09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson):

Í grg. fyrir frv. um tekju- og eignarskatt og við 1. umr. hér í d. hefir hæstv. fjmrh. gert grein fyrir þeim tekjuauka, sem í frv. felst. Eins og fjárl.frv. fyrir 1935 sýnir, er greiðsluhallinn að þessu sinni mjög mikill, upp undir 2 millj. kr., og þarf að jafna þennan halla. Til þess eru tvær leiðir, önnur sú að auka tekjurnar, hin að lækka útgjöldin. Um báðar leiðirnar má segja, að þær orki tvímælis um vinsældir. Fara vinsældirnar eftir því, hvernig hvor aðferðin kemur við menn fjárhagslega, hvað menn gjalda og hvers þeir njóta. Ég býst við, að yfirleitt láti það betur í eyrum, ef talað er um að lækka útgjöldin, en sú leið hefir oftast reynzt torsótt. Þegar um er að ræða lækkun útgjalda fjárl., sést þegar, að mikill hluti þessara útgjalda er nauðsynlegur, útgjöld til ríkisrekstrar og lögboðin útgjöld, svo að sú lækkun er ekki mikil, sem þar getur orðið. Í öðru lagi koma á hverju þingi háværar kröfur um útgjöld til verklegra framkvæmda eða óskir um styrki, sem ýmsir telja nauðsyn bera til, að sinnt sé. Þm. draga yfirleitt taum síns kjördæmis og togast þar allir á, og dregur hver sinn skekil, en útkoman verður sú, að útgjöldin hækka meira en þau lækka. Af þessum ástæðum hefir greiðsluhalli fjárl. farið vaxandi. Hefi ég því ekki þá trú, að þessi leið sé fær til að jafna tekjuhallann að verulegu leyti, þó að sjálfsagt sé að fara eins langt og unnt er á þeirri leið. Hin leiðin, að auka tekjurnar, verður ekki farin nema með miklum álögum.

Fyrir Alþ. liggja nú nokkur tekjuaukafrv., t. d. frv. um tekju- og eignarskattsauka og um framlengingu á verðtolli. Býst ég við, að þau verði samþ. Þá eru frv. um tollahækkanir, og veit ég ekki hvað um þau verður. En þrátt fyrir þessi frv. vantar mikið á, að greiðsluhallinn jafnist. Þetta frv. mundi þó muna mestu, ef samþ. yrði.

Flestum mönnum mun nú þykja fullásett af sköttum, en þó mun nú þessi leið vera einna færust. Þessi leið hefir á undanförnum þingum verið viðurkennd, með því að samþ. 25% álagningu á tekju- og eignarskatt 1932 og 40% 1933. Þar sem allar líkur eru til, að enn mundi þurfa að ganga sömu braut, virðist það vera eðlilegra að breyta nú tekju- og eignarskattsl. í það horf, sem þörfin krefur, heldur en að framlengja á hverju þingi tekju- og eignarskattsaukann.

Nú skiptir mjög í tvö horn um vinsældir þessara leiða hinna beina skatta. Hún er vinsæl hjá þeim, sem hafa litlar tekjur og litlar eignir, því að hún kemur vel við þeirra léttu pyngju. Aftur er hún óvinsæl hjá þeim, sem hafa miklar tekjur og eignir, af því að hún kemur illa við þeirra þungu pyngju. Hér kemur til greina vöntun á fórnfýsi þeirra, er mest hafa handa á milli, þegar um það er að ræða að leggja fram nauðsynleg efni til almennra þarfa. Þaðan stafar andstaðan gegn frv. Ég skal játa, að frv. gefur nokkru meiri tekjur en tekju- og eignarskattsaukinn með 40% álagningu. Þessi aukning liggur í hækkun skattstigans. Hinsvegar er í þessu frv. gert ráð fyrir hækkuðum persónufrádrætti. Frv. gerir ráð fyrir 800 kr. persónufrádrætti fyrir einstakling í Rvík, en 600 kr. annarsstaðar á landinu. Fyrir hjón í Rvík er gert ráð fyrir 1500 kr. frádrætti, en 1200 kr. annarsstaðar á landinu.

Hækkun sú, sem frv. gerir ráð fyrir, kemur lítið eða alls ekki við þá, sem lágar tekjur hafa.

