05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (1451)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi fylgzt með í starfi n. við athugun á þessu frv. N. bar það saman við gildandi l. um sama efni, og get ég sagt, að brtt. hv. meiri hl. er ég samþykkur, að ég held öllum, enda var um þær rætt sameiginlega í n. Það gæti hugsazt, að ég hefði gjarnan óskað eftir fleiri breyt. á smærri atriðum í frv. en till. eru fluttar um, en það er í sjálfu sér aukaatriði í þessu máli fyrir mér. Ég hefði t. d. óskað, að n. hefði flutt brtt. við þá ákvörðun í frv., sem hv. frsm. meiri hl. drap nokkuð fast á og þótti aðfinnsluvert, en það er um að skylda lánsstofnanir til að gefa skattn. skýrslur um innstæður einstaklinga. Ég hygg, að það sé alveg rétt að girða fyrir, að þeir gefi slíkar skýrslur í heild til skattan. Það er ákaflega vafasamt að halda þessari skyldu fast að lánsstofnunum. Innlánsféð er yfirleitt svo mikið hnoss fyrir bankana. það er langbezta og ódýrasta starfsféð, sem þeir hafa í sínum vörzlum, fyrir utan seðlana, sem seðlabankar hafa í veltu. Ég veit ekki, hvort ég ber fram brtt. um þetta við 3. umr., en mun ræða um það við samflokksmenn mína.

Ég skal gjarnan segja það nú þegar, að það er ýmislegt í þessu frv. til nokkurra bóta frá því, sem er í gildandi skattal. Orðalag hefir víða verið bætt, þannig að þar sem áður var ónákvæmni í 1., er nú tekinn af allur efi, og ýms vafaatriði úr eldri l. eru nú skýr og ljós í frv. Það er augljóst, að um frv. hefir verið fjallað af þeim, sem höfðu reynslu af framkvæmd tekju- og eignarskattsl. í Rvík. Frv. er fyllra og skýrara en þau.

Í Nd. hefir verið aukið inn í frv. einu atriði, sem ég tel til stórbóta, og samkv. því er t. d. hlutafél. heimilað, ef þau verða fyrir verulegum töpum, að færa þau á milli ára, þó aldrei meira en tveggja. Af þessu leiðir það, að skattaálögur á þessum fél. verða að nokkru leyti heilbrigðari og réttlátari en verið hefir. Ég skal svo ekki tala um þetta frekar, enda er hv. þdm. það kunnugt.

En það hefir líka verið gerð önnur stórvægileg breyt., sem mikið má deila um, og hún er sú, að tekjuskattur skuli lagður eftir sömu reglu á einstaka menn og hlutafélög, en um það hafa áður gilt allt aðrar reglur. Nú á skattstiginn að vera hinn sami fyrir einstaklinga og félög og skatturinn reiknaður út á sama hátt, í stað þess að áður var tekjuskattur hlutafélaga reiknaður út eftir hlutfallinu á milli teknanna og hlutafjárins. Ég verð einnig að telja þessa breyt. fremur til bóta frá því, sem verið hefir í l. En það, sem gerði það að verkum, að ég gat ekki fylgt meiri hl. n. og gerði ágreining um þetta frv., er meginhluti málsins, hin mjög svo mikla hækkun á tekjuskattinum. Mér þykir of langt gengið í því með þessu frv. að innheimta skatt af tekjum. Ég skal ekki þreyta hv. þd. með langri ræðu um stefnumismun í skattamálum, þó að full ástæða sé til þess hér við aðra umr., þar sem þetta ágreiningsatriði er svo veigamikið; en það hefir svo oft verið gert hér á Alþ., bæði af mér og öðrum. Eina ástæðu vil ég þó benda á. Ég tel það sérstaklega hættulegt fyrir fátækt þjóðfél. að leggja þungu skatta á beinar tekjur, einkum þar sem það hefir margskonar möguleika til þess að afla ríkissjóði tekna með tollum. Slíkt þjóðfél. á einmitt að hvetja einstaklingana, og verðlauna þá með öllu móti til þess að auka efni sín. Eitt allra mesta vandræðamál okkar þjóðfél. er, hvað við eigum lítið kapital og þurfum að sækja mestallt veltufé til annars landa, svo að hægt sé að halda atvinnutækjunum gangandi. Nú er það vitanlegt, að mikill tekju- og eignarskattur er beittasta vopnið gegn því, að auðmagn og veltufé safnist í landinu. Og tekju- og eignarskatturinn er vel til fundin aðferð til þess að draga undir ríkið efni einstakra manna og fél.

