01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (1366)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hv. frsm. meiri hl. og hæstv. fjmrh. kom saman um það, að ekki væri vafi á því, að þingið gæti fellt niður ívilnun þá, sem innlendum iðnfyrirtækjum var veitt með l. nr. 50 frá 1927. Byggja þeir álit sitt á því, að þingið hafi yfirleitt vald til að breyta þeim lögum, sem það setur, og er ekki sjáanlegt annað en þeir lifi í þeirri sælu trú, að þetta gildi um hvaða lagasetningu, sem vera skal. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að það er ein tegund löggjafar, sem þingið getur ekki breytt skilyrðislaust. Það er sú löggjöf, sem veitir sérstök réttindi og getur skoðazt sem samningur við sérstaka aðila. Þetta er löngu viðurkennt hér á þingi, og þarf vitanlega svo unga þm., sem hér er um að ræða, til þess að gera svo barnalega játningu sem þessir hv. þm. hafa verið að gera hér. Hér liggur t. d. fyrir þinginu frv. um almenna skattívilnun fyrir ný iðnfyrirtæki. Setjum svo, að það yrði samþ. Halda menn virkilega, að hægt væri að fella það úr gildi hvenær sem væri, eftir að búið væri að byggja upp fyrirtæki á þeim grundvelli, að þau væru skattfrjáls tiltekinn tíma? Hv. þm. hljóta að viðurkenna, að til er ýms lagasetning, sem Alþingi getur ekki breytt skilyrðislaust, lög, sem þingið er bundið við gagnvart vissum aðilum að breyta ekki, eða greiða skaðabætur ella. Spurningin er því aðeins sú, hvort löggjöfin, sem hér er um að ræða, er þannig vaxin. Ég staðhæfi ekki, að svo sé, en ég dreg stórkostlega í efa, að heimilt sé að fella niður þessa ívilnun, sem loforð var fyrir til ákveðins tíma. Því verður ekki móti mælt, að í gildandi l. er skýrt loforð um, að ívilnunin skuli standa til ársloka 1933. En hv. þm. byggja sínar aths. á því, að þetta loforð sé orðið þeim, sem hlut eiga að máli, einskisvert, að um engin hlunnindi sé að ræða, þar sem þau séu nú veitt almennt. 1927 hafi hlunnindi verið veitt sérstökum fyrirtækjum, en 1931 hafi þau verið veitt öllum samskonar fyrirtækjum. Geta það ekki verið hlunnindi fyrir því? Eða hvers vegna var þá verið að veita þau? 1927 var þessi ívilnun veitt öllum fyrirtækjum í tilteknum greinum, sem þá voru starfandi. Voru það engin hlunnindi? Það breytti engu, þó með l. 1931 væri ívilnunin veitt fleiri fyrirtækjum. Það voru bara hlunnindi fyrir fleiri. Það er rétt, að þetta eru ekki hlunnindi í innanlandssamkeppninni, þegar öll fyrirtæki í sömu grein fá þau, en það geta verið hlunnindi fyrir því. Samkeppnin út á við á ekki aðeins við vörur sömu tegundar, heldur einnig við vörur, sem geta komið í staðinn. Þó útlent öl og kaffibætir sé svo dýrt, að ekki komi til mála, að það verði keypt, þá geta orðið keyptar aðrar vörulegundir í staðinn. Framleiðsla öls hefir ekki minnkað að undanförnu vegna þess, að erlent öl hafi verið drukkið, heldur vegna þess, að menn hafa farið að neyta annara vara í staðinn. Þessar hugleiðingar hv. 2. þm. Skagf. og hæstv. fjmrh. eru því út í loftið, eins og það var líka ákaflega barnalegt, þegar hæstv. ráðh. var að bollaleggja um það, að ýmsar vörur væru hærra tollaðar en öl. Það er satt, að t. d. vínföng eru hærra tolluð. En eins og hv. þm. V.