Þegar frv. var til athugunar í fjhn., urðu um það skiptar skoðanir og klofnaði n. um það. Meiri hl. sá sér ekki annað fært en að leggja með því, að frv. yrði samþ. En minni hl. gat ekki fallizt á frv. í meginatriðum, og hefir hann samið sérstakt nál. Þó gerði meiri hl. n. nokkrar brtt. við frv., og leggur hann til, að hv. d. samþ. það með þeim breyt. Skal ég fara nokkrum orðum um þessar brtt.

1. breyt. er við 2. gr. frv. og er í rauninni ekki annað en leiðrétting. Í stað orðanna „innborgað stofnfé“ komi innborguðu stofnfé“.

Þá er breyt. við 6. gr. frv. Sú breyt. er ekki heldur annað en leiðrétting á tölum, er af vangá hafa komizt í frv.

Þriðja breyt. er við 7. gr. Greinin falli niður og greinatalan breytist samkv. því. N. leit svo á, að í stað þessa ákvæðis, sem leyfir að hækka eða lækka tekjuskattinn um allt að 25% eitt og eitt ár í senn, með fjárl.ákvæði, væri réttara að hafa sömu reglur og um tekjuaukafrv., að láta það ganga gegnum báðar d.

1. breyt. er við 8. gr., frv., að við liðinn bætist: „nema skattfrjálst sé samkvæmt sérstökum l.“ Þarna er talað um happdrætti, en það er vitað um happdrætti háskólans t. d., að það er skattfrjálst.

Þá er 5. breyt. við 9. gr. Liðirnir a-c í þessum breyt. miða allir að því að veita félögum þeim, sem um ræðir í gr., frekari ívilnanir og draga úr hinu aukna álagi á þau. Kemur þetta af því, að skattgreiðsla þeirra í hlutfalli við innborgað hlutafé er öðruvísi ákveðin nú en í eldri l. Breyt. í d-lið er á þá leið, að ef nokkur upphæð úr varasjóði er síðar notuð til úthlutunar til hluthafa eða varið til annars en að mæta hreinum rekstrarhalla félagsins, þá skuli telja 3/5 þeirrar fjárhæðar, sem þannig er ráðstafað, til skattskyldra tekna félagsins á því ári. En í frv. stendur helmingur, fyrir 3/5 í brtt.

6. breyt. er við 11. gr. frv., b-lið. Aftan við liðinn bætist: „Tap, sem verður á atvinnurekstri félaga eða einstaklinga og nemur meiru en varasjóði, má flytja á milli ára og draga frá skattskyldum tekjum þar til það er að fullu greitt, enda hafi verið gerð fullnægjandi grein fyrir tapinu á framtali til tekju- og eignarskatts fyrir það ár, þegar tapið varð“. Er þetta gert til að létta á hlutafélögum, sem orðið hafa fyrir miklu tapi, og er gengið svo langt að heimila frádrátt á öllu því tapi, sem ekki fæst bætt úr varasjóði. Ég vildi ekki ganga svona langt, en til þess að forðast ágreining í n., skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Tel ég þó enn, að hér sé of langt gengið.

7. brtt. er við 16. gr. frv. Greinin falli niður, og greinatalan breytist samkv. því. Ástæðurnar eru þær, sem áður voru fram teknar.

8. brtt. er við 32. gr. Í b-lið gr. komi á eftir orðinn „yfirskattanefndarmenn“, orðin: „utan Reykjavíkur“. Í gr. er talað um, að kaup yfirskattanefndarmanna skuli vera 8 kr. á dag. N. leit svo á, að yfirskattanefndarmenn í Rvík ættu að koma undir c-lið gr., þar sem talað er um, að borgun til skattstjóra og ríkisskattan. fari eftir samningi við fjmrh.

Þessar breyt. meiri hl. fjhn. eru að áliti nefndarinnar allar til bóta, og leggur meiri hl. til, að hv. d. samþ. frv. með þeim.

Fram hefir komið nál. frá minni hl. fjhn. Þar er margs getið, og kemur nál. viða við. Ég vil sérstaklega taka til athugunar 4 atriði í þessu nál.

