08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Thors:

Hæstv. fjmrh. gaf okkur þm. það heilræði í lok ræðu sinnar, að hafa sem minnst málskraf í frammi. Minnist ég þess, að hæstv. ráðh. kom fyrst á þing í fyrra, og var þá yngsti maður þingsins og um leið mesta málskrafsskjóða þingsins. Nú er hann orðinn ráðh. og hefir borið fram mörg og illa hugsuð frv., m. a. það, sem hér liggur nú fyrir til umr., og beinir því jafnframt til okkar þm. að þegja við því, sem hann réttir að okkur. Skal ég segja hæstv. ráðh. það, að ég hefi heyrt þetta heilræði hans, en mun ekki fara eftir því.

Hæstv. fjmrh. kom inn á þá athugun í lok ræðu sinnar - sem sýnir, að honum er þó ekki alls varnað í þessum málum - að misæri ísl. atvinnulífs myndi hafa í för með sér, að skatturinn lenti of þungt á einstökum framleiðendum. Er gott að heyra það, að hæstv. ráðh. viðurkennir þannig, að við sjálfstæðismenn höfum haft rétt fyrir okkur um þetta. En það er undarlegt, að þegar hæstv. ráðh. ber fram margar og miklar breyt. á gildandi skattalöggjöf, skuli hann ekki koma með neinar till. til úrræða um þetta atriði, svo nauðsynlegt sem það er vegna allra aðstæðna hér á landi, heldur jafnvel þvert á móti, því að ef frv. hæstv. ráðh. verður óbreytt að lögum, verður það til þess að ríða niður atvinnurekstur allan í landinu. Skal ég nú færa að þessu nokkur rök.

Ég hefi hreyft því oft áður hér á Alþingi, að ríkissjóður notaði meira en góðu hófi gegndi beitingu beinna skatta. Nú er það svo, að bæjar- og sveitarfélög hafa nálega þá einu leið að fara til öflunar tekna, að leggja á útsvör, þ. e. beina skatta, en þegar ríkið ætlar sér að fara í botn á vasa skattþegnanna í álagningu beinna skatta, eins og gert er með þessu frv., er mér spurn: Hvað er þá eftir skilið handa bæjar- og sveitarfélögunum? Hvaðan eiga bæjar- og sveitarfélög að taka fé í sínar þarfir, þegar tekjustofnar þeirra eru rýrðir svo ferlega og gert er með ákvæðum þessa frv.? Ef frv. verður að lögum, er ekki ofmælt, að beinu skattarnir hér á landi séu orðnir óþolandi. Geta menn sannfærzt um þetta með því að bera saman útsvarsálagningarnar hér í Rvík og ákvæði frv. Við útsvarsálagningar hér í Rvík er m. a. beitt þeirri reglu, að taka 40% bænum til handa af tekjum, sem eru fram yfir 25 þús. kr., og skv. ákvæðum frv. skal greiða 40% í skatt af tekjum, sem fram yfir eru 100 þús. kr. Hér við bætist svo eignarskatturinn. Sjá menn, að þessu er eins illa í hóf stillt og mest má verða, enda hika ég ekki við að segja það, að ef frv. verður samþ., verða beinu skattarnir hér á landi miklu hærri en í nágrannalöndum okkar, að þeim löndum ekki undanskildum, þar sem sósíalistar fara með stjórn. Skal ég færa rök að þessu, ef vefengt verðar, við síðari umr. málsins. Við þetta bætist svo, sem og var játað af hæstv. ráðh., að sami skattstigi verkar með margföldum þunga hér vegna þess, hvað útkoman er misjöfn frá ári til árs. Hefir verið sýnt fram á þetta hér í sölum Alþingis áður með óyggjandi tölum, þótt að vísu væri miðað við vægari skattaálögur en hér eru á ferðinni. Samkv. dæmi, sem þá var tekið, munaði þetta fimmfaldri skattupphæðinni hjá tveimur félögum með jöfnu stofnfé og jöfnum gróða í lok 4 ára rekstrartímabils, eftir því, hvort afkoman var jöfn eða misjöfn frá ári til árs. Félagið, sem hafði jafna afkomu, eins og venjan er erlendis, hlaut að greiða 8,9 þús. kr. í tekjuskatt, en ísl. félagið, sem tapaði eitt árið og græddi annað árið, varð að greiða 39 þús. kr. í skatt. Sýnir þetta, hve varhugavert er að beita slíkri skattaálagningu þar, sem aðstæður eru eins og hér á landi.

