08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég geri nú varla ráð fyrir, að eins gott samkomulag verði um þetta mál eins og frv. það um framlengingu á tekju- og eignarskattsauka, sem ég bar fram áðan, því að mér dylst ekki, að margir muni verða andvígir skattahækkun þeirri, sem hér er farið fram á.

Um ástæður fyrir því, að þetta frv. er borið fram, get ég í raun og veru látið mér nægja að vísa til fjárlagaræðu minnar. Eigi ekki að fara fram stórfelldur niðurskurður á verklegum framkvæmdum og öðru því, sem ríkisbúskapnum er nauðsynlegt, verður að auka tekjustofna ríkisins. Nú er það skoðun þeirra stjórnmálaflokka, er styðja ríkisstjórnina, að greiðslur í ríkissjóð eigi fyrst og fremst að miða við gjaldþol manna, og þeir eigi að bera þyngstar byrðarnar, sem breiðast hafa bakið. Úrræði stjórnarinnar til tekjuöflunar hljóta því í samræmi við þetta að vera einkum: Stighækkandi tekju- og eignarskattur, auknir tollar á óþörfum vörum og einkasölur á þeim vörum, sem vel þykja til þess fallnar.

Undanfarin ár hefir tekju- og eignarskattur samkv. lögum frá 1921 verið innheimtur með álagi. 1932 nam álag þetta 25%, 1933 40% og 1934 má telja víst, að álagið verði hið sama og 1933.

Í frv. því, sem hér er borið fram, er lagt til, að tekju- og eignarskattur sé ákveðinn mun hærri en eftir lögunum 1921, eða að skattstiginn verði hækkaður um ca. 16% til jafnaðar, ef miðað er við 40% álagið. - En auk þess eru í frv. ákvæði um það, að stj. megi innheimta skattinn með 10% álagi næsta ár, vegna þess að gert er ráð fyrir, að 1935 verði ekki meðalár um afkomu.

Verði þessi heimild notuð eins og núv. stj. myndi gera, nemur skatthækkunin 25% miðað við 40% álagið, en 75% miðað við lögin frá 1921.

Eins og ég hefi getið um í fjárlagaræðu minni og tekið er fram í grg. frv., er gert ráð fyrir um 450 þús. kr. tekjuauka af þessari breyt. Þar sem ekki er hægt að búast við, að ástand næstu ára breytist að neinum mun til batnaðar frá því, sem var 1933 og 1934, má telja fyllilega víst, að 40% álagið yrði til frambúðar, þótt ekki kæmi ný löggjöf um þetta efni.

Hækkunin á tekjuskattinum er mismunandi, eftir því um hvaða tekjur er að ræða.

Hækkun sú, sem frv. hefir í för með sér, kemur þannig fyrst og fremst niður á tekjum, sem eru yfir meðaltal, á skattinum af tekjum undir meðaltali er ekki um beina verulega hækkun að ræða.

Þá vil ég geta eins nýmælis, sem í frv. felst og er það, að persónufrádrátturinn er hækkaður nokkuð fyrir fullorðna og gerður mismunur á frádrættinum í Rvík og annarsstaðar á landinu. Býst ég við, að við getum allir orðið sammála um, að sanngjarnt sé að gera slíkan mun á frádrættinum, með því að það er miklu dýrara að lifa hér í Rvík en annarsstaðar á landinu. Hitt er annað mál, hvort stj. hefir hitt á að gera frádráttinn réttlátan, býst ég við, að um það megi deila. Jafnframt skal ég lýsa yfir því, að stj. mun ekki endilega halda fast í till. frv. í þessu efni, getur vel komið til mála að gera einhverjar breyt. á þeim. - Eftir frv. er gert ráð fyrir frádrætti fyrir börn til 16 ára aldurs, en með núv. fyrirkomulagi er sá frádráttur miðaður við 14 ára aldur. Er það gert með tilliti til þess, að flestir unglingar stunda eitthvert nám, bóklegt eða verklegt, a. m. k. 2 ár eftir lok skólaskyldualdurs. Hafi barnið hinsvegar tekjur sjálft, kemur það til greina við ákvörðun skattsins, þannig að frádrátturinn lækkar sem tekjunum nemur og fellur burt, ef tekjuupphæðin nemur 500 kr. eða meira.

Þá vildi ég drepa á eina breyt. enn, sem í frv. felst. Hún er sú, að frv. gerir ráð fyrir, að sami skattstigi gildi fyrir einstaklinga og félög, önnur en samvinnufélög. Með núv. fyrirkomulagi er félögum með lítið hlutafé gert lítt mögulegt að starfa, af því að þau verða að greiða margfaldan skatt á við félög með mikið hlutafé, þótt skattskyldar tekjur beggja séu jafnar. Sýnist ekki vera sanngjarnt að skattleggja hinn skattskylda hluta af tekjum smærri félaganna freklegar en hinna stærri. Þann mismun, sem mönnum kyni að sýnast rétt að gera á þessum gjaldendum, á að gera með mismunandi frádrætti við ákvörðun hins skattskylda hluta teknanna, en sjálfsagt virðist, að sami skattur greiðist jafnan af sömu skattskyldum tekjum. Þessi breyt. á skatti félaga, sem frv. ráðgerir, verkar að vísu misjafnlega, til hagræðis fyrir smærri félögin, en þyngir hinsvegar á þeim stærri, en það er hvorttveggja, að hér á landi er fátt slíkra félaga, enda breytist skattur félaganna ekki mikið. Er áreiðanlegt, að þetta er spor í rétta átt.

Ég skal svo ekki þreyta menn með langri framsöguræðu. Ég geri ráð fyrir, að um þetta mál verði nokkrar umr., en ég hefði viljað óska þess, að andinn hér á þingi væri sá, að hafa ekki langar umr. um málin, heldur yrðu þau athuguð því betur í n. og atkvgr. svo látin ganga í þeim. Það er okkur og öllum vitanlegt, að þótt við ræðum málin hér mikið og ýtarlega, er sjaldgæft, að við sannfærum hver aðra. Langar umr. leiða og ekki til leiðréttinga á málunum. - Hitt er annað mál, að nokkrar umr. eru nauðsynlegar.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég drepa á eitt atriði enn. Ég hefi hugsað um það, að þegar tekjuskatturinn verður hækkaður, er hætta á því, að fyrirtæki, sem græða eitt árið, en tapa annað árið, verði fyrir óeðlilegri skattgreiðslu, þegar miðað er við fyrirtæki með jafnri afkomu. Væri ekki óeðlilegt, að fundin yrði leið til að koma í veg fyrir, að þetta misrétti yrði áberandi, og vildi ég fyrir mitt leyti stuðla að því, að fundin yrði einhver leið, sem hefði í för með sér minnkun á þessari hættu. Vildi ég taka þetta strax fram, til þess að koma í veg fyrir misskilning. En það verður miklum erfiðleikum bundið að koma þessu við í framkvæmdinni, svo að till. til úrræða í þessu efni verða að vera rækilega hugsaðar og vel frá þeim gengið. Vil ég beina því til n., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún gefi þessu atriði gaum og athugi það vandlega. Er ég reiðubúinn til að eiga tal við n. um þetta atriði og samvinnu við hana um að gera till. um það.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vona, að sanngjarnlega verði litið á tekjuþörfina, sem fyrir hendi er, og að frv. þessu verði vel tekið. Og mér finnst, að þessar till. séu svo sanngjarnar, að ekki geti verið ástæða fyrir þá, sem hallast að öðrum leiðum í skattamálum, að kippa sér upp við þær.