10.10.1934
Neðri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

35. mál, Kreppulánasjóður

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að tala langt mál um þetta frv., sem ekki er nú stórt að mínu viti. En ég get þó ekki látið hjá líða að láta í ljós undrun mína yfir því, að stj. skuli hafa getað fengið sig til að gefa út bráðabirgðal. um þetta efni, sem hér er til umr. Menn hafa sjálfsagt tekið eftir því, að þessi stj. hefir verið mjög fús á að gefa út bráðabirgðal. um ýms efni, og þau 1. eru svo mörg, að ég get ekki komið tölu á þau. En ég skal líka játa, að það getur alltaf verið matsatriði, hvenær nauðsynlegt er að gefa út bráðabirgðal., en hitt getur engum dulizt, að í 23. gr. stjórnarskrárinnar er ætlazt til þess, að mjög sé takmörkuð útgáfa bráðabirgðal. Bráðabirgðal. á ekki að gefa út nema brýn nauðsyn beri til, en það verður vitanlega í hverju einstöku tilfelli að metast af viðkomandi ráðh., hvort hún sé fyrir hendi eða ekki. En almennt séð er áreiðanlegt, að ráðh. verða að vera mjög gætnir í þessum efnum, vegna þess að útgáfa bráðabirgðal. er vitanlega ekki annað en það, að taka valdið frá Alþ. að nokkru leyti eða öllu. Ég skal ekki dæma um það, hvort sum hinna annara bráðabirgðal., sem stj. hefir gefið út, séu brot á stjórnarskránni, en ég þori að fullyrða, að þessi bráðabirgðal. eru skýlaus brot á 23. gr. stjórnarskrárinnar.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, er efni þessa frv. það eitt, að í stað þess, að höfuðstóll lántakanda greiðist með jöfnum afborgunum auk vaxta á 40 árum, þá eigi árlegar greiðslur að vera jafnar. Það hefir verið reiknað út og birt í einu blaði hér nýlega, að af 1 þús. kr. láni mundi þetta nema á fyrsta ári 14 kr., og þessi mismunur fer vitanlega lækkandi eftir því, sem lánin eru afborguð. Þessi mismunur er svo lítill, að ég fæ ekki séð, að þess vegna hefði stj. þurft að gefa út bráðabirgðal. En það, sem þó í mínum augum tekur af allan vafa um þetta mál, er það, að á síðasta þingi var einmitt þetta atriði til athugunar, eins og menn mega sjá í Alþt., og þessi leið, að hafa ársgreiðslur jafnar, var athuguð af þm., og meiri hl. þingsins komst að þeirri niðurstöðu, að það væri heppilegast að hafa lánskjörin á þann veg, sem l. frá 1933 segja til um.

Hæstv. forsrh. sagði, að nauðsynlegt hefði verið að gefa út þessi l. vegna þess, að lántakendur hefðu ekki viljað skrifa undir skuldabréfin með öðrum hætti. Ég skal ekki segja, í hvað stórum stíl þetta hefir verið, en einn bankastjóri búnaðarbankans hefir tjáð mér, að að vísu hafi nokkrir lántakendur talað um, að þeir kysu heldur hinn greiðslumátann, en að það hafi verið í svo stórum stíl, að gefa hefði þurft út bráðabirgðal., áleit hann að ekki hefði komið til mála. Loks vil ég benda á það, að ég er í nokkrum vafa um, hvort ekki hefði verið hægt að breyta þessu með reglugerð, og þess vegna var enn síður ástæða til að gefa út bráðabirgðal. rétt fyrir þing. Einnig vil ég benda á það, að ráðh., sem gaf út reglugerðina samkv. þessum nýju l., hefir í raun og veru viðurkennt það, að ekki hefði borið brýn nauðsyn til þess að geta út þessi l., þar sem hann segir, að lántakandi geti valið um hvora leiðina, sem hann vill. Einmitt þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. í reglugerðinni bendir til þess, að hann hafi sjálfur verið á þeirri meiningu, að lántakendur myndu skiptast í mjög svo jafna flokka um það, hvora aðferðina þeir heldur vildu nota. Þess vegna gefur hann þetta frjálst, en ef hæstv. ráðh. hefði vitað það fyrir víst, að lántakendur vildu fremur hafa þá lánsaðferð, sem segir í bráðabirgðal., þá hefði hann vitanlega ekki þurft að hafa hina leiðina opna.

Ég sem sagt gat ekki látið hjá líða að taka það fram, að ég undrast yfir því, að nokkur stj. skuli vera svo svipt ábyrgðartilfinningu gagnvart Alþ., að hún fái sig til þess að gefa út bráðabirgðal. um eins ómerkilegt atriði sem þetta, þar sem þing átti að koma saman rétt á eftir, auk þess sem engar afborganir af skuldabréfum falla í gjalddaga fyrr en löngu eftir þetta þing, og þá hefði mátt setja almenn 1., sem heimiluðu lántakanda að velja hvora leiðina, sem hann vildi.