Það eru Englendingar, sem hafa einkum gengið á undan öðrum þjóðum í þessum efnum. Þar höfðu safnazt miklar tekjur á hendur einstökum mönnum og fél. fyrir og eftir heimsstyrjöldina, en skuldir hlóðust á ríkið vegna herkostnaðarins. Eftir stríðið lögðust skattarnir því mjög þungt á þessar uppspöruðu tekjur gjaldþegna þjóðfélagsins. Hér á landi er engu slíku fjársafni til að dreifa. Allt sparifé er bundið í atvinnutækjum og rekstri atvinnurekendanna sjálfra, og þeir, sem geta ekki lagt sér það til sjálfir, hafa fengið sparifé annara að láni í bönkunum til rekstrar atvinnuvegunum. Ég tel því mjög óheppilegt, að þetta fé sé tekið frá atvinnurekstrinum til tekna ríkissjóði og steypt í eyðsluhít þess opinbera.

Í kosningaagitationum er þetta af mörgum talin ákjósanlegust leið til tekjuöflunar fyrir ríkisjóð, og í fljótu bragði kann það að virðast fremur sanngjarnt, þegar því er á svipstundu varpað fram fyrir fjöldann og spurt, hvort það sé ekki eðlilegra að taka tekjur til ríkissj. hjá þeim, sem eitthvað eiga, heldur en hjá hinum sem berjist í bökkum með að fleyta sér. En við nánari athugun er það ekki alveg víst, hvort það þykir réttlátara, að ríkisvaldið hagi sér eins og víkingur og taki tekjurnar þar sem auðveldast þykir að grípa til hendinni heldur en þar sem þjóðfélaginu kemur betur, frá öðrum sjónarmiðum séð.

Ég er þeirrar skoðunar, að ríkisvaldinu beri að skattleggja eyðsluna fremur en tekjuöflunina. Þjóðfélaginu ber engin nauðsyn til að halda verndarhendi yfir eyðslunni, það á að höggva í hana eftir föngum, en láta tekjuöflunina í friði. Með stighækkandi tollum á óþarfavarningi og munaðarvörum næst mjög vel til eyðsluklónna í þjóðfélaginu. Og þar næst á að koma verðtollur á erlendum vörum. Hann er um leið nokkurskonar tekjuskattur og stighækkandi, af því að hann getur verið langhæstur á þeim vöruteg., sem vænta má, að þeir eyðslusömustu kaupi mest af. - Ég skal svo, ekki fara lengra út í þessar almennu umr. um skattamálin.

