09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi gera nokkrar aths. við umr. í gær.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt því fram, að það væri ósamræmi á milli ákvæða þessa frv. og afskipta minna af niðurjöfnunarn. Rvíkur, með því að öllum útsvörunum hér væri ekki jafnað niður sem beinum skatti. Þykir mér rétt að skýra frá því, að ástæðan til þess, að þetta hefir ekki verið gert, er ekki sú, að meiri hl. niðurjöfnunarn. áliti þetta ekki hægt. Hin er ástæðan, að það hefir verið venja að láta fyrirtæki, enda þótt það gæfi lítinn tekjuafgang, greiða útsvar fyrir þau fríðindi, sem bærinn leggur þeim til og þeim verða að notum við atvinnureksturinn. Er síðar lagt á tekjur þessara fyrirtækja eftir venjulegum reglum, svo að þau verða verr úti en önnur, sem hafa jafnan afgang. Er hér um nokkurskonar rekstrargjald að ræða, sem eðlilegt þykir, að fyrirtæki greiði til bæjarins vegna þeirra fríðinda, sem þau njóta. Varð því að setja fastar reglur um, að öll fyrirtæki greiddu slíkt gjald til þess, að þetta kæmi jafnt niður á gjaldendum. - Ég hefi aldrei sagt það, sem hv. 3. þm. Reykv. vildi herma upp á mig, að ekki væri hægt að jafna útsvörunum í Rvík niður sem tekju- og eignarskatti. Þessi rökstuðningur hefir alltaf fylgt því, sem ég hefi um þetta sagt.

Ég álít, að það sé á misskilningi byggt, þegar menn eru að tala um það, að frv. gangi á tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga, því að hér er ekki um heildarhækkun að ræða á því, sem ríkissjóður tekur, svo að hlutur sveitar- og bæjarfélaganna er óbreyttur eftir sem áður. Það er og ekki heldur hægt að miða allar greiðslur til opinberra þarfa við nettótekjur, eins og ég hefi tekið fram. Vil ég láta það koma skýrt fram, að ég álít, að með frv. sé ekki gengið svo langt að takmarki álagningarmöguleika sveitar- og bæjarfélaganna með beinum skatti frá því, sem nú er. Frv. er stillt svo í hóf, að það lokar ekki þessum möguleikum fyrir sveitar- og bæjarfélögum.

Hv. þm. G.-K. spurði að því í gær, hvaða tekjustofna ég ætlaði handa sveitar- og bæjarfélögunum. Gleymdi ég að svara þessu í gær, en skal gera það nú. Eftir útsvarslögunum, eins og þau eru, hafa sveitarfélögin mjög rúmar hendur um álagningu útsvaranna, svo að þau þurfa ekki aðeins að miða útsvörin við eignir og tekjur, heldur er þeim líka heimilt að miða útsvörin við viðskipti, leggja á svokölluð rekstrarútsvör. Er það áreiðanlega lögum samkvæmt að leggja á slík útsvör. - Ég álít, að þetta frv. gefi ekki tilefni til þess, að sveitarfélögin þurfi að taka upp nýjar aðferðir við útsvarsálagninguna, en vegna fyrirspurnar hv. þm. G.-K. vil ég til viðbótar benda á það, að í öðrum löndum sumum hverjum miða sveitar- og bæjarfélögin útsvörin við eign í fasteign; svo er þetta t. d. í Englandi. Hér á landi er fasteignarskatturinn ekki svo hár, að ég geti ekki hugsað mér að benda á þessa leið. Getur þetta verið til athugunar fyrir hv. þm. G.-K. og aðra þá, sem bera kvíðboga fyrir afkomu sveitarfélaganna í sambandi við þetta sérstaka frv.

Þá minntist hv. þm. G.-K á hlutafélögin. Má deila um það, hvort framfylgt sé ítrasta réttlæti um þetta atriði. Hv. þm. var inni á þeirri hugsun, að keppa skyldi að því að láta jafnar tekjur bera jafnan skatt. Ef þessi hugsun er hugsuð til enda, þyrfti að hafa það fyrirkomulag að jafna tekjum félaganna niður á hin persónulegu framtöl hluthafanna, svo að fram kæmi, hvað hver og einn ætti í heild og hefði í heildartekjur. En þetta er óframkvæmanlegt. Verður ekki hjá því komizt að viðurkenna félögin sem löglegan sérstakan aðilja um skattgreiðsluna, og er þá réttmætt, að þau greiði sama skatt og einstaklingar verða að gera af sömu tekjum, enda er þetta ekki óþekkt fyrirbrigði hér á landi. Félög með óinnborgað hlutafé og stofnfé eru nú sköttuð eins og frv. gerir ráð fyrir, að öll félög verði sköttuð. Vil ég bæta því við, að ég álít, að það hagræði, sem af því leiðir að hafa félögin stór, muni fullkomlega vega upp á móti þeirri litlu skatthækkun, sem þetta hefir í för með sér. Ef hagnaðurinn er ekki svo mikill af því, að hann vegi upp á móti þeim mismun, sem verður í skattálagningu litlu og stóru félaganna verð ég að segja það, að ég sé ekki, hvert keppikefli er að hafa félögin stór.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. við hv. þm. G.-K. höfum báðir tekið það helzta fram, sem styður málstað okkar hvors um sig. Er nú rétt, að þetta atriði verði athugað í n. og að hún fái tækifæri til að skera úr því, hvor okkar hefir rétt fyrir sér. - Ég geri og ekki ráð fyrir að taka aftur til máls við þessa umr. Ég legg áherzlu á það, að málið gangi sem fyrst til nefndar.