15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

35. mál, Kreppulánasjóður

Sigurður Einarsson:

Það var eigi ætlun mín að taka til máls að þessu sinni, en það var út af tveim atriðum, sem hér hafa komið fyrir, að ég kvaddi mér hljóðs.

Um það er deilt, hvort rétt hafi verið að setja þau bráðabirgðal., sem hér er um að ræða. Ég verð að taka það fram, að röksemdir hæstv. forsrh. og annara fyrir nauðsyn þessarar lagasetningar hafa ekki verið eins skýrar og þörf hefði verið á. Munu þeir margir, sem fremur hefðu kosið venjulega meðferð þingsins á þessu máli. En þó að ég telji, að röksemdirnar hefðu mátt vera skýrari og fyllri af hálfu stj., verð ég, að segja, að röksemdir andstæðinganna hafa verið stórum mun léttvægari.

Annað mjög eftirtektarvert hefir komið hér fram, sem gefur tilefni til að spyrja: Á að láta hugsanlega galla á meðferð stj. á þessu máli bitna á málinu sjálfu? Ég er sannfærður um, að meiri hl. hv. þm. er því andvígur, að slík aðferð sé við höfð. Annars kemur víst engum á óvart þetta þóf og nudd sjálfstæðismanna. Þetta er þeirra siður. Og að því er snertir formann Sjálfstæðisfl., hv. þm. G.-K., þá hygg ég, að honum muni fyrirgefið það í þetta sinn, þó að hann um síðir sýni viðleitni sína og hæfileika til þess að ala upp ráðherra og innræta þeim góða og fagra siði. En þetta þarfa og góða skólahald hefði hann átt að hefja fyrr, meðan einhver von var um, að það bæri árangur. Hann getur sem sé ekki búizt við, að andstæðingar hans hafi að miklu ráð hans í þeim efnum, úr því flokksmenn hans í ráðherrastöðum hafa ekki viljað nýta þau. Ég býst nú raunar við, að það hefði verið sama, hvað stj. hefði gert í þessu máli að því leyti, að það hefði alltaf orðið árásarefni frá þessum hv. þm. Hér er það aðalatriðið fyrir andstæðingunum að deila á stj., hitt er aukaatriði í þeirra augum, hvað hún var að gera, og hverjum það var til gagns.

Hv. þm. G.-K. var að tala um anda stjórnarskrárinnar, og hann lagði áherzlu á, að stjskr. væri ekkert glingur, sem menn hefðu leyfi til að brjóta, eftir vild uppi í Sambandshúsi. En ég vildi mega benda þessum hv. þm. á það, að eitt hús er ekki öðru betra í þessu tilliti, og mörgum leikur grunur á, að sjálfstæðismennirnir hafi notað sjálft stjórnarráðshúsið til þess að brjóta anda stjórnarskrárinnar. Hví að vissuleg, er enginn flokkur sekari í því efni en Sjálfstæðisfl. En auðvitað er þetta ekki annað en draugur, sem þeir hv. 8. landsk. og hv. þm. G.-K. hafa vakið upp til sendinga hér í d., og er þess að vænta, að þeir, sem hafa vakið hann upp, kunni svo vel tökin á honum, að hann verði eigi áheyrendum að slysi eða snúist gegn þeim sjálfum, eins og við bar um þjóðsagnadraugana, ef klaufalega var með þá farið.

Öll þjóðin veit, hvað er á seyði, þegar Sjálfstæðisfl. fer að túlka 1. Ófullkomin eru l., en ófullkomnari er túlkun Sjálfstæðisfl. á anda þeirra. Ef það er nokkur hlutur, sem þjóðin frábað sér innilega í síðustu kosningum, þá var það túlkun sjálfstæðismanna á anda laganna.