Ég hafði gaman af að lesa fjármálaræðu fjármálaborgarstjórans í Khöfn, sem mér barst í hendur fyrir skömmu, þar sem hann gerði grein fyrir fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár. Ég man ekki, hvort hann er sósíalisti eða úr flokki radikala. En hann virðist skilja ákaflega vel þörfina fyrir kapítalmyndun eða fjársöfnun í þjóðfél., því að hann segir, að það sé ekkert, sem ríði meira á en það. Og enn fremur, að það verði fyrst og fremst að koma í veg fyrir, að þróun fjármagnsins og fjársöfnunarhvöt einstaklinganna stöðvist. Þá kemur hann einnig að því, hversu nærri sé gengið einstökum bæjarfél. og eignum manna með álögum til ríkisþarfa. Ég þarf ekki að fara langt út í þá sálma, það er búið að lýsa því, í umr. um þetta frv., hversu þar er gengið nærri tekjustofnum bæjar- og sveitarfél. hér á landi og ekkert tillit tekið til þarfa þeirra aðilja. Og hv. frsm. meiri hl. n., 4. landsk. þm., lýsti því nú yfir, í lok ræðu sinnar, að hv. stjórnarfl. myndu ekki gera neitt með þessa brtt. mína, sem á að tryggja rétt bæjarfél., til að halda sínum skattstofnum fyrir sig. Ég vil benda á aðra sönnun fyrir því, hversu bæjarfél. eru aðþrengd í þessum efnum, eira og reynslan sýnir; því að nú rignir yfir þingið frv. og óskum frá þeim um að þau fái leyfi til að afla bæjarsjóðunum tekna með tollum á vörum, sem þangað eru fluttar. Alþ. getur náttúrlega bannað þeim að taka sínar tekjur á þann hátt og svarað þeim að öðru leyti með því að hækka tekju- og eignarskattinn til ríkissj. Ég hefi heyrt, að eitt lítið tolltekjufrv. frá Akureyrarkaupstað hafi verið drepið í hv. Nd. í gær. Og slíkar aðferðir getur meiri hl. Alþ. náttúrlega látið sér sæma. En bæjarfél. eru bara í standandi vandræðum. Þessar raddir eru ótvíræð sönnun fyrir vandræðum bæjanna. Ég vil fyrir mitt leyti segja það, þótt þau mál liggi ekki nema óbeint fyrir í þessu sambandi, að ég tel þá aðferð, að bæjarfél. taki toll af vörum, ákaflega óheppilega. Það er augljóst, að ríkið eitt, sem varðar alla þegna landsins, getur tekið sínar tekjur á þann hátt, því að það er ómögulegt að segja, hve vítt tollarnir kunna að verka. Og bæirnir, sem eiga að skattleggja sína íbúa og aðra ekki, geta aldrei fengið sínar tekjur á réttlátan hátt með tollum. Tollarnir bitna alltaf á öðrum líka heldur en þeim borgurum, sem þeir einungis eiga að koma niður á. Af þessum ástæðum er sveitar- og bæjarfél. vísað á tekju- og eignarskattinn sem tekjustofn. Ég álít því mjög óheppilegt að veita sveitar- og bæjarfélögum slík leyfi og skal af þeim ástæðum ekki hafa mikið á móti því, þótt eitt svona frv. hafi verið fellt í hv. Nd., en þess verður þá að gæta, að bæjar- og sveitarfélögin séu ekki svipt möguleikunum til þess að geta komizt af með beinu skattana. En það er gert með þeirri hækkun skattsins, sem hér er farið fram á. Það er fyrir sig að hækka tekju- og eignarskattinn, ef sveitar- og bæjarfélög fá sinn hluta af honum. Það hefir verið talað um það, hvort ekki væri rétt í bæjunum, og sérstaklega Rvík, að innheimta tekjuskattinn og aukaútsvör í einu lagi sem einn skatt og skipta í þeim hlutföllum, sem reynslan hefir sýnt, að þarf að skipta. Það er í samræmi við þetta, að ég hefi borið fram brtt. þess efnis, að 1/3 hluti tekju- og eignarskattsins skuli renna til sveitar- og bæjarfélaga þar sem skatturinn er innheimtur. Samskonar till. kom fram í hv. Nd., en þar var farið fram á helming, en hér ekki nema 1/3. Ég get játað það fúslega, að það, að heimta helming skattsins til sveitar- og bæjarfélaga, er freklega í farið. Því að eins og nú er ástatt, þá er naumast von, að hæstv. fjmrh. þykist geta rýrt þennan tekjustofn ríkisins verulega, sem svo myndi verða til móts við þann skatt, sem innheimtur hefir verið fram að þessu með 40% álagningu. En hækkunin samkv. þessu frv. mun það mikil, að ríkissjóður myndi bera góðan hlut frá borði, þótt þriðjungur skattsins væri eftirlátinn sveitar- og bæjarfélögum. Ég skal svo ekki deila mikið um þetta að sinni, en vil minnast á eitt atriði, sem gott væri að fá í sambandi við tekju- og eignarskattinn, en ég satt að segja treysti mér ekki til að undirbúa eða vinna út í einstökum atriðum, en veit þó ekki nema ég geti um það borið fram einhverja till. við 3. umr. Ég held nefnilega, að í tekju- og eignarskattsl. ættu að vera ákveðin einhver hlunnindi til handa þeim mönnum, sem innleiða hjá fyrirtækjum sínum starfsmannahlutdeild einhverskonar. Það hafa verið gerðar tilraunir með það víðsvegar í heiminum að koma atvinnurekstrinum í það form. Í heiminum hefir verið heldur brak og brestir út af viðureign fjármagnsins annarsvegar og vinnunnar hinsvegar. Stórfelld verkföll hafa geysað og nálega komið sumum þjóðfél. á kné. Því hefir verið reynt að finna leiðir til þess að samrýma þetta tvennt og láta þá, sem við fyrirtækin vinna, njóta eða gjalda nokkuð, hvernig reksturinn gengur, þ. e. a. s. láta hagsmuni vinnu og kapitals fara saman. Þetta er gert á ýmsan hátt, t. d. með því að láta starfsmennina fá vissan ágóðahluta, líka með því að styðja þá í því að kaupa venjulega hluti í fyrirtækjunum, eða þá að láta vinnuna gilda sem einskonar hlutafé. Þetta er sem sagt gert með ýmsu móti og er afarheilbrigt, og vafalaust stefnir að því í framtíðinni, að þessi tvö nauðsynlegu framleiðsluöfl, vinna og fjármagn, verði sameinuð á þennan hátt. Ég teldi mjög æskilegt, að því væri komið inn í tekjuskattslöggjöfina, að það væri séð við þá menn, sem slíkri tilhögun kæmu á hjá sér. Ég get ósköp vel játað, að ég treysti mér ekki að undirbúa þetta svo að forsvaranlegt sé að setja í 1., en mun þó athuga það fyrir 9. umr. Gæti líka verið og er sennilega heppilegast bara að bera fram till. til þál. um að skora á stj., að athuga þetta og undirbúa löggjöfina. Ég veit um dæmi þess, að slík ákvæði hafa verið sett í tekjuskattslöggjöf a. m. k. eins lands, en ég hefi ekki kynnt mér það í nægilega mörgum tilfellum.

Ég mæli sem sagt með þessari brtt. minni. Í nál. hefi ég viljandi siglt fram hjá því, að leggja með eða móti frv., vegna þess að fylgi mitt við það mun velta á því, hvernig um þessa brtt. fer. Verði hún felld, hlýt ég að greiða atkv. gegn frv. verði hún samþ., mun ég mjög skoða huga minn áður en ég verð á móti frv., því að í sjálfu sér tel ég það hafa ýmsa kosti fram yfir gildandi lög.