09.11.1934
Neðri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki verða langorður, aðeins víkja að brtt. á þskj. 337. Ég geri þar að till. minni, að vextir af sparisjóðsinnstæðu, sem er undir 10 þús. kr., verði undanþegnir tekjuskatti. Ég lít svo á, að löggjafarvaldið þurfi að örva fólk til þess að leggja fé sitt í banka og sparisjóði. Þetta munar að vísu einstaklinginn litlu, en ríkið því minna, en örvar fólk að leggja fé sitt í sjóði. Um þetta má taka það fram, að margir standa í þeirri meiningu, að það séu hinir svo nefndu burgeisar, sem eigi spariféð. En þetta er misskilningur. Spariféð er eign almennings. Þeir, sem nefndir eru burgeisar, hafa yfirleitt sitt fé í veltu, sem kallað er - leggja það í ýmiskonar fyrirtæki. En hinir almennu skattborgarar hafa fé sitt sjaldan í áhættufyrirtækjum, heldur leggja það inn í sparisjóð. Ef þessi leið yrði farin, væri stigið rétt spor í þá átt, að örva fólk til þess að leggja fé sitt inn í sparisjóði og banka og afla þeim stofnunum með því meira veltufjár. Mundi þeim þá jafnframt vera gert mögulegt að lána út gegn lægri vöxtum. Þetta er ekki mikið atriði, en ég tel það rétt, og það munar ríkissjóðinn litlu. Þá vil ég taka það fram, að ég tel ekki rétta þá aðferð, sem nú er viðhöfð, að skylda bankana til að gefa upp innstæður manna, heldur ættu bankarnir að greiða til ríkissjóðs vissa % af öllum innstæðum. Þetta gæti svo komið fram á innlánsvöxtunum. Mun sannast, að ef þetta verður tekið upp, mun spariféð vaxa.

Þá á ég hér aðra till., um að hækka skattfrjálst iðgjald af líftryggingum úr 300 kr. í 500 kr. árlega. Þessi hækkun munar litlu á skattinum, en mér er kunnugt um, að 300 kr. er of lágt, t. d. fyrir skólapilta, sem oft verða að taka háar líftryggingar og setja polisuna að veði fyrir lánum. Sama er að segja um marga, er líftryggingar kaupa vegna konu og barna, og ætti löggjafinn að örva það, en ekki knífa. Vona ég, að till. þessi verði samþ.

Ég ætla ekki að blanda mér hér inn í umr., en get þó ekki stillt mig um að benda á, að sósíalistarnir hafa með framkomu sinni fallið frá stefnuskrá sinni um beina skatta. Þetta hafa þeir viðurkennt, þar sem þeir, ásamt Framsókn, hafa undanfarin ár verið í meiri hl. í niðurjöfnunarn. Rvíkur og tekið þó allmikinn hluta af gjöldunum með rekstrarútsvörum.

Í máli, sem hæstv. ráðh. hafði hér fyrir rétti, upplýstist að kaupmaður greiddi þannig 2‰ af veltunni. Þetta verður því óbeinn skattur, því þegar kaupmenn vita, að þetta verður lagt á, færa þeir þessi 2‰ yfir á kaupendurna með hækkuðu vöruverði. Heimild fyrir slíkri álagningu mun hæstv. fjmrh. telja, að sé falin í 3. lið 4. gr. útsvarsl. frá 15. júní 1926. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, að taka skuli til greina:

„Ástæður aðilja að öðru leyti, svo sem fjölskyldu hans, heilsufar hans og þeirra, sem á vegum hans eru, höpp eða óhöpp, sem hann hefir orðið fyrir, svo sem slys, dauðsföll, fjárskaða af sjó, veðri eða vötnum, sérstakan uppeldis kostnað eða menningarkostnað barna hans, er nauðsynlegan má telja eða venjulegan, tap á ábyrgðum og sér hvað annað, er telja má, að máli skipti um gjaldþol hans og með sanngirni má taka til greina til hækkunar útsvars hans eða lækkunar“. (Fjmrh.: Ég hélt, að við hefðum alltaf verið sammála). Já, sammála um, að þetta væri juridiskt heimilt, en ekki, að það væri heppilegt. En ég verð að segja, að það væri betra að hafa um þetta fastara form. Og það verður að krefjast þess af löggjafanum, að hann setji fyrir því fast form, hvernig álagningin skuli fara fram. Þetta hefir hæstv. fjmrh. viðurkennt með því að setja reglur, sem hann ætlast til, að farið sé eftir. En þessum reglum hefir ekki verið fylgt, vegna ákvæðanna í 4. gr. um heimild til að leggja á eftir efnum og ástæðum, sem má teygja endalaust, eftir tilhneigingu skattayfirvaldsins. Það má lengi deila um, hvort hækka eigi á þessu fyrirtækinu um 1-2‰ eða lækka á hinu. Við þetta er hætt við, að komi fram misrétti, því að þeir, sem með völdin fara, eru oft misjafnlega vinveittir í garð einstakra manna, misjafnlega samvizkusamir, og getur því leikið hætta á, að þeir misbeiti sín valdi. Þetta tel ég illa farið og vil átelja.

Ég skil ekki annað en hæstv. fjmrh. viðurkenni, að þetta ákvæði er aðeins til að koma af stað misrétti. Að vísu er það svo, eftir orðanna hljóðan, að niðurjöfnunarn. á að taka tillit til ýmissa þeirra ástæðna, sem henni eru kunnar. En ef n. tekur sér vald til að láta einstaklinga greiða 1-2‰ af umsetningu, er komið lengra en hóflegt er og jafnvel í það horf, að hún taki sér vald til að haga álagningu útsvaranna hverju sinni eftir því, sem henni þóknast.

Ég veit að hæstv. fjmrh. viðurkennir það, sem hv. 3. þm. Reykv. tók fram áðan, að það hefir verið lagt útsvarsgjald í Rvík svo tugum þús. kr. hefir skipt á gjaldanda, sem hefir rekið sitt fyrirtæki með tugum þús. kr. tapi, svo að bæjarstj. Rvíkur hefir orðið að fella útsvarið nærri alveg burt. Þetta dæmi sýnir aðeins, að það er komið út í algert handahóf og leiðir vitanlega til þess, að það er ljóst, að álagning útsvara hér í Rvík er orðin svo mikil og útsvarsgjaldendur eru orðnir svo þrautpíndir, að jafnvel þeir, sem með þessi mál fara í skattanefndinni, sem hefir allar skýrslur, sjá sér ekki fært að leggja útsvör á með meiri rétti en það, að útsvör eru lögð á félög og einstaklinga, sem ekki hafa haft einn eyri í arð undanfarið ár. heldur jafnvel stórtap.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, vil ég benda á það, að sósíalistar eru búnir, með því að taka þátt í niðurjöfnun útsvara, að viðurkenna, að þeirra eigin kenning um beina skatta er ekki einhlít, og þeir hafa orðið að fara leið óbeinna skatta, sem þeir segja að brjóti í bága við sín prinsip.