01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. minnti mig á það, að ég ætlaði að víkja lítilli aths. til hv. þm. V.-Ísf. - í öllu bróðerni samt - út af því, sem hann sagði um kaffibætisframleiðsluna hér, að hún væri að litlu leyti innlendur iðnaður, heldur aðallega fólgin í því að hræra saman hráefnum, sem flutt væru að. Hv. þm. Hafnf. vék að þessu og benti á, að það væru ekki eingöngu útlend hráefni, sem notuð væru, heldur að nokkru leyti innlend, og að vakandi áhugi væri fyrir því að nota sem mest af innlendum hráefnum til kaffibætis og að verið væri að gera tilraunir með það. Mér er ekki kunnugt um, hvað langt það er komið, en hygg þó, að eitthvað sé notað af innlendum hráefnum. - Annars kemur þetta ekki svo mjög þessu máli við.

Það, sem hæstv. fjmrh. sagði, var ekki annað en upptugga af því, sem hann er margbúinn að segja og rekið hefir verið ofan í hann hvað eftir annað, en það má náttúrlega gera það einu sinni enn. Hann vildi neita því enn á ný, að hér væri um nokkur brigðmæli að ræða í sambandi við breyt. á þessum l. vegna niðurfellingar hlunninda, sem gefin höfðu verið fyrirtækjum til ársloka 1935, og það af þeirri ástæðu, sem ég vék að áðan, að þetta væru ekki nein hlunnindi.

En þá vænti ég skýringa á því, hvers vegna hlunnindin voru veitt upphaflega. Það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að þessi hlunnindi hafi upphaflega verið veitt vegna samkeppninnar innanlands. Þau voru veitt öllum fyrirtækjum, sem starfandi voru, vegna þeirra byrjunarerfiðleika, sem þau áttu við að stríða, og gert var ráð fyrir, að þau þyrftu að njóta þeirra til ársloka 1935. Svo var það eðlilegt áframhald af þessu, að þegar fleiri fyrirtæki voru stofnuð, þá veittu l. frá 1931 samskonar hlunnindi. Hæstv. ráðh. vildi snúa þessu þannig, að með l. 1931 hefðu verið svikin þau loforð, sem gefin væru með l. frá 1927. En þetta er misskilningur, vegna þess að l. frá 1927 lofuðu engu um það, að engum öðrum fyrirtækjum en þeim, sem stofnsett voru fyrir þann tíma, skyldu veitt þessi hlunnindi. Það var því auðvitað á valdi þingsins að veita hverjum sem vera skal samskonar hlunnindi. Og ég sýndi fram á það áðan, að þessi hlunnindi hefðu verið mikils virði fyrir fyrirtækin þá, vegna byrjunarerfiðleika og erlendrar samkeppni. Þess vegna voru hlunnindin líka veitt, og það er hugsanlegt, að fyrirtækin hafi byrjað sína starfrækslu og haldið áfram með þeim kostnaði, sem gerði þeim nauðsynlegt að njóta þessara hlunninda, og þess vegna álít ég, að þessi breyt. á 1. fái ekki staðizt, vegna þess að fyrirtækin hafi byggt á þeim.