15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1438)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Ég finn mig engan mann til þess að mæta hv. 2. þm. N.-M. Ég ætla að láta jötuninn, sem situr í fjármálaráðherrastóli svara honum, því að kunnugir bítast bezt. En hæstv. fjmrh. ætla ég að svara nokkrum orðum.

Hæstv. ráðh. var að bera mér það brýn, að ég væri illkvittnislegur í ádeilu minni á hann nú, en það hefði ég ekki verið við 2. umr. þessa máls. Það er ekki karlmannlegt af þessum mönnum, sem standa að ógeðslegustu sorpblöðum landsins að kveina og emja, ef á þeim er tekið vettlingalaust. Ég var auk þess mjúkhentur á hæstv. ráðh. að þessu sinni. Ég læt það ekkert draga úr mér að hirta þessa þm. öðru hvoru, þó að þeir kveini undan því og kalli það strákskap. Það verður ekki hjá því komizt að segja þeim til syndanna. En slíka menn þarf að taka sterkari tökum en æskilegt er að þurfa í þingsölunum.

Hæstv. ráðh. kvað þetta útrætt mál okkar í milli. Það getur vel verið. En mér þótti gaman að því eftir umr., að dómur félli í þessu máli, og að hæstv. ráðh. væri sjálfur dómarinn. Það var tilraun, sem ég gerði í minni fyrri ræðu, tilraun, sem tókst og ég get verið fyllilega ánægður með. - Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði ekki í fjárlfrv. byggt útreikning sinn á þeim tekjum, sem tekju- og eignarskatturinn færði, ef 40% álagningin skyldi gilda. Hann sagði, að þetta hefði verið af því, að ekki hafi verið búið að ákveða, hvort hún skyldi gilda eða ekki. Þetta er rétt. En ef þetta er rétt hjá hæstv. ráðh., þá er líka allt rétt sem ég sagði í málinu. Hæstv. ráðh. getur ekki búizt við, að ég byggi útreikninga mína á öðru en hann, þegar hann er að flytja Alþ. boðskap sinn um þá tekjuvon, sem til greina komi. Hæstv. ráðh. færir þau réttu rök fyrir því, að hann hafi ekki leyft sér að byggja á 40% álagningunni, að hún hafi ekki verið lögfest. Af sömu rökum var mér ekki heimilt að byggja á henni.

Þegar nú hæstv. ráðh. er búinn að kveða upp yfir sjálfum sér þann dóm, að allt, sem hann hafi sagt, sé dautt og ómerkt, en þann dóm hefir hann ekki áður fengið, enda þótt sumir aðrir þdm. hafi stundum orðið að sæta slíkum dómi og fjársektum með, þá fer að slá út í fyrir honum. Hann fer að draga úr og færa það til afsökunar, að ég og Sjálfstfl. hafi á þingi 1933 lofað, að 40% viðaukinn skyldi gilda áfram. Þetta væru tyllirök, þó að það væri satt. Ef hæstv. ráðh. taldi þessi loforð ekki þess virði, að þau gæfu tryggingu í þessu efni, þá var ekki heldur ástæða til fyrir mig að leggja nokkuð annað til grundvallar mínum útreikningum en hann gerði. Auk þess er staðhæfingin röng. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, rifja upp fyrir honum nokkur ummæli, er sýna þetta. Frv. um 40% viðaukann var lagt fyrir Alþ. í lok reglulegs þings 1933, sem sé síðasta dag þingsins. Af hendi Sjálfstfl. tóku aðeins þrír til máls, Magnús Guðmundsson, Magnús Jónsson og ég. Magnús Guðmundsson var þá ráðh. Hann sagðist aðhyllast frv. til bráðabirgða og einungis af nauðsyn. Ég sagðist vera frv. mótfallinn og samþ. það nauðugur. Og Magnús Jónsson sagði:

„.... ég mun ekki greiða atkv. með þeim hluta þessarar till., sem er um viðauka við tekjuskattinn. Ég álít, að það mesta, sem geti komið til greina í því efni, sé, að tekjuskatturinn sé innheimtur með sama viðauka og á síðasta ári ...“ (Alþt. 1933, B, d. 1287).

Sjálfstfl. hefir því ekki einu sinni gefið hæstv. ráðh. átyllu, hvað þá öryggi um, að hann mætti byggja á slíku loforði flokksins. Og dómur hæstv. ráðh. í málinu er skýr. Hann telur sér ekki heimilt að reikna með 40% álagningunni, þegar tekjur eru áætlaðar. Það eina, sem heimilt er að byggja á, eru l. frá 1921, segir hæstv. ráðh., þangað til búið er að samþ. 40% viðaukann. Þar með hefir hæstv. ráðh. staðfest, að allt, sem ég hefi sagt, sé rétt, og að jafnframt sé það rangt, sem hann hefir haldið fram. Þessi játning, sem í fyrsta lagi kemur fram skýr og ótvíræð í gerðum hæstv. ráðh., þegar hann semur fjárl.frv., var endurtekin í ræðu hans með lélegri tilraun til að breiða yfir allt saman. Er það ánægjulegt fyrir mig, eftir að hafa staðið í hörðum deilum við hæstv. ráðh. um þetta atriði, bæði í blöðum og hér í d., að geta nú lokið þeirri deilu með því að láta sjálfan sökudólginn fella þennan dóm um ágreiningsatriði okkar.

hæstv. ráðh. lýkur ræðu sinni á þeim orðum, að þetta sé ekki mikilvægt atriði; sýnir, að hann er nú að gugna á því að verja rangan málstað. Þetta atriði hefir nefnilega verið meginundirstaðan undir öllum okkar ágreiningi. En eftir að ég hefi knúið hann til að kveða upp þennan dóm, endar hann með að segja, að þetta sé ekki mikilvægt atriði.

Ég get endað mál mitt með því að lýsa tvöfaldri ánægju minni yfir niðurstöðu þessarar deilu. Í fyrsta lagi ánægju yfir því, að ég hefi getað sannað minn málstað með orðum hæstv. ráðh. sjálfs, og í öðru lagi yfir því, að þessi ungi maður hefir nú í fyrsta skipti, svo að ég viti til, gugnað á því að verja rangan málstað. Hefi ég ekki séð það fyrr en nú, og er ánægjulegt fyrir mig að hafa fyrstur orðið til að vekja sómatilfinningu hans. Vona ég, að hann haldi nú áfram á þeirri braut, að láta rétt rök ráða, og venjist því æ betur, eftir því sem aldur færist yfir hann. Hafi mér tekizt að valda algerðum sinnaskiptum í huga þessa unga ráðh., tel ég mig hafa unnið þarft dagsverk, því að ég hefi alltaf haft von um, að nokkurs mætti af honum vænta, ef hægt væri að leiða hann á rétta götu, en um það atriði hefi ég annars alltaf verið heldur vondaufur. Og mun ég nú með góðri samvizku njóta hvíldar eftir vel unnið og mikið dagsverk.