07.12.1935
Efri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

12. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Um brtt. á þskj. 678 vil ég aðeins segja það, að ég vona að hún verði ekki samþ. Því er nú svo háttað, að þessum frestum, sem mönnum eru ætlaðir til kæru á skattinum, er miðlað niður á skattan., sem hafa málin til meðferðar. Og ég álít, að afgreiðsla þeirra megi ekki dragast lengur fram á árið en nú er gert. Hinsvegar vil ég benda hv. 4. þm. Reykv. á, að í 38. gr. er skattan. heimilað að taka sérstakt tillit til þess, að sjómenn eiga erfitt með að komast af með þennan kærufrest; og mundi ég vilja beina því til yfirskattan. að taka þessa heimild til greina, sérstaklega gagnvart sjómönnum, sem eru fjarstaddir. Enda hefir það verið gert hér í Rvík af yfirskattan., af því að í tilskipun þeirri, sem verið hefir í gildi síðan 1929, er fullkomin heimild til þess.

Um skrifl. brtt. frá hv. þm. Dal. vil ég aðeins lýsa því yfir, að ég get eftir atvikum verið meðmæltur, að hún verði samþ. Það er ekki ljóst fram borið í frv., að yfirskattan. skuli skipaðar af nýju, þegar þessi lög ganga í gildi og koma til framkvæmda, og ég get fallizt á, að þær verði látnar sitja út sinn kjörtíma.