hv. fjhn., að ég veit til þess, að það tíðkast sumstaðar, t. d. í Danmörku, að fyrsta ákveðið framleiðslumagn hjá hverju fyrirtæki sé lægra tollað heldur en framleiðslan yfirleitt. Það er gert til þess að gera smærri fyrirtækjunum í hverri grein léttara fyrir. Það vita allir, að stórframleiðslan er ódýrari, en þó getur af ýmsum ástæðum verið hollt, að smærri fyrirtæki fái að vinna og dafna við hlið hinna stærri.

Annars má segja um þessi iðnaðarvörugjöld yfirleitt, eins og hv. þm. V.-Ísf. sagði um útflutningsgjaldið, að fyrir þeim skorti öll rök og þau séu eiginlega neyðartollar. Þetta er framleiðslutollur líka, og því verður að koma honum svo fyrir, að hann verði fyrirtækjunum sem minnst byrði.

Þó vil ég benda á í þessu sambandi, ef það vakir fyrir hæstv. fjmrh. að fá tekjur í ríkissjóð á þennan hátt, að eins og nú er, er sódavatn undanþegið gjaldi. Það má segja um sumar tegundir af öli, að þær séu ekki óþarfavarningur. Þær eru mjög nærandi, og t. d. maltöl er oft notað eftir læknisráði. Aftur er líklegt, að sódavatnið verði, eftir að ný áfengislög eru gengin í gildi, einkum notað til að blanda með því sterkari drykki. Er því athugavert, hvort ekki ætti að láta hækkunina koma niður á því, en létta henni frekar af þeim öltegundum, sem mega teljast nauðsynlegar.

Ég gat um það við 1. umr., að mér þætti eðlilegt, að þessu máli væri vísað til iðnn. Þó það sé fjárhagsatriði frá sjónarmiði ríkissjóðs, er það almennt skoðað iðnaðarmál. Ég vil því mælast til að frv. verði ekki afgr. frá d. fyrr en við í iðnn. höfum haft tækifæri til að koma með okkar till. Ég geri ekki ráð fyrir, að þær verði í þá átt að rýra tekjur ríkisins, heldur aðeins lagfæringar.