10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

6. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Emil Jónsson:

Þess hefir verið farið á leit við iðnn., að hún athugaði frv. og gerði á því breyt., ef henni þætti þess þurfa. N. hefir nú gert þetta og borið fram brtt. á þskj. 360. Höfuðbreyt. er sú, að færa tollinn aðallega yfir á þær vörutegundir, sem taldar eru ónauðsynlegar. Tollurinn hefir verið hækkaður á brjóstsykri, konfekti og átsúkkulaði úr 1/3 upp í ½ aðflutningsgjald. En svo hefir aftur verið lækkað sem því svarar á öðrum nauðsynjavörum, t. d. kaffibæti o. fl. N. er á einu máli um þessar breytingar. Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta, en vænti þess, að hv. d. sjái, að þetta er sanngjarnt.