1. Skattahækkunina.

2. Hundraðsgjöldin.

3. Samanburðinn við önnur lönd.

4. Hlutafélögin.

1) Í útreikningi á skattahækkuninni miðar hv. minni hl. við skattstigann í l. 1921, en tekur ekkert tillit til 40% álagningarinnar. Eftir þeim útreikningi, sem fyrir n. lá, var ekki aðeins miðað við skattstigann frá 1921, heldur líka 40% álagninguna. En með þessum útreikningi fær hv. minni hl. þá útkomu, að skattgreiðslan tvöfaldist stundum. Það er vitanlega rétt að miða við núgildandi skattagreiðslur með 40% álagningu. Skýrslur sýna, að þá lækkar skatturinn á einhleypingum með 3000 kr. tekjur og minna og eins á 5 manna fjölskyldu með 6000 kr. tekjur og minna. En á einstaklingum með 7-8000 kr. tekjur hækkar skattgreiðslan um 49% og á hjónum um 41%. - Utan Rvíkur er skatturinn líkur á tekjum upp í 5000 kr. Mest hækkar hann á einstaklingum utan Rvíkur um 59% og á hjónum um 53%, þegar tekjurnar eru komnar upp í 7000 kr. Má því segja, að skatthækkun sé engin utan Rvíkur, heldur skattlækkun á ýmsum stigum, því að fáir utan Rvíkur hafa þetta háar tekjur, a. m. k. fáir einhleypingar.

Hv. minni hl. segir í nál. sínu, að í Rvík verði samanlagður skattur og útsvar af 4000 kr. hreinum tekjum 237.40 kr. eða 5,9%, af 6000 kr. hreinum tekjum 617.20 kr. eða 10,3% og af 10000 kr. hreinum tekjum 1781.00 kr. eða 17,8%, miðað við frv. Breyt. er því ekki meiri en svo, að af 4000 kr. tekjum er tekið álíka mikið og verið hefir. Af 6000 kr. tekjum er tekið 1,4% meira og af 10000 kr. tekjum 2,6% meira. Get ég ekki kallað þetta gífurlega hækkun, og held ég, að það geti ekki oltið á mjög miklu fyrir mann, sem hefir 10000 kr. tekjur, hvort hann verður að greiða af þeim 15 eða 17%. Það ber að athuga, að miðað sé við tekjur, þegar búið er að draga frá greitt útsvar og tekjuskatt frá fyrra ári. Þriðja atriðið er samanburður við önnur lönd, t. d. Danmörk og England. En samanburðurinn við önnur lönd er hæpinn, vegna þess að skattakerfin eru svo ólík og tekjustofnunum er svo misjafnlega skipt milli ríkisheildarinnar og einstakra bæjar- og sveitarfélaga. Þess vegna getur farið svo, að samanburðurinn verði óáreiðanlegur.

Þess ber að gæta, að þessar þjóðir, sem ég nefndi, eru auðugar, en vér Íslendingar erum fátækir. Sá fátæki verður að leggja meira á sig en sá ríki til þess að sjá afkomu sinni borgið. Minni hl. hv. n. getur um það, að í Danmörku sé heimild til þess að heimta tekju- og eignarskatt með 25% álagningu, og útsvör í Khöfn. með 20% álagningu.

Þetta er tekju- og eignarskattur og útsvör á einstökum mönnum í Khöfn.: Af 4000 kr. hreinum tekjum er skattur 80 kr. og útsvar 211.20 kr. Alls er skattur og útsvar 291.20 kr. Af 6000 kr. hreinum tekjum er skattur 190.30 kr. og útsvar 444.60. Alls 634.90 kr. Af 10000 kr. hreinum árstekjum eru borgaðar 515.00 kr. í skatt og 936.00 kr. í útsvar, samtals 1451.00 kr. Af 15000 kr. eru borgaðar 983.75 kr. í skatt og 1536.00 kr. í útsvar; samtals 2519.75 kr.

Þetta sýnir, að með viðaukum borga Kaupmannahafnarbúar meira í skatt og útsvar en íbúar Rvíkur myndu gera samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir, af 4-6 þús. kr. tekjum, en lítið eitt minna af 10 þús. kr. tekjum. Nú er verið að leggja fyrir þingið í Danmörku till. um að leggja 25% skattauka á hlutafélög og eignir. Þá verður það svo, að skattur í Danmörku verður tiltölulega hærri en á Íslandi.

Þá kem ég að hlutafélögunum. Hv. minni hl. n. telur að þau verði beitt misrétti af þessu frv., ef það verði gert að lögum.

