16.11.1934
Efri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Við fyrri hluta þessarar umr. hér í d. í gær kom það fyrir, sem oft vill verða, að tveir dm. kvöddu sér hljóðs samtímis, ég og hæstv. atvmrh. Báðir áttum við erindi við hv. 5. landsk. Samkv. þingvenju veitti hæstv. forseti hæstv. atvmrh. orðið fyrr, og er ég ekki að víta það - síður en svo -, en þess vegna verður mitt erindi minna.

Ég get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um ýms atriði í ræðu hv. 5. landsk. Í minni stuttu framsögu hafði ég haldið því fram, að frv. væri vel undirbúið, en því andmælti hv. 5. landsk. og taldi jafnvel flaustursverk. Ég vil ekki láta þessu ómótmælt, og vil ég nú leitast við að færa nokkur rök að því, að frv. sé vel - og ég leyfi mér að segja óvenjuvel - undirbúið. Það er samið af lækni, sem hefir gegnt héraðslæknisstörfum um langt skeið, og ég veit ekki betur en að hafi þótt góður læknir; auk þess er hann landlæknir. Ég get nú búizt við, að hv. 5. landsk. og sumir aðrir segi sem svo, að það út af fyrir sig, að hann sé landlæknir, sé engin sönnun fyrir betri undirbúningi, og það skal ég játa, að hann fær ekki aukna fræðslu við það eitt að verða landlæknir, en hann fær sterkari ábyrgðartilfinningu, og það tel ég mikla tryggingu, að frv. er undirbúið af manni með ríka ábyrgðartilfinningu. Ég vil ennfremur minna á, að eins og grg. frv. ber með sér, er það samið og borið undir einstaka lækna og Læknafélag Reykjavíkur - ég hygg, að það sé rétt með farið hjá mér, að það heiti L. R., en ekki Læknafélag Íslands - og þessir læknar hafa látið ótvírætt í ljós óskir sínar um, að frv. þetta yrði að lögum. Eðlilega höfðu þeir gert nokkrar brtt. eða aths., sem ekki voru mikilsvirði og hafa flestar verið teknar til greina, en þær, sem ekki voru teknar til greina, eru athugaðar í grg. frv. og færð þar gild rök að, hvers vegna það var ekki gert. Auk þess getur hver maður, er les grg. ýtarlega. sannfærzt um, að frv. er gagnhugsað og færð rök fyrir hverju einasta atriði, er fram kemur í frv. Ég fæ ekki betur séð en með þessu sé sýnt, að frv. er ekki einungis vel undirbúið heldur óvenjuvel, og ætla ég, að hvorki ég né hv. 5. landsk. höfum 1 borið fram frv. hér á Alþ., sem hefir verið eins vel undirbúið.

Þá skal ég minnast á það, sem hv. 5. landsk. vildi færa sem rök fyrir því, að frv. væri ekki vel undirbúið, sem sé að það hefði ekki verið borið undir ljósmæðurnar. Ég skal játa það, að mér er vel við ljósmæðurnar - því mér er vel við allar konur -, en þó sérstaklega vel við eina ljósmóður, sem hefir tekið á móti 9 börnum fyrir mig, - þ. e. a. s. sem konan mín átti. En ég verð að segja það, að ég sé ekki, að frv. hafi átt sérstakt erindi til ljósmæðra, af því ég veit ekki betur en frv. heimili læknum í vissum tilfellum og eftir ströngum reglum að framkvæmt fóstureyðingar. Ég veit ekki til þess, þó ljósmæður séu vel undirbúnar fyrir sitt starf, eða stundi nám í 12 mán. eða lengur, og ég viðurkenni, að þær ræki starf sitt vel, að starf þeirra sé á öðru sviði. Ég veit ekki til, að ljósmæður hafi nokkurn tíma fengizt við fóstureyðingar. og vil vænta þess, að þær fáist ekki við þær.

Þess vegna held ég, að ekki hafi verið sérstök ástæða til, að frv. færi til þeirra. En það vill nú svo til, að sumar þeirra hafa átt kost á að kynna sér frv., og ég skal geta þess, að allshn. frestaði afgreiðslu frv. í viku af því ein ljósmóðir kom á fund n. og óskaði eftir, að Ljósmæðrafélag Íslands mætti athuga frv. Ég skal geta þess, að það var misgáningur hjá mér á nafni fél., er ég sagði Ljósmæðrafélag Rvíkur, en átti að vera Íslands, ég vissi bara, að þær ljósmæður, sem um frv. fjölluðu, voru aðallega úr Rvík, svo ég get ekki kallað það goðgá.

