08.10.1934
Neðri deild: 4. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Thors:

Ég hefi þegar sett fram þær aths., sem mér þykir ástæða til að minnast á við þessa umr. málsins, og rök hæstv. fjmrh. gefa í raun og veru ekki tilefni til andsvara frá minni hálfu nema að litlu leyti.

Það er enginn nýr sannleikur, að tekjur ríkissjóðs verði að fást af tekjum einstaklinga þjóðfélagsins. Það eru vísindi, sem allir hv. þm. áreiðanlega þekkja, og nauðsynjalaust fyrir hæstv. ráðh. að vera með slíkan barnalærdóm á þessum stað.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir svarað því atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem einna mestu máli skiptir, og sýnt fram á, að svar hæstv. ráðh. við fyrirspurn minni í sambandi við rýrnun tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga var fánýtt. Það liggur í raun og veru vel fyrir, að hæstv. fjmrh. skuli einmitt hafa verið formaður niðurjöfnunarn. Rvíkur, og með framkomu sinni í þeirri n. staðfest það, sem ég gat um, að það er þegar búið að ganga svo langt í álagningu beinna skatta, að ekki er skynsamlegt að ganga lengra. Frv. hæstv. ráðh. er þannig, eins og hv. 3. þm. Reykv. sýndi fram á, í beinni mótsögn við yfirlýstan vilja hans sem formanns niðurjöfnunarn. Rvíkur. Ég vil því að gefnu tilefni endurtaka þá fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvaða aukna tekjustofna hann ætlar bæjar- og sveitarstjórnum, eftir að hann hefir með þessu frv. gengið lengra á fyrri tekjustofna þeirra heldur en honum sjálfum þótti fært að gera, þegar hann var formaður niðurjöfnunarnefndar.

Hitt er fyrirlestur, sem hæstv. ráðh. þarf ekki að flytja fyrir mér né öðrum þm., að útsvar og tekjuskattur sé ekki tvísköttun. Það er mál, sem okkur er öllum kunnugt af margvíslegu tilefni, sem orðið hefir til að skýra það á undanfarandi þingum.

Það er ekki rétt hjá hæstv. fjmrh., að hækkun persónufrádráttarins hafi eins mikil áhrif og hann vill láta skína í. Ég reiknaði út áhrif persónufrádráttarins hjá nokkrum gjaldendum á meðan hæstv. ráðh. flutti ræðu sína, og eru þau þessi: Skattur af 3000 kr. skattskyldum tekjum er eftir gömlu lögunum 42 kr., en eftir frv. 70 kr. Sé nú tekið tillit til ívilnunar þeirrar, sem felst í hækkun persónufrádráttarins, verður skatturinn, sem var 42 kr., á einstaklingi í Rvík 58 kr., en á einstaklingi í sveit 66 kr., á hjónum í Rvík 50 kr., og á hjónum í sveit 58 kr. Sé miðað við 4000 kr. skattskyldar tekjur er skatturinn eftir lögunum 72 kr., eftir frv. 140 kr., með ívilnun persónufrádráttarins á einstaklingi í Rvík 119 kr., á einstaklingi í sveit 133 kr., á hjónum í Rvík 105 kr., á hjónum í sveit 119 kr. Sé miðað við 5000 kr. skattskyldar tekjur var skatturinn 112 kr., verður, samkv. frv. 230 kr., með ívilnun persónufrádráttarins á einstaklingi í Rvík 203, á einstaklingi í sveit 221 kr., á hjónum í Rvík 182 kr. og á hjónum í sveit 203 kr. Sé miðað við 9000 kr. skattskyldar tekjur var skatturinn 372 kr., verður samkv. frv. 730 kr., en með ívilnun persónufrádráttarins á einstaklingi í Rvík 688 kr., á einstaklingi í sveit 716 kr., á hjónum í Rvík 660, á hjónum í sveit 668. Með þessu vildi ég sýnt hafa, að þó tekið sé tillit til þeirra áhrifa, sem hækkun persónufrádráttarins hefir á raunverulega niðurstöðu þeirra breyt., sem í frv. felast, þá er skatthækkunin á lágum tekjum engu að síður gífurleg.

Út af aths. minni um breyt. á fyrirmælum l. um skattgreiðslur hlutafélaga sagði hæstv. ráðh., að það væri ekki tekið tillit til þess, hvað mikið fé einstaklingarnir hefðu undir höndum til þess að afla ákveðinna tekna. Af þessu leiddi í huga hans, að ekki væri ástæða til þess að gera það heldur þegar hlutafélög ættu í hlut. Þetta er misskilningur, eins og ég tel mig hafa skýrt í minni fyrri ræðu. Og hæstv. ráðh. á eftir að gera grein fyrir, á hvaða viti eða hugsun það er byggt, að fjáreigandi, sem leggur fé sitt í hlutafélag, sem hefir hátt hlutafé, er látinn sæta annari og verri meðferð heldur en ef hann leggur sama fé í hlutafélag, sem hefir lítið hlutafé. Ég hefi ekki getað komið auga á neina skynsamlega ástæðu fyrir þessu, en ég hefi sýnt fram á, að það er ekki aðeins óréttlátt og ósanngjarnt, heldur getur það jafnvel verið hættulegt, með þeirri sérstöku aðstöðu til atvinnurekstrar, sem hér er. Í þessu sambandi skiptir það engu máli, að hlutaféð í hlutafélögunum er ekki skattlagt sem eign, heldur talið sem skuld við hluthafana, vegna þess að hluthafarnir eru svo aftur skattlagðir fyrir eign sína í félaginu. Hitt skiptir ekki heldur máli, að ákveðið er í þessu frv. eins og öðrum lögum um þetta efni, að heimilt sé að draga 4% af hlutafénu frá ágóðanum, áður en skattskyldar tekjur eru reiknaðar út. Það er gert til þess að draga úr þeirri tvísköttun, sem er nú á tekjum hlutafélaga, annarsvegar á félögunum sjálfum og hinsvegar á hlutafjáreigendunum, eftir að arði hefir verið úthlutað. Þetta hefir engin áhrif á þá jafnvægisröskun, sem ég er að sýna fram á, að verði milli stærri og minni hlutafélaga, eða þann mismun á meðferð ríkissjóðs á þeim mönnum, sem leggja fé sitt í stór hlutafélög, og hinum, sem leggja fé sitt í lítil hlutafélög. Mér virðist af ummælum hæstv. ráðh., að hann hafi ekki við samningu frv. gert sér grein fyrir þessari hlið málsins, og geri ég mér því vonir um, að eftir að þessi aths. er fram komin, geti hann fallizt á að gera þær breyt., sem við athugun kunna að teljast nauðsynlegar til þess að réttlæti náist í þessu efni. Hitt veit ég, að gæti verið nauðsynlegt, að setja strangari ákvæði heldur en nú eru í lögum um það, hvaða kringumstæður þurfi að vera fyrir hendi hjá hlutafélögum til þess að þau verði aðnjótandi þeirra hlunninda eða þess réttlætis, sem felst í ákvæðum gildandi laga um sérstakan skattstiga fyrir hlutafélög; ákvæði til að tryggja, að það hlutafé, sem skattálagningin er miðuð við, sé fyrir hendi. En um það ætti að vera hægt að setja þær reglur, sem að haldi kæmu.