15.11.1934
Efri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1139 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Guðrún Lárusdóttir:

Ég drap á það við 1. umr. þessa máls, að mér þætti þetta frv. ekki nógu vel undirbúið. Ég get því ekki verið sammála hv. frsm. n. um það, að vandað hafi verið til undirbúningsins og til þeirra aðila leitað, sem mestan kunnugleika hefðu um þessi mál, og hef ég þar einkum í huga Ljósmæðrafélag Íslands, sem mun hafa einna bezt skilyrði til að gefa góðar bendingar um þessi mál. Annarsstaðar, þar sem slík mál hafa komið til tals, hefir það allsstaðar þótt fyrsta boðorðið að vanda allan undirbúning. Málinu hefir verið skotið til þjóðarinnar allrar, og henni gefinn kostur á að ræðu það gaumgæfilega. Löggjöfin hefir ekki verið undirbúin á þann hátt, að nokkrir menn setjist niður inni við skrifborð sín og skrifi niður það, sem þeim gott þykir. Áður en slíkt frv. kæmi fyrir almenningssjónir, þyrftu félög, nefndir og einstakir fagmenn að hafa haft tækifæri til að ráðgast ýtarlega um einstök atriði þess. En hér er nú frv. komið fram, og með grg., sem afhjúpar svo hræðilega hluti, að manni virðist sem það hefði frekar átt erindi til lögreglunnar en til löggjafarinnar. Og það má undarlegt heita, að slíkt fargan, sem grg. lýsir, skuli hafa verið látið þrífast árum saman með svokallaðri siðaðri þjóð. Nýlega hefir legið fyrir norska Stórþinginu frv. um þessi efni, sem þó gekk lengra en þetta frv., að því er lesið verður úr ummælum norskra blaða. Um þetta frv. hefir mikið verið rætt af norsku þjóðinni, og það þótt svo miklu varða, að heilir landsfundir hafa verið kallaðir saman til þess að ræða það. Í októbermánuði var haldinn landsfundur mikill í Osló, þar sem málið var tekið til meðferðar, og fyrstu daga nóvember var haldinn 2500 manna fundur í einum stærsta samkomusal Oslóborgar til þess að ræða frv., sem lá fyrir Stórþinginu. Þetta gæti verið bending til okkar um, að undirbúningur okkar undir þetta frv. hafi ekki verið eins víðtækur og skyldi. Og undrandi varð ég yfir meðferð málsins í hv. Nd., þeirri þögn, sem þar ríkti um frv., þar sem hér er um að ræða eitt það ægilegasta mál, sem fyrir þessu Alþ. liggur. Þar töluðu engir um frv. nema hæstv. atvmrh., er hann lagði það fram, og svo tveir þm. lítillega út af brtt., sem fram kom. Og ég verð að álíta, eftir samræðum mínum við þm. í báðum d. að dæma, að hv. þm. þurfi yfirleitt lítið hugsað um þetta mál og sýnt því óskiljanlegt tómlæti. En þegar málið kemur hér til hv. Ed. og ég stend upp til að hreyfa mótmælum, þá fyrst kemst hreyfing á málið, og annar aðili þess, karlmennirnir, rumska. Og þeim þótti ég ganga allt of langt í brtt. mínum, þar sem fitjað var upp á því, að láta aðgerðir þær, sem þeim þótti sjálfsagt í frv. að gera ráð fyrir konum til handa, einnig ná til þeirra. Ég hefi bent á það áður, að ég tel frv. allt of einhliða, og er engin von til þess, að konur þoli slíka löggjöf á þeirri jafnréttisöld, sem við lifum á.

