09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hannes Jónason:

Þegar selt er löggjöf um tekju- og eignarskatt, er óhjákvæmilegt að taka mikið tillit til þeirra útgjalda, sem hvíla nákvæmlega á sama tekjustofni hjá hinum ýmsu sveitarfélögum. Í þessu efni get ég verið mjög á sama máli og hv. þm. A.-Húnv.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri um hækkun á tekju- og eignarskattinum að ræða með þessu frv. (Fjmrh.: Ekki hækkun á tekjum ríkissjóðs). Skatturinn fer allur til ríkisins. Ef ekki væri um hækkaðar tekjur ríkissjóðs að ræða, þá hækkaði skatturinn ekki heldur (Fjmrh.: Ekki heildarhækkun). Þetta byggist á misskilningi hjá hæstv. ráðh. Með þessu móti eru þær tekjur ríkissjóðs, sem á þennan hátt fást, teknar af þeim mönnum, sem hafa borið uppi mikinn hluta sveitar- og bæjargjalda, og þeir þar með gerðir ófærari til að inna þær greiðslur af hendi. Nú mun hæstv. ráðh. segja, að þetta geri ekki svo mikið til, því að þá sé ekki annað en færa útsvörin yfir á þá, sem með l. þessum er létt á. Sveitar- og bæjarstj. eiga að reita það, sem ríkissjóður skilur eftir. Nú er það svo með þessa menn, sem eitthvað eru betur stæðir en aðrir, að á þá er lagt eins og hægt er frekast án þess að þeir verði að hrökklast burtu. Ég þekki dæmi þess, að bóndi með 100 kindur hefir orðið að láta þriðjung af öllum lömbum sínum í útsvar. Ég hefi heyrt marga telja þetta svo mikla byrði, að ekki sé verandi við búskap undir slíkum skilyrðum, þótt ella væri vel við unandi.

Hæstv. ráðh. minntist á, að e. t. v. væri rétt að láta sveitar- og bæjarfél. í té einhverja heimild til álagningar fasteignarskatts. En hversvegna ekki að láta þeim alveg eftir þennan tekjustofn. Það væri hið rétta og hlaða svo ekki á tekjur og eignir meiru en svo, að hægt væri að láta þennan aðaltekjustofn bera nokkra byrði sveitarfélaganna. Útsvörin, í sveitunum a. m. k., eru nú þannig, að segja má, að um þau gildi svipaðar reglur og um tekju- og eignarskatt, og sá skattur mjög lagður til grundvallar. Það er svo um fasteignarskattinn, að þótt hann sé ekki talinn hár, þá er hann hærri en í fljótu bragði virðist með því að lesa sjálf l., því að í öðrum l. er sveitarfél. heimilað að skattleggja fasteignir, t. d. er vegaskatturinn 6% af fasteignamati eignarinnar, sem ekki er smáupphæð. Menn munu segja, að ekki tjái fyrir okkur sveitamenn að vera að tala um þessa hækkun á tekju- og eignarskattinum, vegna þess hve sveitirnar greiði lítið og muni greiða lítið, en mér virðast vera að verða nokkur straumhvörf í þessu efni hjá valdhöfunum og meiningin að þyngja þessar skattabyrðar frá því, sem verið hefir. Ég hygg, að menn úti um land hafi fengið undanfarið skrif frá hinni svokölluðu „ríkisskattanefnd“, þar sem gerðar eru leiðréttingar við framtöl bænda. Þetta eru merkileg skrif, því að talið er til skattsvika, ef ekki stendur heima hjá bændum ærtalan í ár við ærtöluna í fyrra, að viðbættum lömbum. Rolluskjáturnar eru með þessu gerðar ódauðlegar, og er ekki nema gott, ef svo væri í raun og veru, en hræin liggja úti um hagann hröfnum og hundum að bráð, en „ríkisskattanefndin“ hirðir laun sín úr ríkissjóði. Sá er munurinn.

Ég vil í þessu sambandi benda hæstv. stj. á það, hvort ekki væri hægt að spara ríkissjóði það fé, sem látið er renna til þessarar n., sem gerir sér það til dægrastyttingar að skrifa annað eins og þetta og telja skattsvik, þótt ær hrökkvi upp af og komi þar af leiðandi ekki framtaldar til skatts.