15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

35. mál, Kreppulánasjóður

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég mun ekki fara mörgum orðum um mál þetta. En í áframhaldi af orðum mínum við 1. umr. vildi ég ekki láta hjá líða að vekja athygli hv. dm. á því, hvílíka meðferð hæstv. forsrh. hefir fengið í þessu máli. Ég drap á það þá, að þessu máli væri svo varið, að engin þörf hefði verið á bráðabirgðal. um það, og með setningu þeirra hefði hæstv. stj. brotið bæði anda og ákvæði 23. gr. stjskr. Hæstv. ráðh. rauk þá upp með öllu því veldi, sem staða hans í þjóðfélaginn veitir honum, lýsti því yfir, að ég hefði ekkert vit á málinu. Ég er nú helzt á því, að hæstv. ráðh. muni lítið hafa kynnt sér þetta mál, nema ef vera skyldi í sinni einu ferð til Stranda í vor. Og mér þótti vel til hlýða, að þegar rödd kom upp honum til hjálpar, var það frá hv. þm. N.-Þ. Mér skilst það vera vottur um góðan málstað og gáfulega röksemdafærslu, þegar þessir tveir hv. þm. eru sammála og berjast hvor við annars hlið. (GG: Laukrétt!). Bankastjóri búnaðarbankans hefir sagt mér, að ekki hefðu komið tilmæli um lántöku nema frá Þingeyjarsýslu yfir þennan tíma, og má undarlegt heita, ef breyt. eru svo nauðsynlegar sem af er látið, þar sem ekki koma raddir um það nema frá einni sýslu á landinu. Nú er vitað, að hv. þm. N.-Þ. hefir hvað eftir annað notað þetta í Tímanum til árása á stj. Kreppulánasjóðs. Og mikil líkindi eru til, að þessar ráðstafanir séu gerðar til þess að vera í samræmi við þessa rödd í Tímanum og eigi að vera sem liður í pólitískri agitation gegn stj. Kreppulánasjóðs. Þetta skýrist enn betur, ef það er athugað, að meðallán úr Kreppulánasjóði mun vera 3000 kr. Lántakandi yrði þá að borga 42 kr. meira fyrsta árið með gamla fyrirkomulaginu en hann þyrfti samkv. bráðabirgðal. Og þó að fjárhagur lántakenda sé yfirleitt mjög bágborinn, er þetta ekki það stór fjárupphæð, að hún geti skipt svo miklu máli sem hæstv. stj. vill vera láta. Ennfremur má geta þess, að eftir að bóndi hefir sent lánbeiðni til Kreppulánasjóðs, má ekki ganga að honum með löghaldi eða fjárnámi, og þarf hann því ekki að óttast neinar truflanir á búrekstri sínum af þeim sökum. Svo að ekki gat legið á lánunum af þeim sökum.

Eitt atriði vil ég benda á til sönnunar því máli mínu, að hæstv. forsrh. muni ekki vera sem bezt kunnugur þessum málum, að hann hélt, að bændur fengju lán þessi beint og hefði því legið á þeim. Þetta eru engin peningalán, heldur er því svo fyrir komið, að skuldir lántakenda eru borgaðar sumpart í peningum og sumpart í bréfum frá Kreppulánasjóðnum. Þetta virðist hæstv. forsrh. ekki vita. En þó skiptir það meira máli, að meiri hl. n. þeirrar, er fékk þetta mál til athugunar, var sammála um það, að með þessum bráðabirgðal. hefði hæstv. forsrh brotið anda 23. gr. stjskr., og einn stuðningsmaður stj. hefir staðið hér upp og lýst því yfir, að hann teldi, að svo væri. Það er í fyllsta máta óviðkunnanlegt, að eftir þessa ádrepu stendur hæstv. forsrh. upp og segist skulu gera þetta sama aftur hvenær sem honum þóknist. Hitt hefði legið nær, að hæstv. forsrh., sem þar að auki er lögfræðingur, hefði eftir slíka ádrepu frá meiri hl. Alþ. staðið upp, viðurkennt, að hér hefði hann framið lögleysu og lofað að gera það aldrei aftur.