15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

35. mál, Kreppulánasjóður

Ólafur Thors:

Ég ætla nú ekki að fara út í neinar stælur um þetta mál, en sé þó nauðsyn bera til að áminna hæstv. forsrh. um að sýna meiri varfærni framvegis en hingað til. Og ég vildi leiða athygli hv. þdm. að því, hve veik rök hæstv. ráðh. færði fyrir þessu broti sínu á anda stjskr. Fyrst kom hann með það, að bændur hefðu þurft lánanna svo fljótt, að ekki hefði mátt bíða þingsins þess vegna. Búið er að sýna fram á, að þetta er tóm vitleysa. Þá voru talin vandkvæði á því að breyta lánskjörunum eftir að lánin voru tekin.

Ég mun leiða hjá mér að rökræða hinn spaugilega ef ekki sorglega skilning hv. þm. N.-Þ. á þessu máli. Hann sagði, að með bráðabirgðal. væri komið í veg fyrir aukið erfiði og tvíverknað, og þá gerði svo sem minnst til, eftir hans skilningi, hvað stjórnarskráin segði. En ég skal segja honum í fullri alvöru, að ég lít svo á, að stjórnarskráin sé meira en glingur eitt, sem hægt sé að breyta eftir geðþótta uppi í Sambandshúsi, eða annarsstaðar. Ég hygg að það muni þykja eftirtektarvert, hvernig skilning þessir herrar, hv. þm. N.-Þ. og hæstv. forsrh., hafa á stjórnarskránni. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir áðan, eftir að hann hafði fengið maklegar ávítur fyrir þessa meðferð á stjskr., að þetta sama mundi hann gera hvenær, sem sér sýndist. Ég verð að segja, að ef þessi andi á að verða ríkjandi hér, það hnefaréttarlögmál, að „sá lýgur, sem liggur“, þá er eins gott að loka þinginu þegar í stað.