15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

35. mál, Kreppulánasjóður

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mikið umræður. Hv. þm. V.-Húnv. vildi ekki gera mikið úr þeim kostnaði, sem af því hefði leitt, að breyta lánskjörunum. En það liggur þó a. m. k. í augum uppi, að bæði hefði verið óviðkunnanlegt og óþarft að gefa út fjölda lánsskjala, sem óhjákvæmilegt var að breyta eftir fáa mán.

Viðvíkjandi fasteignaveðslánunum svaraði hv. þm. í síðari hluta ræðu sinnar því, sem hann sagði í fyrri hlutanum, svo að ég þarf þar engu við að bæta.

Þá vil ég víkja lítilsháttar að hv. 8. landsk. Ég get þakkað honum ummæli hans um mig, sem mátti skilja á þann veg, að ég væri svo vinsæll í kjördæmi mínu, að kjósendur mínir bæru fram kröfur sínar aðeins mín vegna. Hinsvegar þykir mér skrítið, að hv. þm. skuli leyfa sér að halda því fram, að menn utan af landi beri fram kröfur sínar aðeins til þess að þóknast ákveðnum stjórnmálamönnum eða þeim, sem í blöð skrifa. Hann segir, að bændur norður í Þingeyjarsýslu geri kröfur um, að lánskjörunum sé breytt, aðeins til þess að þóknast sérstökum mönnum, sem vilji nota þetta mál til árása á stj. Kreppulánasjóðsins. Jafnframt eru menn hér á einu máli um það, að þörf hafi verið á þessari breyt. Það lítur því út fyrir, að allir vilji ná sér niðri á stj. Kreppulánasjóðsins, og sjá nú allir, hvílíka röksemd hv. 8. landsk. ber fram. Annars hefir hv. 8. landsk. hér nokkra sérstöðu, því að hann efast um, að þessi breyt. sé til bóta. Aðrir hyggja, að svo sé, en deila aðeins um það, hvort rétt hafi verið að gefa út þessi bráðabirgðal.

Hv. 8. landsk. var að bollaleggja um það, að hér væri um svo lítið bætt lánskjör að ræða, að það munaði lántakendur nauðalitlu. En hv. þm. ætti að fara norður í Eyjafjörð og spyrja Eyfirðinga, sem hann var að biðja að kjósa sig, hvort þeir séu honum samdóma um það.

Út af ræðu hv. þm. G.-K. vil ég aðeins segja það, að mér þótti niðurlagið hjá honum talsvert smellið, en hann endaði með snjallyrðinu: „Sá lýgur, sem liggur“. Virðist ekki illa til fallið að heimfæra þetta spakmæli hans upp á kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í vor og úrslit hennar.