15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

35. mál, Kreppulánasjóður

Gísli Guðmundsson:

Ég get gengið inn á það með hv. síðasta ræðumanni, að það sé ekki ástæða til að eyða mörgum orðum á þá, sem vaða úr einni vitleysunni í aðra, og þess vegna ætla ég ekki að eyða mörgum orðum á hann. Hv. þm. hefir misskilið það, sem ég sagði um vaxtatillagið. Það mun öllum hv. þm. kunnugt, að Kreppulánasjóður lánar einnig til vaxtagreiðslu. Það ætti hv. þm. að vera sérstaklega vel kunnugt, þar sem hann hefir verið umboðsmaður fjölda lántakenda úr Kreppulánasjóði, að þar er samið frv. til skuldaskila á peningalánum og greiðslu vaxta. Ég held bara, að hv. þm. blandi saman vaxtagreiðslu ríkissjóðs samkv. sérstökum l. og Kreppulöggjöfinni, en þetta sýnir, að það er einmitt hann, sem ekki veit, um hvað hann er að tala.