Hv. 5. landsk. las hér upp kafla úr umsögn þessa ljósmæðrafélags, og ég verð að segja, að þó till. frá því komi ekki alveg heim við það, sem landlæknir hefir haldið fram, þá verð ég sem leikmaður að setja landlækni skör ofar. Það, sem varð þess valdandi, að ég fylgdi ekki till. Ljósmæðrafél., er, að ég styðst við þann aðila, sem ég treysti betur. Það er ekki af því, að ég vantreysti ljósmæðrum - síður en svo - en ég treysti því ekki, að reynsla þeirra né lærdómur standi framar en reynsla og þekking höf. frv. Hv. 5. landsk. gat þess í gær, að n. hefði átt að kynna sér erindi, sem Guðm. Thoroddsen hefði flutt í Læknafélagi Reykjavíkur og birzt hefði í einhverjum bæklingi. (GL: Það er ekki bæklingur). Ég bið forláts, ef ég hefi nefnt það öðru nafni en rétt var; kannske það hafi verið réttara að nefna það rit. En ljósmæðurnar voru svo hugulsamar, að þær gáfu mér þetta rit, og ég las það. En auk þess mætti Guðm. Thoroddsen prófessor á fundi allshn. og lét þar ekki uppi annað en að hann væri allshn. sammála og veitti frv. stuðning. Ég tel, að skoðun Guðm. Thoroddsen, sem hann lét uppi á fundi n. og kemur í ljós í nefndu erindi hans, sé að öllu samrýmanleg. Eftir því, sem ég skil erindið, þá er því haldið fram þar, að hag fátækari stéttanna eigi að bæta og alla aðbúð, svo ekki stafi hætta af eða heilsutjón. Ef eitthvað ber á milli, sem ég ekki sé, þá er ég þannig gerður, að ég tek heldur það, sem nýrra er, og hafi Guðm. Thoroddsen próf. sagt annað við n. en er í erindinu, þá tel ég, að síðari skoðunin eigi að ráða. Ég held því, að ekki heldur þetta, sem hv. 5. landsk. hefir fundið að - að frv. var ekki borið undir ljósmæðurnar og að fyrirlestur Guðm. Thoroddsens próf. stingi í stúf við frv. - séu neinar ástæður eða rök gegn frv.

Þá er ein ástæðan enn, sem hv. 5. landsk. færði fram, að þetta mál væri svo umfangsmikið og mikilsvert, að því ætti að skjóta undir dóm þjóðarinnar. Já - ég er lýðræðismaður það skal ég játa, en ég verð að viðurkenna, að þetta þykir mér fullmikið lýðræði. Að fá þjóðinni allri í hendur vandamál, sem ekki geta, aðrir leyst en helztu sérfræðingar, mál, sem - eins og ég og hv. 5. landsk. erum sammála um -, er svo sérstaklega mikilsvert, það tel ég sama og fá barni voðann í hendur. Þetta er ekki af því, að ég vantreysti fólkinu, en mér finnst ómögulegt að ætlast til þess, að óbreytt verkafólk hafi ástæður til að leysa málið betur en læknar, sem hafa sérþekkingu og hafa lagt alúð í að leysa þetta mál. Ég tel, að ekki hefði verið hægt að vænta betri niðurstöðu með því að fara svona að.

Ég held nú, að ég sé búinn að sýna hv. d. fram á, í fyrsta lagi, að frv. er vel undirbúið, og í öðru lagi, að frv. hefir verið borið undir þá menn, sem vænta má, að séu þess megnugir að segja um það af þekkingu.

Það var eitt atriði hjá hv. 5. landsk., sem ég vildi athuga lítið eitt. Hún kvaðst koma hér fram sem fulltrúi kvenna í landinu. Ef hér væri verið að lögleiða eitthvað, sem konum væri þvert um geð, þá mundi ég stinga við fótum, - svo kvenhollur er ég. En ég verð að telja, að þessu sé ekki svo varið.

Fyrir allshn. hafa komið umsagnir kvenfélaga um málið, og ég verð að telja, að þær konur séu engu síður fulltrúar kvenna í landinu. Ég hefi hér fyrir framan mig bréf frá Kvenréttindafélagi Íslands, undirskrifað af stjórn þess, að ég held. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa þetta bréf upp. Það hljóðar svo:

„Í tilefni af frv. yðar, hr. landlæknir, um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar, viljum vér taka þetta fram: Á 4. landsfundi íslenzkra kvenna, sem haldinn var hér í Rvík og boðað var til af K. R. F. Í., var mál þetta til umræðu. því miður var frv. yðar þá ekki svo undirbúið, að fundurinn gæti tekið það til athugunar, en forstöðunefnd fundarins var kunnugt um, að það var væntanlegt, og gat því um það, að frv. þessa efnis mundi verða lagt fyrir næsta þing. Umræður urðu miklar um málið, en engin tillag, kom fram, enda þóttust margar af konunum þurfa að hugsa málið betur áður en þær gerðu tillögur um það. Kom það þó skýrt fram, að konunum var ljóst, að hér er hið mesta alvörumál á ferðinni, sem aðkallandi þörf er á, að löggjafarvaldið taki til meðferðar hið allra bráðasta. Enginn efi er á því, að ýmsir fulltrúar landsfundarins mundu vilja ganga lengra en frv. yðar gerir, og leggja það meira á vald konunnar en þar er gert, hvort hún á að ala barn eða ekki, en munu þó naumast telja málið svo undirbúið, að vert sé að hrapa að því.

