11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl]:

Frv. þetta flytur algert nýmæli í íslenzkri löggjöf. Aðalefni þess er fólgið í þeim fjórum atriðum, er nú skal greina. Í fyrsta lagi er læknum lögð sú skylda á herðar, viti þeir til þess, að kona sé sjúk á þann hátt, að heilsufars hennar vegna sé hættulegt fyrir hana að verða barnshafandi og ala barn, að láta konuna vita af þessu og gefa henni leiðbeiningar um það, hvernig hún geti varizt því að verða barnshafandi. Í öðru lagi er ætlazt til þess, að hvaða kona sem er geti fengið upplýsingar og leiðbeiningar hjá læknum eða sérfræðingum í kynsjúkdómum um varnir gegn barnshöfn. Í þriðja lagi er læknum leyft, ef lífshætta er á ferðum, og jafnvel þó minni hættu sé, að gera þær aðgerðir á konum, sem komi í veg fyrir, að þær geti orðið barnshafandi. Í fjórða lagi er læknum heimilað og skylt að eyða fóstri eða taka barn af lífi í fæðingu, ef líf móðurinnar liggur við.

Um þrjú fyrstu atriðin mun ekki orka tvímælis, að sjálfsagt sé að lögfesta. Um rétt lækna til að eyða fóstri og taka líf barns í móðurkviði býst ég við, að skoðanir kunni að verða skiptar. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta, en vil aðeins undirstrika það, að þarna er ekki gengið lengra en svo, að þetta er því aðeins heimilað í l., að lífi móðurinnar sé bein hætta búin, og settar strangar skorður við því, að þetta verði gert án þess að fullt tilefni sé til.

Því er ekki að leyna, að þótt hér sé um nýmæli að ræða hvað löggjöf snertir, þá er þetta samt ekkert nýmæli hvað verknað læknanna á hrærir. Það er fullvíst samkv. opinberum skýrslum, að læknar hér hafa undanfarin ár gert talsvert mikið að því að eyða fóstrum. Samt býr íslenzka löggjöfin svo rammbyggilega um hnútana í þessu efni, að slíkt varðar allt að 8 ára fangelsi, bæði fyrir móðurina, sem óskar verknaðarins, og lækninn, sem framkvæmir hann. Og þar sem talsvert mikið er að þessu gert, þrátt fyrir svona ströng viðurlög, má öllum augljóst vera, hvílík nauðsyn er á þessum 1. Nú verða læknar, sem ætla að eyða fóstri eða deyða barn í fæðingu til þess að bjarga móðurinni, að skjóta sér undir reglurnar um nauðvörn, og er það óneitanlega nokkuð langt sótt. Og allur almenningur á bágt með að átta sig á þessu. Fólk veit ekki betur en að allar fóstureyðingar séu ólöglegar, en veit þó, að þær eru framkvæmdar í allstórum stíl, og stundum án þess að full nauðsyn beri til. Með þessum lögum eru settar ótvíræðar reglur um það, hvenær fóstureyðingar eru leyfðar og hvenær þær skuli bannaðar, og víti lögð við, sé út af brugðið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv., en vísa til grg., sem er mjög ýtarleg og fróðleg. Eins og grg. ber með sér, er frv. samið af landlækni og flutt eftir óskum hans. Og ég vil taka það fram, að hvað aðalefni frv. snertir er fullt samkomulag milli landlæknis og Læknafél. Reykjavíkur, en í enda grg. er skýrt frá þeim smáatriðum, sem ekki hefir náðst fullt samkomulag um. Ég geri svo að till. minni, að málinu verði vísað til hv. allshn.