09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Pálmason:

Hæstv. fjmrh. óskaði eftir því í gær, að fjármálatill. stj. yrðu ræddar í heild sinni. Gefur þetta mér tilefni til að víkja að till. stj. og stefnu í þessum málum. Þeir, sem hér hafa talað, hafa og allir verið úr kaupstöðunum, svo að það er eigi fjarri lagi, að einn sveitamaður láti til sín heyra. Það hefir að vísu oft verið látið klingja, að sveitirnar borguðu lítinn tekju- og eignarskatt, svo að það kann að þykja undarlegt, að sveitamaður sé að tala um þessi mál, en ég mun þó ekki biðja afsökunar á því. Að bændur hafa borgað lítinn tekju- og eignarskatt undanfarið, stafar og ekki af því, að lögin séu sérstaklega vingjarnleg í þeirra garð, né heldur af því, að bændur hafi svikizt undan skatti, eins og á þá hefir verið borið, heldur er orsakanna að leita til örðugleikanna í sveitunum, sem eru og hafa verið þannig öll þau ár, sem liðin eru síðan skattalögin gengu í gildi, að undanskildu árinu 1924, að almennast hefir verið halli á rekstrinum.

Um fjármálatill. stj. er því fremur ástæða til að ræða, að þar stöndum við þingmenn á þeim landamerkjum, sem aðskilja menn og flokka og stefnur í fjármálum þjóðarinnar. Vænti ég, að mönnum verði það ljóst, áður en ég hefi lokið ræðu minni. - Hæstv. fjmrh. heldur því fram, að aðeins sé um tvær leiðir að ræða út úr núv. ástandi, annaðhvort að fella niður verklegar framkvæmdir eða afla meiri tekna, þ. e. þyngja skattana, sem á framleiðslunni hvíla. Er þetta kenning, sem hljómað hefir nú senn í sjö ár af munni framsóknarráðh. Og þessi villukenning hefir leitt Alþ. út á þær brautir að þrengja meir og meir að atvinnuvegunum, enda er nú svo komið, að þegar hefir orðið að grípa til sérstakra ráðstafana, og þarf auðsýnilega að ganga lengra í því efni, ef allt á ekki að lenda í hruni.

