22.10.1934
Neðri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1519)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Magnús Torfason:

Ég verð að játa það, að hv. 2. þm. Reykv. er sjálfsagt kunnari þessum leiðbeiningum en ég, og dettur mér ekki í hug að jafna minni þekkingu á við hans í þessu efni. En að öðru leyti fannst mér hann ekki hnekkja neinu af því, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, ýmist svaraði hann því ekki, eða það, sem hann sagði, voru alls ekki fullnægjandi ástæður gegn þeim rökum, sem ég hafði fært fram.

Hann var að tala um skyldu lækna í þessu sambandi. Ef ganga á út frá því, að hún sé sjálfsögð, þá yrði líka að ganga út frá rétti kvenna á þessu sama. Ég skal ekki fara út í þá sálma nánar, en bara geta þess, að það er ósannað mál af hans hendi, að þar sé um þennan rétt að ræða. Hann svaraði því ekki heldur neinu, hvort unnt væri að framfylgja þessum lögum. - að unnt væri að skylda lækna til þess að gera þetta. Ég veit ekki, hvers vegna hann álítur, að þetta sé hægt. Ástæðan til þess ætti þá sérstaklega að vera sú, að læknar eins og aðrir skólagengnir menn, sem hafa notið mikillar kennslu ókeypis af ríkisins hálfu, ættu að borga þá skuld með því að rækja þessa skyldu. En ég fyrir mitt leyti tel ekki, að þjóðin muni hafa neinn sérstakan hag af þessu.

Þá var hv. þm. að tala um atvinnuleysi í þessu sambandi. En ég lít á þetta öðrum augum en hann. Það er ekki um neitt verulegt atvinnuleysi að ræða hér á landi, a. m. k. ekki í neinum samjöfnuði við það, sem er í öðrum löndum. Við vitum, að á vetrum ber nokkuð á atvinnuleysi hér á landi, en það verður aldrei hægt að komast hjá því meðan atvinnuvegirnir eru þeir, sem nú eru, landbúnaður og sjómennska aðallega, því að veturnir eru ekki lagaðir til þeirra starfa. Við þurfum ekki að ætla okkur þá dul, að hver maður geti fengið atvinnu þann tíma. Við verðum vissulega að fylgja því náttúrulögmáli, sem legu landsins fylgir, og það er, að við verðum að reyna að vinna fyrir okkur á sumrin til þess að geta lifað yfir veturinn.

Þegar talað er um þetta atvinnuleysi, þá vil ég benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að bæði Frakkar og Ítalir borga verðlaun fyrir barnsfæðingar í sínum löndum, þó að þar sé fullt af fólki og mikið atvinnuleysi. Og núna nýlega las ég það í blaði, að einn milljónamæringur hefði ráðstafað 2 milljónum króna til verðlauna þeim konum í sínu landi, sem eiga flest börn á næstu 10 árum. Þannig líta þessir menn á þetta mál.

Ég held satt að segja, að ef út í þessa sálma er farið, þá séu öll önnur meðul réttari til þessa heldur en hér um ræðir.

Yfirleitt hélt ég, að leiðin til þess að bæta úr þessu böli væri að beina hugsunarhættinum á aðra braut heldur en nú er, - að beina hugsunarhættinum í þá átt, sem á að vera, að sú kona sé í heiðri höfð, sem fjölgar mannfólkinu, og það jafnvel hvernig sem barnið er komið undir. Og því er ekki að neita, að hugsunarháttur manna hefir mikið breyzt í þessu efni. Það hefði getað verið ástæða til þess að biðja lækna og aðra góða menn, sem mikið tal hafa af almenningi, eða jafnvel að skylda þá til þess að telja um fyrir mönnum í þessu efni, bæði konum og körlum.

Ég þarf ekki að tala frekar um þetta, en hvað sem öðru líður, þá vildi ég með þessu hafa sýnt, að ég er ekki sammála slíku, sem hér er farið fram á; og vil ekki bera ábyrgð á því gagnvart komandi kynslóð.