Ég mun þá snúa mér að brtt. mínum og einstökum gr. frv. í sambandi við þær. - Í 2. málsgr. 1. gr. frv. er svo ákveðið, að lækni sé skylt að láta hverri konu, sem þess æskir, í té leiðbeiningar um varnir gegn því að verða barnshafandi. Þarna er ekkert tekið til, að um veika konu þurfi að vera að ræða, heldur er eftir orðanna hljóðan hverri konu heimilt að fá þessar upplýsingar hjá læknum. Það er ekkert á móti því, að fólk leiti til læknis um þessi mál, ef það er líkamlega sjúkt, en ég tel of langt gengið af löggjöfinni að leggja læknum slíka skyldu á herðar og hér er gert. Mér hefði fundizt réttara að heimila læknum þetta. Í grg. frv. er minnzt á, að Læknafélag Reykjavíkur hafi talið heppilegra að hafa þetta heimildarákvæði, en ekki skyldu, svo að ég stend ekki ein uppi með það álit mitt. Ég vildi víkja nokkrum orðum að þeirri hættu, sem í þessu ákvæði felst. Hugsum okkur, að í Reykjavík verði sett upp leiðbeiningarstöð um þessi efni, sem gæfi konum, og þá væntanlega líka körlum, upplýsingar um þessi efni. Ég vil þá spyrja hv. þdm. í fyllstu alvöru, hvort þeir séu ekkert smeykir við það, að lausung og sjúkdómshætta aukist vegna þessarar lagasetningar. Ég veit, að ekki þarf að skylda lækna til þess að taka á móti sjúku fólki, sem spyr þá ráða. Það er hin sjálfsagða skylda hvers læknis. En hér er ekki um veikt fólk að ræða, eða þarf ekki að vera samkv. frv. Eftir því getur hver sem vill fengið þessar leiðbeiningar. Oftast mun það vera svo, að á bak við þá konu, sem fer til læknis í þessum erindagerðum, stendur einhver karlmaðurinn, sem ýtir henni áfram, eða þá að hún fer til þess að þurfa ekki að óttast afleiðingar þess lifnaðar, sem hún hefir í huga að lifa. Þarna liggur hætta falin. Ég þarf ekki að nefna það, sem allir hv. þdm. vita, að í kjölfar alls óskírlífis siglir sýkingarhættan. Hér á landi er nú orðin landlæg sú vonda veiki, sem nefnd hefir verið „alheimsbölið mikla“, og er svo alvarleg, að þurft hefir að veita í fjárl. árlega allmikla fjárupphæð til að verjast þessum faraldri. Nú mun til ætlazt, að 30 þús. kr. verði veittar í þessu skyni, og er það 20 þús. kr. meira en veitt var í síðustu fjárl. í sama augnamiði. Af þessu má sjá, að hér er um býsna alvarlegt atriði að ræða. - Við getum hugsað okkur unga, saklausa og óreynda stúlku, sem lendir í höndunum á óvönduðu rosamenni, - hvað hann stendur betur að vígi, ef hann getur bent henni á lagaákvæði, sem skyldar hvaða lækni sem er að láta henni í té upplýsingar, sem gera þeim mögulegt að halda áfram athæfi sínu ábyrgðarlaust. Og ekki sízt nú, þegar aftur á að fara að veita lítt hindruðu vínflóði yfir landið, er ástæða til að benda á þessa hættu. Allir vita, að þar, sem vínið hefir völdin, lýtur velsæmi, siðgæði og hverskonar sálarþróttur í lægra haldi. - Menn mega ekki taka afstöðu mína í máli þessu svo, að ég sé andvíg samþykkt heilbrigðra og góðra l., en sem fulltrúi kvenþjóðarinnar tel ég skyldu mína að verja sakleysi ungra stúlkna í lengstu lög. Og hér er um verulega hættu að ræða í því efni. Bandalag kvenna hélt fund 5.-6. nóv. síðastl. og tók þá mál þetta til meðferðar og samþ. álit og brtt. við frv., sem það sendi hv. allshn. Þar er lagt til, að við 1. gr. frv. verði bætt þessu:

„Ef um gifta konu er að ræða, er lækni skylt að aðvara mann hennar í því efni og láta honum í té leiðbeiningar til þess að kona hans verði ekki barnshafandi“.