Það er vitanlegt, að flestir eru sammála um það, að ekki megi draga úr verklegum framkvæmdum, heldur beri jafnvel þvert á móti að stefna að því að auka þær sem mest má verða, til þess að reyna að stuðla að því, að atvinnureksturinn í landinu svari til fólksfjölgunarinnar. Hin leiðin, sem hæstv. fjmrh. vill fara, að auka skattana sí og æ, er líka ófær. Ríkissjóðurinn verður að skilja eitthvað eftir handa sveitar- og bæjarfélögum. Í sveitunum hefir það verið svo í seinni tíð, að útsvörin hafa almennast verið tekin af eign, tekjur hafa ekki verið til að taka þau af. Afleiðingin hefir líka orðið sú, að útsvörin innheimtast ekki, heldur safnast saman frá ári til árs, en borgast annarsstaðar með nýju lánsfé. Má af þessu vera ljóst að ófært er að fara þessa leið, að auka álögurnar. Það eru og ekki aðeins sveitirnar, sem eru að sligast undir skattaálögunum, kaupstaðirnir eiga líka í vök að verjast. Þriðja leiðin til úrlausnar er líka fyrir höndum, og hún er sú eina rétta, sem sé að lækka gjöldin. Það vill líka svo vel til, að Framsfl. hefir það á stefnuskrá sinni, að færa niður þau gjöld, sem orsakast af rekstri þjóðarbúsins, og er þetta algerlega í samræmi við stefnu okkar sjálfstæðismanna í þessum málum. Munurinn er aðeins sá, að Framsfl. hefir farið öfugt að í framkvæmdinni öll þau 7 ár, sem hann hefir stjórnað þessu landi, því að á öllu þessu tímabili hafa gjöldin stórhækkað, skattarnir hækkað og skuldirnar hækkað, og því er fjármálalíf þjóðarinnar á þeirri leið, sem raun ber vitni um. Það hefði nú mátt ætla, að hæstv. fjmrh., sem er ungur maður og framgjarn, hefði sett sér það mark, að framkvæma hina yfirlýstu stefnu síns flokks í fjármálunum, að lækka útgjöld ríkissjóðs. Ég hafði vonazt eftir skynsamlegum till. frá honum í þá átt, og þá skyldi ég vera manna fyrstur til að styðja hann að málum, en í skattafrv. hans og fjárlfrv. bólar lítið á slíku. Enn hafa ekki komið frá honum till. um að lækka dýrtíðaruppbót, ekki till. um að fækka embættum eða ríkisstofnunum eða lækka laun embættismanna, og þó er það á allra vitorði, að þeir hafa við langtum betri kjör að búa en framleiðendur. Þá vil ég minnast á annað atriði, sem viðkemur fjármálum ríkisins og hæstv. ráðh. kom lítið eitt inn á í gær, og það eru tolltekjur ríkisins og innflutningshöftin. Hvað á það lengi að ganga að rýra tolltekjurnar með innflutningshöftunum og að hve miklu gagni koma þessi haftalög? Ég hefi nú svipazt eftir því á undanförnum árum, hvað fáanlegt væri af ónauðsynlegum varningi hér í Rvík. og ég hefi ekki séð, að neitt vantaði í þeim efnum, ég hefi hvergi séð merki þess, að þessar vörur væru háðar innflutningsbanni. Ég held, að gum hæstv. ráðh. af áhrifum innflutningshaftanna sé mest í orði, en í framkvæmdinni gæti þeirra lítið. Það er talað um, að árið 1932 hafi innflutningur minnkað, og það er þakkað höftunum, en strax árið 1933 óx hann, og á þessu ári er hann meiri en áður, og þó vantar ekki, að stj. hefir reynt að beita innflutningshöftunum. Ég held, að minnkun innflutningsins 1932 hafi stafað af minni kaupgetu það ár hjá almenningi heldur en var bæði áður og síðar, því að kaupgetan óx árin 1933 og 1934 og þá óx líka innflutningurinn.

Þá vildi ég minnast á annað í þessu sambandi, sem hlýtur að hafa áhrif á fjárhag ríkisins árið 1935, og það er það, hvernig áfengismálið verður leyst. Áfengisnautnin hefir undanfarið verið allt of mikil í landinu, en það, sem verra er, hún hefir að miklu leyti farið eftir ólöglegum leiðum. En ef lausn á áfengismálinu verður á viti byggð, þá hlýtur ríkissjóður að fá mikið auknar tekjur af þessari nautn, þó hún ekki aukist, sem allir óska að ekki verði.

Svo að ég víki aftur að frv. þá vil ég spyrja, hvað lengi það á að ganga að hækka beina skatta til ríkisins á kostnað bæjar- og sveitarfélaga? Hæstv. ráðh. segir, að sveitar- og bæjarfélög hafi rúmar hendur til að afla sér tekna. Reynslan hefir nú sýnt alveg það gagnstæða. Hún hefir sýnt, að það er ákaflega erfitt fyrir sveitar- og bæjarfélög að innheimta útsvör og önnur lögboðin gjöld, og ástæðan er sú, að beinir skattar í ríkissjóðinn eru allt of háir. Viðvíkjandi afgreiðslu þess máls, sem hér liggur fyrir, skal ég taka fram, að ég mun greiða frv. atkv. til n. Hvort ég greiði því atkv. út úr þinginu er öðru máli að gegna, en ég vil gefa fjhn. færi á því, að reyna að ná samkomulagi um að sameina í eitt beinan skatt til ríkissjóðs, sveitar- og bæjarfélaga, og skipta honum svo eftir einhverjum hæfilegum hlutföllum. Þótt sá skattur yrði í heild eitthvað talsvert hærri en frv. leggur til, þá mundi ég geta fallizt á það. Með þessum forsendum greiði ég frv. atkv. til 2. umr.