Um einstakar breyt., sem frv. þetta gerir á gildandi skattalöggjöf, skal ég ekki fara mörgum orðum við þessa umr. Ég vil þó leiða athygli að því, að hækkun sú, sem frv. ráðgerir, er gífurleg. Skal ég nefna nokkrar tölur þessu til sönnunar:

Skattskyldar

Skattur eftir

Skattur

tekjur:

gildandi lögum:

samkv. frv.

2000

22

30

3000

42

70

4000

72

140

5000

112

230

6000

162

340

7000

222

460

8000

292

590

9000

372

730

10000

462

880

14000

922

1540

18000

1542

2280

20000

1912

2680

30000

3887

4980

50000

8337

10780

100000

20637

28980

200000

46637

68980

500000

124637

188980

Lengra er ekki ástæða til að telja. Eins og menn sjá, er hlutfallsleg skatthækkun langmest á tiltölulega lágum tekjum. Skatturinn byrjar að tvöfaldast við 4000 kr. skattskyldar tekjur og heldur áfram upp að 8000 kr. tekjum. Svo lækkar skatturinn hlutfallslega, þar til komið er upp í 50 þús. kr. tekjur, að hann fer aftur að hækka, en hækkunin nemur þá ekki nema liðlega 26-27%. Er það merkileg játning, sem í þessu felst af hálfu hæstv. fjmrh., því að þetta sýnir, að jafnvel honum, þessum radikala manni á sviði fjármálanna, er það ljóst, að skattálögurnar eru orðnar svo miklar, að hann telur ekki rétt að halda áfram á þessari braut, enda er það mála sannast, að álögur frv. eru svo gífurlegar, að liggur við fullkominni fíflsku. Hæstv. ráðh. sagði, að meðaltalshækkunin næmi 60%, og sýnir það þann beiska sannleika, hversu till. hans hafa í för með sér hatramlega hækkun á lágtekjumönnum. En hæstv. ráðh. nægir ekki þessi skattahækkun, svo óþolandi og óhyggileg sem hún er, því að hann fer einnig fram á það að fá að innheimta þennan gífurlega skatt með 10% álagi fyrir árið 1935. Þetta gerir það að verkum, að maður, sem hefði t. d. 4000 kr. skattskyldar tekjur, fengi 154 kr. skatt, eða 114% hækkun frágildandi lögum, maður með 5000 kr. skattskyldar tekjur fengi 253 kr. skatt, eða 125% hækkun, og maður með 6000 kr. skattskyldar tekjur 374 kr. skatt eða 128% hækkun. Hér við bætist svo ennfremur, að í frv. felst heimild til að hækka skattinn með fjárlagaákvæði um allt að 25%, eitt og eitt ár í senn. Og þá líti dæmið þannig út: Maður með 4000 kr. skattskyldar tekjur fengi 175 kr. skatt, eða 140% hækkun, maður með 5000 kr. skattskyldar tekjur fengi 297 kr. skatt, eða 170% hækkun, og maður með 6000 kr. skattskyldar tekjur 425 kr. skatt, eða 170% hækkun. - Hygg ég, að ef hæstv. fjmrh. áttaði sig á þessu, færu að renna á hann tvær grímur um það, hvort hér væri ekki gengið feti lengra en hyggindi og skynsemi geti mælt með.

Það er að vísu svo, að persónufrádrátturinn er hækkaður nokkuð með ákvæðum frv., svo að hann verður nú fyrir einstakling í Rvík 800 kr., en 600 kr. annarsstaðar á landinu, í stað 500 kr. jafnt hvar sem var á landinu eftir gildandi lögum, og fyrir hjón 1500 kr. í Rvík, en 1200 kr. annarsstaðar á landinu í stað 1000 kr. áður. Dregur þetta nokkuð úr þeirri hækkun, sem fljótt á litið felst í frv., en raskar þó engan veginn heildarniðurstöðunum.