Í samræmi við þetta er brtt. mín við 1. gr. En álit Bandalagsins var ekki komið fram þegar ég samdi brtt. mínar; annars hefði ég auðvitað sniðið þær eftir till. fundarins. En hún fer í aðalatriðunum í sömu átt. Samt er þar gengið talsvert lengra, og gæti það orðið til þess að fæla hv. þdm. frá því að samþ. hana. Ég hef því hugsað mér að bera fram skrifl. brtt. við þessa brtt. mína við 1. gr., svo hljóðandi, að niður skuli falla í 2. málsl. orðin: „ - eða gera á honum viðeigandi aðgerð“. Vona ég, að hv. þdm. sjái sér fært að samþ. till. mína svo breytta, og skiljist það, að ég stend hér ekki til þess að pexa eða tefja fyrir málinu, heldur til þess að koma þeim umbótum á frv. fram, sem mér finnst það ekki mega án vera, verði það að l. - Brtt. mín við 1. gr. fer fram á að sameina 1. og 2. gr. frv. og draga efni þeirra í eina heild, svo að læknum sé skylt að veita sjúkum konum allar upplýsingar um þessi efni, og þegar um gifta konu sé að ræða, eða konu, sem lifi með barnsföður sínum, sé skylt að veita viðkomandi karlmanni þessar leiðbeiningar. Þetta álít ég skynsamlegra en að gefa hverjum sem er heimild til þess að ganga í skrokk á læknunum og heimta slíkar leiðbeiningar. - Brtt. mín við 3. gr. er aðeins smávægileg orðabreyting: orðalag þeirrar gr. er nokkuð staglsamt í frv., og vildi ég færa það til betra máls. En það er auðvitað eftir því sem hverjum þykir. - Brtt. mín við 9. gr. frv. er á þá leið, að síðasta málsgr. falli niður. Um þetta geta orðið skiptar skoðanir. En þó tel ég víst, að margir vilji fara svo gætilega í sakirnar, að heimila ekki fóstureyðingar af neinum ástæðum öðrum en sjúkdómum. Ekkert annað á að réttlæta þessar aðgerðir. Hér er um mannslíf að ræða, þótt ófullkomið sé, en sé því fyrirfarið, lifir ekki viðkomandi maður. Og mér finnst ástæður 9. gr. verða léttvægar, þegar um svona mikið mál er að ræða. Þar er talað um ómegð, fátækt og heilsuleysi annara á heimilinu. En ég get ekki fellt mig við, að nokkuð annað en sjúkdómshætta konunnar sjálfrar eða yfirvofandi dauði sé tekið sem gildar ástæður. Og sum af þessum vandræðum, sem þarna eru upp talin, svo sem af ómegð og fátækt, ætti að mega leysa á annan hátt. Þar getur þjóðfélagið komið til hjálpar. Tökum t. d. ómegðina. Er nokkur hjálp í því, að kona sé tekin frá stórum barnahóp, flutt upp á spítala og gerðar þar á henni aðgerðir upp á líf og dauða? Og ef illa fer, og konan deyr, - er barnahópurinn heima fyrir þá betur farinn en þó að konan fengi að ganga með barnið sitt og ala það skikkanlega og skaplega? Nei, þetta þykir ótækt; hitt þykir sjálfsagt, að lalla með konuna upp á spítala, leggja hana þar á skurðarborð og láta henni blæða, stundum til ólífis. Þetta má ekki eiga sér stað, - á eftir þessu kemur annað meira. Hér er verið að ganga inn á braut fóstureyðinga, og getur hún ekki leitt til annars en ills eins. Afleiðingin verður aukin lausung og misþyrming á þeim helgustu tilfinningum, sem móðirin á yfir að ráða. Ég treysti hv. dm., sem allir eru vel fullorðnir og reyndir menn, að greiða ekki atkv. með síðari hluta 9. gr. - Um þessa gr. sendir stjórn Ljósmæðrafélags Íslands (í nál. er þetta félag nefnt Ljósmæðrafélag Reykjavíkur, en það er ekki rétt) umsögn sína, og er hún svo hljóðandi:

