09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurður Kristjánsson:

Ég var í gærkveldi í raun og veru hættur við að taka til máls um frv., með því að aðalatriðin, sem ég ætlaði að tala um, hafa nú verið færð fram af öðrum. Þó eru það nokkur veigamikil atriði, sem eftir er að minnast á.

Ég skal þá byrja á að taka það fram, að ég hefi reynt þá ógæfu, að vera með við það að jafna útsvörum á fátækt fólk. Það er áreiðanlegt, að þegar sami maður á líka að fara að leggja skatt fyrir ríkissjóð á sama fólkið, þá skilur hann, að það er með þessu frv. höggvið nokkuð djúpt niður í vasa almennings. Ég hefi minnzt á þessa tvöföldu skattaálagningu bæði á mannfundum og við einstaka menn, og ég veit ekki betur en að það sé almennt álit, að það nái ekki nokkurri átt, að ríkið fari að seilast svo inn á þetta eina svið, sem sveitar- og bæjarfélög hafa til tekjuöflunar. Nú virðist svo sem það hefði verið sanngjarnt af ríkinu að láta sveitarfélögin halda í friði þeim tekjustofni, er þau hafa haft í háa herrans tíð, en ástæðurnar eru nú breyttar. Löggjafarvaldið hefir hlaðið skyldum á skyldur ofan á borgarana og sveitarfélögin. Þar við bætist, að borgararnir gera sífellt meiri og meiri kröfur til sveitarfélaganna, en af því leiðir, að útgjöld þeirra hækka alltaf meir og meir. Þrátt fyrir þetta leyfir þó ríkið sér að hlaupa í kapp, við sveitarfélögin um þeirra eina tekjumöguleika, eins og nú er gert og gengið lengra en 1921.

Það er að sönnu rétt að játa, að þingið sá það þá, að lögin voru of frek, enda voru þau lækkuð tveim árum seinna, og það að miklum mun. Nú er sporið stigið lengra en stigið var með þeim skammlífu bráðfeigu lögum 1921. Ég vil aðeins nefna nokkur dæmi um skattinn.

Með lögunum frá 1921 er 4% skattur á hreinar tekjur yfir 3 þús. kr., í frv. er skatturinn 7% af sama skattstofni. Í lögunum frá 1921 var skatturinn 5% af tekjum yfir 4 þús. kr., í frv. er hann 9%, og í lögunum var skattur af tekjum yfir 5 þús. kr. 6%, en í frv. er hann 11%.

Ég fer ekki lengra út í þennan samanburð. Hv. þm. G.-K. sýndi í gær mjög ljóslega, hver munurinn er. Þess vegna furðar mig stórlega á því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að frv. væri mjög stillt í hóf. Ég held, að hann viti ekki, hvað það þýðir að stilla í hóf.

Ég skal nú taka þráðinn þar, sem ég sleppti honum áðan. Eftir að þarfir kaupstaða og sveitarfélaga uxu, urðu meiri vandræði á að fullnægja þörfunum. Jafnframt tók þá löggjafarvaldið að seilast eftir tekjustofni sveitarfélaganna handa ríkissjóði. Leiddust sveitarfélögin þá til þess að leggja útsvör á annað en tekjur manna og eignir. Ekki tókst það fimlega þar, sem ég þekki til. Var byrjað á því að leggja gjald á framleiðsluna eða útfluttar vörur. Nú hefir það komið fyrir, að oft hefir orðið tap á framleiðslunni, þannig að þau fyrirtæki, sem meira hafa flutt út, hafa orðið fyrir meira tapi en hin, sem minna hafa flutt út. Fékk þá það fyrirtæki, sem varð fyrir meira tapi, hærra gjald en hitt, sem minna flutti út og minna tapaði. M. ö. o. það hefir verið lagt á tapið. Geta allir séð, út í hvert forað þá er komið, þegar farið er að taka féð þar, sem það er ekki til. Niðurjöfnunarnefndirnar sáu, að þetta var ófær leið, sem þeim var skipað að fara, og þá var valin önnur leið, það er farið að leggja á reksturinn; það var nær lagi, en með því lætur löggjafarvaldið, sem búið var að taka tekjustofn sveitar- og bæjarfélaga handa ríkinu, sveitar- og bæjarfélögin aftur ræna tekjustofni ríkisins. Með því eru sveitar- og bæjarfélög farin að leggja toll á vörur, því að þó niðurjöfnunarn. leggi þetta á verzlunarfyrirtækin eftir vissum reglum, þá kemur það fram eins og tollur, sem almenningur borgar með hækkuðu vöruverði. Eins og allir sjá, er hér runnið á kapphlaup um tekjustofnana milli þessara tveggja hita, sveitarfélaganna og ríkissjóðs. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því, og það verður að greina á milli þessara híta, það þarf að skipta tekjustofnunum. Annars heldur kapphlaupið áfram, sem auðvitað endar með því, að ríkið knésetur sveitarfélögin og gerir þeim með öllu ómögulegt að rækja skyldur sínar gagnvart sínum borgurum.

Ég hefi oft hreyft því bæði við einstaka menn og á málfundum, að réttast væri að fara þá leið að leggja tekju- og eignarskatt á í einu lagi. Hefir þeim, sem ég hefi rætt við, þótt sjálfsagt, að sveitar- og bæjarfélög fengju þann skatt að mestu eða öllu leyti. Það mætti kannske ætla ríkinu svo sem 20% af skattinum í bæjunum. Ég nefni það rétt sem dæmi, en þá þyrfti kapphlaupið ekki lengur að standa. Eins og horfurnar eru núna gerir þetta frv. bæjarfélögunum ómögulegt að sinna hinum geysilega vaxandi þörfum, sem að þeim kalla. Og ég vil í sambandi við það spyrja Alþ., hvort það sé rétt, sem ég hefi heyrt, að þetta frv. eins og öll önnur frv. stj. sé samþ. utan þings af öllum þeim, sem styðja stj. Ég spyr ekki að þessu, af því að það sé nokkur ósvinna að samþ. lög utan þings og síðan að halda einskonar sjónleik eða skrípaleik um þau í þinginu, heldur af því, að maður úr miðstjórn Framsóknarflokksins hefir sagt mér, að svo væri, og að atkvgr. um þau í þinginu væru aðeins formsatriði, þau væru fyrirfram samþ. Ég finn ástæðu til að spyrja að þessu, enda þótt ég taki ekki orð þessa manns sem veðtryggingu fyrir því, að þetta sé satt. Ástæðan fyrir spurningunni er líka sú, að ég veit, að Alþýðuflokkurinn hefir lagt kapp á að ná meirihluta í sveitar- og bæjarfélögum og hefir náð því marki á ýmsum stöðum. En ég tel mjög vafasamt, að sá flokkur haldi áfram að vinna sér fylgi, ef hann styður frv. það, sem hér liggur fyrir.

Það verður að líta eftir margvíslegum kröfum sveitar- og bæjarfélaga, og ég vænti þess, að ábyrgðartilfinningin geri hæstv. stj. það ljóst, að ekki ber að slá hvern bita frá munni þeirra manna, sem sveitar- og bæjarfél. eiga að sjá um. Það ber ekki að loka þannig leiðum fyrir því, að hægt sé að sinna réttmætum og óumflýjanlegum kröfum þeirra borgara, sem stj.flokkarnir bera ábyrgð fyrir sem ráðandi meirihl. í sveitar- og bæjarfél.