Veigamesta breyt. frv. er viðvíkjandi hlutafélögunum. Samkv. gildandi lögum eru þau sér um skattstiga, en eftir frv. á sami skattstigi að gilda um þau og fyrir einstaklinga. Kemur hér fram mikill stefnumunur. Eftir gamla fyrirkomulaginu reiknast skattur hlutfallslega eftir hlutfallinu milli eigin fjár og skattskyldra tekna, en nú á aðeins að miða skattinn við upphæð hinna skattskyldu tekna. Frv. gerir þannig ráð fyrir, að hlutafélögin komi fram sem sérstakur aðili um skattálagninguna, séu frumeiningin, sem miðað er við, en ekki eigendurnir. Veit ég ekki, hvort hæstv. ráðh. hefir gert sér þetta ljóst, en það kemur hvergi fram í grg. frv. Af þessu leiðir hinsvegar, að fjáreigendunum er gert mishátt undir höfði, eftir því, hvort þeir eiga í hlutafélagi, sem hefir mikið hlutafé, eða félagi með litlu hlutafé. Skulum við taka dæmi af 3 hlutafélögum, sem hafa öll jafnar skattskyldar tekjur, kr. 15000, og ættu því eftir frv. að greiða 1720 kr. skatt hvert. Gerum nú ráð fyrir, að eitt félagið hafi 50 þús. kr. hlutafé, annað félagið 100 þús. kr. hlutafé og það þriðja 500 þús. kr. hlutafé. - Allir sjá, að ekki er rétt, að hlutafélag með 50 þús. kr. hlutafé og 15000 kr. skattskyldar tekjur, sem greiðir 30% í arð, greiði ekki hærri skatt en hlutafélag með 500 þús. kr. hlutafé og sömu skattskyldu tekjum, sem hinsvegar greiðir hluthöfum aðeins 3% í arð. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. um það, hvað vakað hefir fyrir honum í því, að gera svo mikinn mun á skattþunga hlutafélaga eftir því, hvort þau hafa mikið eða lítið hlutafé. Það mætti segja, að það væri ástæða til þess að gera þennan mun, ef menn væru ásáttir um, að það bæri að sporna við því, að stór hlutafélög mynduðust hér á landi. Ég hefi verið að velta því fyrir mér, hvort þetta muni hafa vakað fyrir hæstv. ráðh., en ekki getað séð, að hann geti haft nein skynsamleg, rök, sem mæli með því.

Hlutafélög eru meðal fátækra þjóða einasta ráðið til þess að hrinda fram stórum og fjárfrekum fyrirtækjum. Því meiri ástæða er til að veita stórum hlutafélögum byr, sem þjóðfélagið er fátækara. Ég get því ekki séð, að hér á landi sé ástæða til þess að sporna við myndun stórra hlutafélaga, og sérstaklega vil ég benda hv. þingd. á að athuga það, að við sjávarútveginn eru botnvörpungarnir langbeztu framleiðslutækin, og þeir verða ekki reknir af öðrum en hlutafélögum. Þetta er rétt þrátt fyrir það, þó að botnvörpungarnir geti ekki skilað eigendum sínum arði á borð við það, sem smærri útgerðin getur, og stafar það af því, að til botnvörpuútgerðarinnar eru gerðar miklu hærri kröfur. bæði um vinnulaun og skattgreiðslur til hins opinbera, heldur en til minni útgerðarfyrirtækja.

Út frá þessum staðreyndum virðist augljóst, að hlynna beri að því, að stærri hlutafélög geti notið sín, og a. m. k. sé ekki rétt að setja þau ákvæði í lög, sem vinna að því að rífa niður þá viðleitni stærri hlutafélaga að halda út togurunum, sem þau ein eru fær um að gera. En þetta er einmitt gert í frv. Þar er ákveðinn þyngri skattur á stærri félögin en hin minni. Ég vil auk þessa vekja athygli hæstv. ráðh. og hv. þd. á því, að þessi ákvæði bitna miklu sárar á þeim hlutafélögum, sem vinna að framleiðslu, heldur en þeim, sem stunda verzlun, af því að verzlanirnar eru ekki eins fjárfrek fyrirtæki og botnvörpuútgerðin og vil biðja hæstv. fjármrh. að athuga það alveg sérstaklega. Ég skal taka það fram, að auk ýmissa minni háttar atriða í frv., sem eru vafasöm, eru önnur, sem alls ekki má lögfesta, en ég sé ekki ástæðu til að fara inn á einstök atriði frv. við þessa umr. Fulltrúar sjálfstæðismanna í n. þeirri, sem frv. fer væntanlega til, munu beina athygli n. að þessum atriðum.