-Ísf. var að reyna að sýna fram á, þá er mjög mismunandi, hvað vörur þola háan toll til þess að fólk hætti ekki að kaupa þær. Það fer eftir því, hvað menn meta mikils að fá vöruna til þess að neyta hennar. Nú er það svo um öl, að það er ákaflega lítilsvert nautnameðal. Menn drekka það til að svala þorsta sínum, og hafa því vatn til samanburðar, þegar meta skal, hvort svarar kostnaði að kaupa það. Það er því augljóst, að verð á öli þarf ekki að hækka mikið til þess eftirspurn eftir því fari hröðum skrifum minnkandi, enda hefir reynslan þegar sýnt það. Það þýðir því ekki að tala um, að ýmsar vörur séu hærra tollaðar en öl, það kemur ekkert málinu við. Ef hækkaður er tollur á öli, þýðir það ekki annað en minnkandi framleiðslu, og verður það þannig til að eyðileggja eina af þeim fáu iðngreinum, sem reknar eru í landinu.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki sjá ástæðu til, að ölframleiðslan minnkaði. Ég vísa aðeins til þess, sem reynslan hefir sýnt. Það er ekki annað en fjarstæða, að minnkun ölframleiðslunnar stafi öll af sameiningu verksmiðjanna, eins og einhver vísaði hér til. Sú sameining er svo löngu um garð gengin, að hennar áhrif eru búin að vera. Samdráttur sá, sem orðið hefir á ölframleiðslunni á yfirstandandi og síðastl. ári, stafar af minnkandi neyzlu og engu öðru. Að ætla sér að hækka enn toll á öli til þess að fá auknar tekjur í ríkissjóð, er því tilgangslaust vindhögg.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að þetta væri eiginlega ekki tollhækkun, heldur aðeins niðurfelling á tollívilnun. Hvað er niðurfelling ívilnunarinnar annað en tollhækkun? Hver er afleiðing hennar? Þetta er svo barnaleg hártogun, að það tekur því ekki einu sinni að anza slíku.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að fólkið hefði keypt kaffibætinn hingað til, þó hann væri dýr, og að hann byggist við, að það mundi gera það áfram, þó verðið hækkaði. Þetta minnir mig á gamlan, mætan útgerðarmann norðanlands, þegar skipstjóri á skipi hans fór fram á það að fá nýtt stjórafæri, af því það gamla væri orðið slitið. Útgerðarmaðurinn sagði þá, að stjórafærið hefði nú dugað hingað til og myndi gera það áfram. Eins heldur hv. frsm. meiri hl., að af því að fólkið hefir enn ekki dregið við sig notkun kaffibætis þrátt fyrir vaxandi verð, þá sé óhætt að halda áfram að hækka verðið í það óendanlega. En þetta er misskilningur. Það hlýtur að reka að því, að fólk sér, að kaffibætirinn er dýrari, og hverfur að því ráði að kaupa þá tegund af kaffi, sem ódýrari er. Hæstv. ráðh. heldur, að af því hér er selt brennt og malað kaffi, og verðið hærra á því, þá geri það að verkum að fólk taki ekki eftir því, þó verðið á kaffibætinum hækkaði ofurlítið. Ég held nú, að þessi von reynist svikul, því ef nokkursstaðar er tilhneiging til þess að minnka notkun kaffibætis og veita sér þá nautn að drekka ósvikið kaffi, þá hygg ég, að sú tilhneiging sé mest vakandi hér, vegna þess að menn hafa almenna þekkingu á því, hver munur er á ósviknu kaffi og kaffi blönduðu kaffibæti. (Fjmrh.: Hvað er ósvikið kaffi?). Ég trúi því nú vel, að hæstv. fjmrh. viti það ekki og að honum sé ókunnugt um, hvers vegna kaffibætir er til orðinn í heiminum. En ef hann vill geta yfirlýsingu um það, þá ætla ég að lofa honum að gera það af sjálfsdáðum.