Ég skal geta þess í þessu sambandi, að ef hér er um misrétti að ræða, þá er úr því bætt með þeim ívilnunum, sem fólgnar eru í hækkuðu skattfrjálsu varasjóðstillagi, hækkuðum hundraðsgjaldsfrádrætti úr 4% í 5% og hækkuðum frádrætti á tapi. Þetta vegur dálítið upp á móti því misrétti, sem hv. minni hl. talar um.

Það er ekki einsdæmi, að ekki sé gerður munur á skattgreiðslu stórra og lítilla hlutafélaga. Það tíðkast víðar en hjá okkur. Svo er t. d. í Noregi. Skattgreiðslan er þar þannig, núna, að 6+2% kreppuskattur = 8% er tekinn af hreinum tekjum, að frádregnum arði, sem félagið kann að hafa fengið úr öðrum hlutafél. Í „fondskatt“ er tekinn 8+0,8% kreppuskattur = 8,8% af hreinum tekjum, að því fé frádregnu, sem lagt er til hlutafélaganna. Það eru því tekin 16,8% af tekjum, sem ekki er úthlutað, og 8% af hinu.

Í Noregi er félögum hvorki ívilnað með frádrætti vegna hlutafjár né skattfrelsi af varasjóðstillagi. Sinn er siður í landi hverju í þessu sem öðru. Það er ekki alltaf auðvelt að miða sína skatta við skattalöggjöf annara þjóða. Hver þjóð verður að fara eftir sínum þörfum.

Viðvíkjandi hlutafélögunum skal ég bæta því við, að skattstofan reiknaði út, hver tekjuskatturinn væri hjá 18 hlutafélögum í Rvík. Breyt. frá því, sem nú er, var sú, að 8 hlutafélög hækkuðu um samtals 20733.70 kr., en 10 lækkuðu um 7039.39 kr. Þetta sýnir, að það er ekki mikill munur á því, sem er, og því, sem verður. Ég legg því til, að þetta frv. verði gert að lögum.

Ég hefi reynt að sýna fram á, að mótbárur hv. minni hl. n. gegn þessu frv. eru sumpart ekki á rökum byggðar. Þegar athuguð eru þau áhrif, sem þetta frv. hefir á skattgreiðslumanna, þá er það ljóst af því, sem nú hefir verið sagt, að skattgreiðslan lækkar hjá einstaklingum, sem hafa 2500-3000 kr. tekjur, og hjónum með 3 börn, sem hafa 5-6000 kr. tekjur og þar fyrir neðan. En þegar tekjur eru hærri, hækkar skattgreiðslan. Þetta kemur sérstaklega niður á hátekjumönnum, einkum og sérílagi Rvíkurbúum, því að fáir utan Rvíkur hafa svo háar tekjur; að þessi skattahækkun nái verulega til þeirra. Auk þess hefir hækkun persónufrádráttar mest áhrif hjá lágtekjumönnum.

Þó því hafi verið haldið fram, að þetta kæmi harðast niður á lágum tekjum og gerði útsvörin í Rvík alltof þungbær, hefir reynslan samt sýnt, að þetta er ekki á rökum reist.

Þegar litið er á nál. og skýrslur meiri hl. n., þá sést, að útsvör manna í Rvík hafa reynzt í samræmi við það, sem gert er ráð fyrir í frv., og mér virðist þau vera svo lág, að miðað við það, sem tíðkast annarsstaðar í þessum efnum, sé ekki þörf að kvarta. Það er vafasamt, hvort útsvör eru nokkursstaðar á landinu jafnlág og einmitt í Rvík.

Þetta frv. er tilraun til þess að fylla eyðu þá, sem hefir verið í fjárl. Ég vona, að hv. þing sé einhuga um það, að þessa eyðu þurfi að fylla, og stuðli þess vegna að því, að frv. nái fram að ganga. Hv. Alþ. má ekki skilja svo við fjárl., að eyðan í tekjuhlið þess sé ófyllt. Hv. þing verður að reyna að stöðva skuldasöfnun undanfarinna ára, en til þess að unnt sé að stöðva hana þarf sameiginlegt átak allra til sparnaðar og framlaga, því að það er eina ráðið til þess að bæta úr þessu. Sparnaði verður að beita þar, sem því verður við komið, og framlaga verður að krefjast af þeim, sem mestan hafa kraftinn og mestu hafa að miðla.

Ég vona svo að lokum, að hv. þing taki þessu frv. vel og samþ. það eftir till. meiri hl. fjhn.