15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Hv. þm. Hafnf. sagði, að sér væri ekki ljóst, í hverju lægi munur á þeirri till., sem hv. 3. þm. Reykv. og ég fluttum við 2. umr., og þeirri, sem hann flytur ásamt fleiri þm. við þessa umr. Munurinn er ákaflega mikill og ákaflega greinilegur, og þessi hv. þm. skilur hann fullkomlega vel, hann er það glöggur í hugsun.

Það, sem fyrir okkur vakti, var það, að reyna að gera tilraun til þess að bjarga handa bæjar- og sveitarfél. þessum gjaldstofni að nokkru leyti. Þetta mistókst. Þar með er allur höfuðtilgangur okkar útilokaður. Þessi hv. þm. fer hinsvegar fram á, að lagður sé á borgarana viðbótarskattur, er falli bæjarsjóði. Þetta er sá stóri munur á okkar till. og hans. Það, sem eftir er, er þá ekki annað en mismunandi leiðir til að leggja á útsvör eftir efnum og ástæðum. Í sambandi við það, sem hv. þm. sagði út af frv. því, sem hæstv. núv. atvmrh. lagði fyrir Alþ. 1930, vek ég athygli hans á því, sem hann drap á sjálfur, að höfuðmunur þess frv., einmitt að því er snertir lágtekjurnar, var sá, að það ætlaðist til, að persónufrádráttur væri miklu hærri. Þannig átti frádráttarheimild fyrir hjón í kaupstað að vera 2200 kr., í stað 1 þús. kr. áður og eftir þessu frv. 1500 kr. Þetta er ákaflega mikill munur. Og þetta út af fyrir sig gerir frv. og skattstigana allt að því ósambærilega í þessu sambandi, sem við deilum um.

Ég má svo ekki vegna hæstv. forseta tala lengra mál til hv. þm.

Ég hefi í sjálfu sér ástæðu til að víkja nokkrum orðum að hæstv. fjmrh., þó ekki vegna þess, að það geti verið lengur neinum manni dulið, að hann hefir farið villur vegar í öllum höfuðatriðum í okkar deilu. Hann játar bert með samningu fjárl., að allt hans hjal um það, hvort Sjálfstfl. hefir lofað meira eða minna um framlengingu á 40% viðaukanum kemur ekki þessu máli við. Höfuðatriðið er það, að sjálfur hæstv. ráðh. telur sér ekki heimilt að reikna með þeirri álagningu fyrr en búið er að samþ. þá álagningu á þessu þingi. Af alveg sömu ástæðu er mér það óheimilt, því að ekki var búið að samþ. viðaukann þegar okkar deila stóð. Þetta er kjarni málsins, sem hæstv. ráðh. þýðir ekkert að skjóta sér á svig við, með því að segja, að það komi ekki okkar deilu við. Við deildum um, hvort hækkaður væri skattur á lágtekjum eða ekki, og mátti þá hæstv. ráðh. skilja, að ekki var deilunni óviðkomandi, hvort miðað var við 40% álag eða ekki. Grundvöllurinn undir okkar rökræðu stendur og fellur með því, hvort miða megi við 40% viðaukann eins og hann gerir, eða eigi að miða við l. frá 1921, eins og ég geri. Sjálfur hefir hann kveðið upp þann dóm í málinu, með samningu fjárl., að mín aðstaða sé rétt, en hans röng.

Af þeim yfir hundrað villum, sem hæstv. ráðh. gerði í þessu fjárlfrv. og við þurftum að leiðrétta - og allar voru leiðinlegar - var ein síðust, verst og mest. Ég var nefnilega búinn að koma þessum hæstv. ráðh. á götu sannleikans. En skjótlega veik hann aftur út af þeirri götu. Það er versta villan, sem hann hefir gert í þessu sambandi.

Ég þarf ekki að ræða meira um þessa deilu. Játning hæstv. ráðh. liggur nú þegar fyrir skrifl. opinberlega. Reyni hann að breyta þeim ræðum, sem hann hefir flutt, með því að aflaga hin góðu handrit háttv. þingskrifara, þá skal ég sjá um, að mínar ræður verði réttar. Og það skal koma fram, hvaða dóm hann hefir kveðið upp í fjárl.

Að lokum vil ég segja, að það er leiðinlegt að heyra þau orð úr ráðherrasæti, að yfirlýsing einstaks þm. úr Sjálfstfl. séu ómerk orð, vegna þess að ekki sé víst, að allur flokkurinn sé sömu skoðunar. Hæstv. ráðh. á að láta sér nægja að hafa sjálfur gengið undir það ok að hafa enga aðra sannfæringu en þá, sem meiri hl. hans flokks segir honum að hafa, og að hafa tekizt að miklu leyti að afvegaleiða aðra mæta menn í sínum flokki inn á þessa sömu braut. En hann ætti að láta vera að bera fram kveinstafi yfir því, að enn séu á Alþingi Íslendinga menn, sem hafa skoðanir og þora að láta þær í ljós, þótt ekki séu hópskoðanir eins og verða að vera í því sálufélagi, sem hann sjálfur lifir nú og hrærist í.

Ég vildi ekki láta hjá líða að ávíta hæstv. ráðh. fyrir þessi ummæli. Þau eru þess eðlis, að þau gæfu tilefni til að veita honum lengri og alvarlegri leiðbeiningar, þar sem hann nú í ungæðishætti sínum er að leggja út á sína lífsbraut, en loforð mitt við forseta leyfir það ekki í þetta skipti. Og svo er hitt, að úr því að hæstv. ráðh. iðrast nú eftir að hafa iðrast sinna misgerða, þá er þessi maður e. t. v. það forhertur orðinn, að það þýðir lítið fyrir mig að vera að tala við hann.