K. R. F. Í. hefir nú haft frv. yðar til umræðu. Telur það mikla bót að því, að það yrði að lögum frá því, sem nú er, sérstaklega felst í því meiri trygging en áður hefir fengizt fyrir því, að aðgerðir þær, sem hér um ræðir, séu gerðar undir sem tryggustum og beztum skilyrðum. Ennfremur telur félagið það mikils virði, að það komi skýrt fram, að læknum sé ekki eingöngu heimilt, heldur skylt að veita þeim konum, sem þess óska, leiðbeiningar um það, hvernig þær eigi að verjast þess að verða barnshafandi.

K. R. F. Í. telur að vísu vel geta komið til mála, að löggjöf þess eðlis, sem hér um ræðir, gangi lengra en frv. yðar gerir, en telur hinsvegar rétt að fara varlega af stað, ekki sízt á meðan öll þessi mál eru svo ókunnug almenningi, sem þau eru.

Virðingarfyllst

Í stjórn K. R. F. Í.

Laufey Valdimarsdóttir, Aðalbjörg Sigurðardóttir, Sigríður Jónsdóttir, Sigurbjörg Jóhannsdóttir, Lovísa Fjeldsted“.

Eins og ég tók fram, lít ég svo á, að það sé stjórn kvenréttindafélagsins, sem undirritar þetta bréf. Virðist mér bréfið bera það með sér. Ég skal ekki fara um þetta bréf fleiri orðum að sinni, en vík að því síðar.

Þá hefir og legið fyrir n. bréf frá Mæðrastyrksnefnd, og veit ég ekki, hvort hún er fyrir Rvík eða allt landið. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það bréf upp líka:

„Mæðrastyrksnefndinni hefir gefizt kostur á að kynna sér frv. það til laga um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar, sem þér, herra landlæknir, hafið samið og nú liggur fyrir Alþingi. Við fljótlegt yfirlit og frá leikmannssjónarmiði lítur mæðrastyrksnefndin svo á, að frv. þetta sé til bóta á því ástandi, sem nú er í þeim efnum, sem frv. fjallar um, og að það muni, ef það verður annað og meira en dauður bókstafur, geta girt fyrir, að ástandið verði verra en orðið er. Hefir mæðrastyrksnefndin því ekkert við frv. að athuga.

Þetta var mér sem p. t. ritara nefndarinnar falið að tilkynna yður.

F. h. Mæðrastyrksnefndarinnar

Inga L. Lárusdóttir

p. t. ritari“.

Mér virðist, eftir að hafa lesið þessi bréf, ástæða til þess að efast um, að hv. 5. landsk. mæti hér sem fulltrúi kvenna í landinu. Ég hélt, að Kvenréttindafélagið væri sterkt félag og hefði marga meðlimi, en af bréfi félagsins er það ljóst, að hv. 5. landsk. talar hér ekki sem fulltrúi þess félags. Ég dreg það og í efa, að hv. 5. landsk. hafi umboð frá konum úti um land, enda hefir hún engar sönnur á það fært. Það er því ekki rétt, að hún mótmæli þessu frv. í nafni kvenþjóðarinnar í landinu.

Eins og ég sagði áður, hefir hæstv. atvmrh. tekið til athugunar brtt. hv. 5. landsk., svo ég get sparað mér það. Ég vil aðeins minnast lítið eitt á eitt atriði, sem virðist hafa hneykslað hv. 5. landsk., en það er síðasta mgr. 9. gr., og geri ég það vegna þess, að landlæknir óskaði þess, að frsm. færi hér sérstaklega orðum um. Ég ætla ekki að bæta miklu við orð hæstv. atvmrh., því að gr. ber það með sér, að sjúkdómur verður að vera fyrir hendi, enda kemur það skýrt fram í aths. höfundar við frv., að félagslegar ástæður heimili ekki fóstureyðingar. Ég sé því ekki betur en að þetta atriði, sem hv. 5. landsk. hefir lengst of glímt við, sé fallið úr sögunni. Heilbrigðisástæður verða að vera fyrir hendi, og landlæknir hefir óskað, að þetta yrði sérstaklega undirstrikað af frsm.; þess vegna tek ég það fram.

Það var ein brtt. frá hv. 5. landsk., er ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki minnzt á, en það er brtt. við 3. gr. Þetta er nú bara orðabreyting, að fyrir orðin „að koma til leiðar“ komi: framkalla. - Þetta er náttúrlega ekki mikið atriði, en ég tel orðalagið betra eins og það er í frv., orðið „framkalla“ fellur lakar í mínu leikmannseyra. - Að öðru leyti skal ég ekki eyða orðum að brtt., því að hæstv. atvmrh. hefir gert þeim skil.

Ég þarf ekki að segja mikið meira við þessa umr. málsins. Ég hefi sýnt fram á, að frv. er vel undirbúið, að það hefir verið borið undir þá aðila, er mestu máli skiptir, og að hv. 5. landsk. hefir ekki enn fært fram gögn fyrir því, að hún mæli hér sem sérstakur fulltrúi kvenna í landinu í þessu máli.