„Hér er smeygt inn í frumvarpið mjög varhugaverðum ákvæðum, þar sem gengið er inn á þá braut, að leyfa fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Teljum vér það mjög hættulegt bæði frá siðferðislegu og - eftir því sem til hagar hér á voru landi - þjóðfélagslegu sjónarmiði. Það er að vísu látið svo heita, og er kannske svo hugsað af höfundi frv., að félagslegar ástæður eigi því aðeins að koma til greina, að heilsu konunnar sé að einhverju leyti ábótavant, svo að henni geti stafað einhver hætta, fram yfir það, sem annars væri, af því að ganga með og ala sitt barn. Það getur þó engum dulizt, að þessi ákvæði greinarkaflans eru svo óljós og loðin, að þau má teygja og laga til eins og hverjum og einum þóknast. Teljum vér slík lagafyrirmæli alveg óviðunandi, og það því fremur, sem þau taka til þeirra atriða, sem einmitt er mest um deilt“.

Um þessa málsgr. segir fundur Bandalags kvenna :

„Með þessari málsgr. er farið inn á félagslegar ástæður, sem Bandalag kvenna getur ekki fellt sig við, að komi til greina í þessu sambandi, heldur eigi matið fyrir fóstureyðingum eingöngu að byggjast á sjúkdómi og hættu konunnar sjálfrar af burðinum“.

Þá er ekki vert að ganga fram hjá því, sem próf. Guðmundur Thoroddsen segir um þessi mál. Hann hélt fyrirlestur um þau í Læknafélagi Reykjavíkur, og var hann prentaður í Ljósmæðrablaðinu, 3. tbl. 9. árg. Hann segir m. a.:

„Mín skoðun er sú, að þjóðfélagið eigi í lengstu lög að reyna að koma í veg fyrir abortus provacatus vegna social-indikationa, en stefna fremur að því, að reyna að fækka socialindikationunum“.

Þetta er svo rétt, svo drengilega mælt, að mér finnst sem það sé ábyrgðarhluti að samþ. niðurlag 9. gr. og standa andspænis alvöruþrungnum ummælum merkra manna. - Ég þykist nú hafa skýrt þessar brtt. mínar svo, að ég vona, að hv. þdm. skilji, hvað ég er að fara og samþ. þær með mér. Og einmitt þessi brtt., við 9. gr., er þungamiðja brtt. minna. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að fyrir nokkru voru samþ. hér ágæt barnaverndarl. og barnaverndarn. stofnaðar, og yfirleitt margt gert til þess að vernda æskuna og hjálpa mæðrum. Geta þá hv. þm. ekki séð ósamræmið í hinni fullkomnu barnavernd og ákvæðum um það, að ráðast megi á óborin börnin og deyða þau, af þeim ástæðum, sem 9. gr. þessa frv. telur upp. Nei, ég vil, að þjóðfélagið tryggi öllum mæðrum heimili og aðra þá aðstöðu, að þær þurfi aldrei að kvíða fyrir að fæða því afkvæmi. Og umfram allt, að þær þurfi aldrei að grípa til þeirra örþrifaráða, sem fóstureyðing er, vegna erfiðra ástæðna. Auk þess vil ég taka fram, að mér finnst vera lagður fullmikill vandi á herðar læknanna, að meta ástæðurnar í hvert sinn. Ég verð líka að segja, að eftir að hafa lesið grg. frv. og séð, hvað þar er sett fram, þá ber ég ekki traust til allra lækna að fá þeim þessi vandamál í hendur. Ennfremur sé ég ekki ástæðu til að ganga inn á svo breiða braut, þó einhver ástæða væri fyrir því hér í Reykjavík, meðan sveitirnar og yfirleitt landið að öðru leyti er laust við þennan ófögnuð. Löggjafarvaldið verður þó að taka jafnt tillit til ástæðnanna annarsstaðar á landinu. Og það er svo hamingjunni fyrir að þakka, að við eigum enn margt af heilbrigðum konum og dætrum, sem spillingin hefir ekki náð til.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að segja, að ef uppeldi æskulýðsins hefði verið betra og siðferðiskröfurnar meiri, og ekki verið látnar dynja á þjóðinni jafnsvívirðilegar bókmenntir eins og virðist hafa verið kappkostað að halda að fólkinu til að lesa nú upp á síðkastið, hygg ég, að það væri ekki eins illa farið í þessu efni og raun ber vitni um.