15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég á eina brtt. á þskj. 415, sem ég vil fara fáum orðum um. Ég bar fram brtt. við frv. við 2. umr., um að persónufrádráttur yrði hinn sami og verið hefir, en eins og frv. ber með sér vill meiri hl. hér í hv. þd., að hann sé misjafn, eftir því hvar á landinu skattþegn á heima. Ég tel þetta atriði út af fyrir sig, að persónufrádrátturinn er misjafn, ekki vera rétt. Gildandi skattalög voru sett 1921. Hagstofan hefir síðan 1914 reiknað út, hvað kostaði lífsframfæri miðað við verðlag 1914. Það var 1921 miðað við 100 1914 447, og þá voru allir sammála um að persónufrádráttur sá, sem í lögin var settur og hefir staðið síðan, væri nógu hár. Árið 1923 var l. breytt, þá er vísitalan komin úr 447 niður í 326, vísitalan er hlutfallstala af lífsframfærslukostnaði 5 manna fjölskyldu í Rvík, og þá er persónufrádrættinnm ekki breytt. Síðan hefir vísitalan enn lækkað og er nú komin niður í 234. Þá finnst mönnum ástæða til að auka persónufrádráttinn, af því lífsþurftir manna hafi hækkað. Annað hvort er nú, að miðað er við allt aðrar lífsþarfir nú heldur en 1914, eða þá að útreikningar hagstofunnar eru vitlausir. Nú sitja á þingi 15 hv. þm., er sátu hér 1925, en 8 hv. þm., er sátu á þingi 1921. Þessir hv. þm. hafa samþ. að hafa jafnan persónufrádrátt í bæði þessi skipti og þótt hann hæfilegur 500 kr. á mann. Nú langar mig til að spyrja þessa hv. þm., hvað réttlæti það, að persónufrádrátturinn eigi að hækka nú, og ég hefði gaman af að sjá nýja ástæðu, sem réttlætti það, að persónufrádrátturinn verði gerður misjafn eftir landshlutum. Ég býst við, að einhverjir hafi verið á móti mínum till. um daginn, af því að þeim hafi þótt upphæðin í þeim of lág. Ég flyt því brtt. nú, ásamt hv. þm. V.-Húnv. um l00 kr. hærri persónufrádrátt. Hv. meðflm. minn flutti við 2. umr. brtt. um jafnan persónufrádrátt, en allmikið hærri en við flytjum nú og munu einhverjir hafa verið á móti þeirri till., af því að þeim þótti persónufrádráttur eftir henni of hár, en þeir ættu nú aftur að geta fylgt þessari brtt. okkar nú.

Tveir hv. þm. hafa mælt á móti okkar brtt., en með sínum brtt. Hv. þm. Hafnf. vill skipta þjóðinni í þrennt og láta menn hafa þrennskonar mismunandi persónufrádrátt, 600 kr., 700 kr. og 800 kr., en ég get ekki séð, að það sé rétt ef miða ætti við raunverulegar þurftartekjur einstaklinga, þá held ég, að tröppurnar þyrftu að vera eins margar og gjaldendurnir eru margir. Það er laukrétt hjá hv. þm. Snæf., að ekki sé hægt að draga marklínu milli kaupstaða, sem hafa 1000 íbúa, og kaupstaða og kauptúna, sem hafa lægri íbúatölu. Það er í þessum efnum ekki hægt að finna nein glögg takmörk, og þó að einhver takmörk væri hægt að finna, þá hefir reynslan sýnt, að þjóðin sækist mest eftir að vera þar, sem dýrast er að lifa. Og þegar verið er með samanburði að gera það eðlilegt, að misjafnlega dýrt sé að lifa á ýmsum stöðum, þá gá menn ekki að því, að það er ekki miðað við sömu kröfur og sömu þarfir í Rvík og úti um landið. Það eru aðrar kröfur, sem verið er að mínusa fyrir í Rvík heldur en úti um landið, en það er ranglát aðferð. Ég á bágt með að trúa því, að þeir hv. þm., sem tvívegis áður hafa greitt atkv. með því, að persónufrádrátturinn væri jafn, hafi nokkra skynsamlega ástæðu til að álíta, að nú eigi hann að verða ójafn, og ég á líka bágt með að trúa því, að þeim takist að sanna, að reikningar hagstofunnar séu skakkir. Ég vona því, að hv. d. sýni það með atkvgr., að réttlætið á að gilda jafnt fyrir alla þegna þjóðfélagsins og að þeir, sem ekki fá notið þægindanna í Rvík, verði ekki látnir gjalda þess, með því að þeim sé ætlaður lægri persónufrádráttur og þarafleiðandi hærri skattar.

Ég mun sýna við atkvgr. aðstöðu mína gagnvart öðrum brtt., sem hér liggja fyrir, en ég álít, að lagt sé út á ennþá hálli braut í till. hv. þm. Hafnf. og hv. þm. Snæf., að flokka þjóðina enn meira niður heldur en þó að Rvík ein væri tekin út úr. Ég held, að við ættum ennþá að halda okkur við það, að láta sama rétt og sömu skyldur hvíla á öllum þjóðfélagsborgurum þessa lands, en ekki mismuna þeim eins og gert er í l. eftir því, hvar þeir búa.