15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

35. mál, Kreppulánasjóður

Hannes Jónson:

Ég hafði ekki ætlað mér að lengja hér umræður. En mér finnst undarlegt, ef hæstv. stj. og þeir, sem hana styðja, þurfa að vera að færa fram rök, sem enga stoð hafa. Það er rétt hjá hæstv. stj., að hér er um að ræða breyt. til bóta fyrir lántakendur, og er því ástæðulaust að vera með nokkrar falskar umbúðir. Hv. þm. N.-Þ. sagði, að þurft hefði að flýta lántökum bænda, svo að eigi væri gengið að fasteignaveðslánum. En þetta kemur þeim lánum ekkert við, því að það er eins hægt að ganga að þeim, þó að búið sé að undirrita kreppulánabréfin. Ég veit dæmi þess, að það hefir verið gert, og slíkt er ekki hægt að hindra, þó að kreppulánabréf séu gefin út um leið og sótt er. Fasteignaveðslánin snerta þetta ekki nema að því leyti sem eigendur fasteignaveðskrafna ganga inn á að taka greiðslu í kreppulánasjóðsbréfum, og ef fasteignaveðslánin fara fram úr fasteignamati, en þau tilfelli eru fá.

Því er haldið fram, að mikill kostnaður mundi hafa fylgt því að breyta lánunum samkv. nýju l. Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að nauðsynlegt hefði verið að stöðva útborganir úr Kreppulánasjóði til þess að forða ríkissjóði frá of miklum þunga af inndrætti bréfanna. Annars held ég, að kostnaður ríkissjóðs af þessu hefði aldrei valdið miklum straumhvörfum. En ef hæstv. stj. hefði snúið sér til stj. Kreppulánasjóðs og skýrt henni frá, að hún hefði í hyggju að bera fram löggjöf um breyt. á greiðslukjörunum, og óskað eftir, að stj. sjóðsins borgaði ekki út fyrst um sinn þau lán, sem búið væri að samþ., þá hefði náðst sama takmark og bráðabirgðal. stefna að. Þetta hefði verið miklu eðlilegri gangur málsins, þó að ég vilji hinsvegar ekki að öllu leyti taka undir það ámæli, sem stj. hefir hlotið af þessum bráðabirgðal.