15.11.1934
Efri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. var lagt fyrir þingið af ríkisstj., eða ráðh. þeim, sem fer með heilbrigðismál. Frv. er samið af landlækni, og fylgir því mjög ýtarleg grg. Í grg. þessari eru færð rök fyrir því, hvers vegna frv. er flutt. Frá leikmannssjónarmiði a. m. k. virðist svo, sem mjög hafi til frv. verið vandað, og leitað álits þeirra aðila í landinu, sem bezta hafa þekkingu og vit á þessum málum. Ég vil sérstaklega taka þetta fram vegna þess, að ég get sjálfur gefið þá yfirlýsingu, að mér kom þetta frv. dálítið einkennilega fyrir sjónir í fyrstu. En eftir að ég hafði lesið grg., sem því fylgdi, og lesið hana oftar en einu sinni, þá skildist mér, hvað bak við lá. Ég held, að hver, sem grg. les, hljóti að sannfærast um það, að ekki er að ástæðulausu, að frv. þetta er fram borið. Ég efast ekki um það heldur, að allir, sem hafa kynnt sér frv. og ástæður fyrir því, samþ. það, að það sé nauðsynlegt að setja l. um þetta efni. Hitt getur aftur á móti komið til mála, að menn greini á um einstök atriði frv. Þessi umr. er einkum ætluð til þess að ræða einstök atriði málsins, en í þessari frumræðu minni ætla ég þó ekki að fara inn á það efni strax, vegna þess, að fyrir liggja brtt. við frv., sem ég tel rétt, að flm. mæli fyrir áður en ég fer inn á einstök atriði frv., því að ef ég geri það, þá er óhjákvæmilegt að minnast á framkomnar brtt. um leið. Ég tel hinsvegar rétt að gera nú þegar grein fyrir þeirri brtt., sem n. flytur sjálf við frv. Brtt. má sjá í nál. á þskj. 392, um að 10. gr. frv. falli burt. Það er ekki af þeirri ástæðu, að till. er flutt, að n. álíti, að 10. gr. út af fyrr sig eigi ekki rétt á sér, en hún telur hins vegar, að efni gr. eigi fremur heima í öðrum 1., sem segja má, að séu hliðstæð þessum, og er þess að vænta, að þau verði fram borin áður en langt um líður. Ég geri ráð fyrir, að flestir dm. ráði í það af efni 10. gr., við hvaða löggjöf hér er átt, sem sé, að þjóðarnauðsyn geti krafizt þess, að heimild sé til þess að gera bæði karla og konur ófrjó. Og ég held, að ekki verði hjá því komizt, að þessi tvenn lög grípi nokkuð hvort inn í annað í einstökum tilfellum, og á meðan ekki eru sett lög nema um annað efnið telur n. ekki rétt að grípa nokkuð inn á verksvið þeirra 1., og leggur því til, að þessi áminnzta 10. kr. falli niður. Og má þá gera ráð fyrir því, að efni hennar verði tekið upp í aðra, hliðstæða löggjöf, sem væntanlega kemur fram innan skamms. Ég vil geta þess, að till. hefir verið borin undir landlækni, og hann taldi sig ekki mótfallinn efni hennar, en að það ætti ef til vill frekar heima í annari löggjöf.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um mál þetta að sinni. Að vísu gæfi grg. þess manni tilefni til að ræða það á allbreiðum grundvelli, en ég mun þó ekki gera það við þessa umr., þar sem ég held, að enginn ágreiningur verði um nauðsyn þessarar löggjafar. Aftur á móti getur vel orðið ágreiningur um einstakar greinar, en ég læt bíða að fara út í þær þar til hv. 5. landsk. hefir mælt fyrir brtt. sínum.