15.10.1934
Neðri deild: 10. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

35. mál, Kreppulánasjóður

Sigurður Einarsson:

Hv. þm. G.-K. notaði síðustu orð ræðu sinnar til að láta í ljós margra ára harm og gremju íhaldsins yfir því, að það skyldi ekki hafa notið mín til neins síðan ég komst til vits og ára. Þessi gremja þeirra íhaldsmannanna er þó lítt skiljanleg, þar sem ég sé ekki, að þeir hafi ástæðu til að sakna mín. En þessi gremja og vonbrigði í minn garð hafa komið fram ár eftir ár, og mun engum dyljast, sem lesið hefir blöð flokksins á þeim tíma. Hér koma fram sömu eymslin og vonbrigðin hjá hv. þm. G.-K., en af því ég veit, að þessi hv. þm. er nokkuð lífsreyndur maður og hefir fengið harðan mótbyr, þó skammt sé síðan hann varð formaður Sjálfstæðisfl., því hefði ég viljað mega vænta af honum nokkru meiri karlmennsku en lýsir sér í þessum kveinstöfum hans yfir því, að ég skuli hafa orðið íhaldinu frekar til óþurftar síðan ég fór að taka þátt í opinberum málum heldur en hitt. Og það er ósköp hætt við, að ég verði að hryggja hann með því, að vera það framvegis. (ÓTh: Er þá þm. kominn til vits og ára?).