04.12.1934
Efri deild: 52. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

19. mál, varnir gegn því að verða barnshafandi og fóstureyðingar

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil aðeins segja það, að ég hafði ekki búizt við, að hv. ráðh. yrði með dagskránni. Hinsvegar getur það ekki verið nein ástæða í hugum hv. dm. til að vera á móti henni. - Hv. frsm. n. hafði skakkt eftir mér, að ég hefði sagt, að hin heilbrigða alþýðukona vildi ekki þessa löggjöf. (IngP: Ég skrifaði þetta upp eftir hv. þm.). Ég sagði hinn heilbrigði alþýðumaður, og að þó að læknastéttin gæti fallizt á, að rétt væri að setja slík l., þá væri ekki þar með sagt, að öll þjóðin væri því fylgjandi. Þótt við tökum okkur til og setjum l., þá getur hugsunarháttur fólksins verið l. algerlega andvígur. Ég vil, að þjóðin fái að ræða þetta mál. Málið hefir unnið við umr. hér í d., og ég er sannfærður um, að það mundi vinna við það, að það yrði rætt í blöðunum og á fundum. Það er ákaflega undarlegt, ef 3 eða 4 mánuðir breyta einhverju í þessu efni. Ef ég væri að berjast gegn þessu frv. með dagskrártill., þá skildi ég það, að till. fengi mótstöðu, en ég er alls ekki að berjast gegn málinu sjálfu, heldur undirbúningi frv. Hv. frsm. sagði, að frv. væri aðeins um það, að heimila fóstureyðingar, ef líf eða heilsa væri í veði, en mér sýnist nú fleira vera í frv. en þetta. Þar er hverri konu heimilt að krefjast leiðbeininga um það hjá lækni, hvernig hún eigi að verjast því, að verða barnshafandi. (IngP: Það ætti kannske að setja bannlög um það). Þar að auki er í 9. gr. talað um kynfylgjur. (IngP og PM): Það er búið að fella þá grein burt. Nú, fyrirgefið. (IngP: Það er vissara að lesa frv.). Ég er ekki ósammála stuðningsmönnum frv. um efnishlið þess, en mér finnst ekki rétt af Alþingi að vilja ekki lofa sem flestum að fjalla um málið áður en lög eru sett um það. Ég er á þeirri skoðun, að þjóðin eigi heimtingu á því að fá að kynnast málinu á þessu stigi, áður en það er gert að l., því ef hugsunarháttur þjóðarinnar væri svo ekki í samræmi við þau lög, þá tel ég það verr farið, að þau væru sett. Það getur vel komið í ljós, að þjóðin sé með frv., en það getur líka verið, að meðal þjóðarinnar séu fleiri íhaldsmenn í þessu máli en okkur varir hér á Alþingi.