07.12.1935
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi leyft mér að bera hér fram nokkrar brtt. á þskj. 678. Þær eru eiginlega allar í sambandi hver við aðra, og ganga allar út á það að lengja frestinn til þess að fá komið fram kærum út af skattinum. Ástæðan er sú, að samkv. reglunni undanfarin ár eru sjómenn yfirleitt oft útilokaðir frá að koma slíkum kærum á framfæri. Mér er þetta kunnugt, þar sem ég hefi að mestu haft með slíkar kærur að gera í forföllum þeirra. Í þessu frv. er kærufresturinn ákveðinn eins og í gildandi lögum, aðeins hálfur mán. Ég þarf ekki að rekja það ýtarlega, að þetta er á þeim tíma árs, sem sjómenn eru fjarri heimilum sínum á skipum úti, og koma oft ekki heim til sín, t. d. hingað til bæjarins, á hálfsmán.fresti, og farmenn með skemmst 3ja vikna millibili. Þeir sjómenn, sem dvelja í öðrum veiðistöðvum úti á landi, koma vitanlega ekki heim á svo stuttu tímabili. Ég hefi því leyft mér að leggja til, að kærufresturinn yrði lengdur upp í 4 vikur., og að öðrum atriðum í frv., sem tilheyra kærufrestinum, verði breytt í samræmi við þetta. Ennfremur legg ég til, að kærufrestur til yfirskattan. verði lengdur um jafnlangan tíma, enda leiðir það af hinu.

Ég sé að vísu, að með ákvæði í 38. gr. frv. muni eiga að bæta úr þessu, en mér þykir það ekki nægilega skýrt. Undanfarin ár hefir það verið svo, að ef viðkomandi maður hefir ekki kært skatt sinn fyrir undirskattan., þá hefir yfirskattan. ekki talið sér skylt að taka kæru hans til greina. Og margar af þeim kærum, sem ég hefi skrifað fyrir sjómenn, hefir orðið að fara með til bæjarstj. til þess að reyna að fá lækkun á útsvarinu. En með skattakærur þýðir hvorki að fara til bæjarstj. né ríkisstj., því að þær munu ekki telja sér skylt né fært að gefa nokkuð eftir af honum. Ég held því, að allir geti orðið sammála um, að ekki sé um annað að ræða en að lengja kærufrestinn að nokkru, svo að hann geti komið öllum stéttum jafnt að notum. Það er hið eina, sem ég meina með þessari brtt. - Ég hefi þá skýrt hana nægilega. Sjálfur hefi ég mikla reynslu fyrir mér í því, hvernig gengur að koma skattakærum á framfæri, og hefi fulla þekkingu á þeim örðugleikum, sem þar er við að etja. Ég mælist því til þess, að hv. þd. fallist á þessa brtt., úr því að frv. þarf aftur til Nd. hvort sem er.