09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Sigurðsson:

Ég á eina litla brtt. á þskj. 386, sem hæstv. fjmrh. hefir minnzt á, og hefir hann tjáð sig aðhyllast hana. En ég tel mér skylt að gera grein fyrir henni til skilningsauka þeim, sem e. t. v. eru ekki þessu atriði svo kunnugir sem skyldi.

Eins og þetta atriði er orðað í frv. stj. má með fullum rétti segja, að það sé óframkvæmanlegt. Hv. fjhn. hefir skotizt yfir þetta og sömuleiðis hæstv. fjmrh., enda mun hann ekki eins kunnugur framkvæmd þessara laga í sveitum eins og hér í Rvík, svo sem eðlilegt er. Það stendur hér í frv., að búpening skuli verðleggja eftir gildandi verðlagsskrám. En þegar athugað er hvenær slíkar skrár eru samdar, kemur í ljós, að matið yrði að byggjast á tveggja ára gömlu verðlagi, og er augljóst, að slíkt getur alls ekki gengið, þar sem talsverðar verðlagsbreyt. geta átt sér stað á þeim tíma. Þá er og á það að líta, að sú verðlagsskrá, sem fara ber eftir, tilgreinir ekki nema örfátt af því, sem um er að ræða. Þar er aðeins tilgreindur fullorðinn peningur, kýr, hestar, hryssur og ær, en ekki gemlingar, tryppi, kálfar og annað ungviði, auk margs annars. Skattanefnd væri því jafnnær, þó að vísað væri á þetta ákvæði. Matið hlyti að verða af handahófi og sitt verðlagið í hverjum hreppi. Ég legg til, að yfirskattan. verði lögð sú skylda á herðar að leita tillagna undirskattan. í sínu umdæmi og taki svo meðaltal af verðlaginu, sem gildi fyrir skattumdæmið eins og gert er við samningu verðlagsskránna. Þessi aðferð er nú þegar upp tekin í allmörgum sýslum, t. d. í Skagafjarðarsýslu, og hefir gefizt vel. Tel ég því, að hyggilegt væri að breyta ákvæði frv. í þessa átt. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta atriði. Hæstv. fjmrh. telur, að þessi breyt. miði til bóta, og er því þess að vænta, að till. mín verði samþ. En úr því að ég stóð upp, vildi ég með fáum orðum minnast á brtt. hv. þm. V.-Húnv. á þskj. 395. Mér virðist full sanngirni mæla með henni, sérstaklega síðari hluta hennar. Ég hefi nokkrum sinnum rekið mig á það hróplega ranglæti, að foreldrar fá frádrátt fyrir unglinga um eða yfir fermingaraldur, en hinsvegar ekki fyrir karlæg gamalmenni, nákomin bónda og að öllu leyti upp á hans hjálp komin. Það er ekki ótítt, að skattgreiðendur taki slíka vandamenn að sér og ali önn fyrir þeim að öllu leyti og bjargi þannig sveitarfélaginu frá stórkostlegum útgjöldum. Virðist mér bæði sanngjarnt og sjálfsagt, að tillit sé tekið til þessa í ákvæðunum um persónufrádrátt.

Ég skal svo láta þetta nægja, en mun sýna afstöðu mína til annara brtt. við atkvgr. Vil ég að lokum vænta þess, að mín brtt. fái góðar undirtektir og verði samþ.