09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson:

Ég vil fyrst minnast með örfáum orðum á svar hæstv. forsrh. við ræðu minni í gær, þar sem ég átaldi það, að stj. hefði farið nokkuð freklega í að setja bráðabirgðalög, og nefndi ég þar þessi lög sértaklega. Mér fannst svar hæstv. ráðh. miklu frekar benda í þá átt, að aths. mínar hefðu haft við full rök að styðjast hvað þessi lög snertir. Það er óhugsandi, að hæstv. forsrh. geti komið nokkrum manni til að trúa því, að mál eins og þetta hefði þurft að afgr. með bráðabirgðalögum, og sízt þegar á það er litið, að þau eru „gerð á Skaganum“ 10. sept. 1934, eða m. ö. o. 20 dögum áður en þing kemur saman. Þau atriði, sem hæstv. forsrh. nefndi að hefðu unnizt við þessi bráðabirgðalög, hefði alveg eins verið hægt að framkvæma án nokkurra lagasetninga, með því að skipa nefnd til undirbúnings málinu. Það getur verið, að framkvæmd laganna hefði dregizt eitthvað við það, en það er bara ekki framhjá slíku hægt að komast. Það er hálfhlægilegt, að í forsendum fskj. stendur, að ástandið sé með öllu óviðunandi og þurfi „skjótra aðgerða um lagfæringu þess“, því að málið hefir verið á döfinni frá árinu 1917, og nú allt í einu má það ekki bíða 20 daga til þess að frv. geti komið fram fyrir þingið.

Maður fór að skilja, hvað hæstv. forsrh. fór, þegar hann sagði, að lögin væru ekki bráðabirgðalög, því að þau hefðu verið samin á flokksfundum Framsfl. og Alþýðufl. um það leyti, sem stj. var mynduð. Ef hann álítur, að svona flokksfundir hafi löggjafarvald, þá er skiljanlegt, að hann sé nokkuð djarfur við að gefa út bráðabirgðalög, og að stj. sé ekki annt um, að þingið sé skipað að lögum. Ég skildi ekki það, sem hæstv. forsrh. var að vitna í Englendinga í þessu sambandi, því að þó að þeir skipuleggi mjólkursölu hjá sér, upplýsist ekki, að þar hafi verið um bráðabirgðalög að ræða, en það var það atriði, sem um var að ræða í þessu sambandi

Annars virtist mér hæstv. ráðh. tala friðsamlega fyrir þessu máli og á þann veg, að gefi von til nokkurs samkomulags. Hann ræddi um ýmsar leiðir, sem hægt væri að fara í þessu efni, og mér þykir mega vænta, að undir meðferð málsins megi koma að ýmiskonar lagfæringum á þessu frv. Ég skal viðurkenna, að rétt sé að skipuleggja þetta að einhverju leyti, til þess að bæta úr ágöllum, sem kunna að vera á mjólkursölu, og eins hvað snertir fjölda mjólkurbúðanna, sem eru vafalaust allt of margar, þó að ég geti ekki fallizt á, að hér fari hálf millj. í súginn, því að það hlýtur að vera hin fáránlegasta fjarstæða. — Ég er sem sagt mjög fús til þess að ganga inn á samkomulag í þessu efni, svo framarlega, sem málið verður þá betur og skipulegar til lykta leitt.

Mér skilst, að það séu þrjú atriði, sem aðallega koma til greina í þessu frv. Í fyrsta lagi að selja mjólkina hér eftir gegnum eina sölumiðstöð á hverjum stað. Í öðru lagi, að skyldugt sé að gerilsneyða alla mjólk hér í bænum, og svo í þriðja lagi verðjöfnunarskattur, sem greiða á af allri mjólk nema þeirri sem framleidd er á ræktuðu landi innan sama kauptúns eða kaupstaðar, sem hún er seld í.

Mér finnst strax koma fram hugsunarveila í þessu frv. því að hér er blandað saman allri mjólk. bæði þeirri, sem framleidd er í bænum, og þeirri, sem framleidd er utan hans. Það er augljóst, að ekki nær nokkurri átt að láta sömu reglur gilda um þá mjólk, sem framleidd er í bænum, og þá, sem flutt er að. Það hafa verið gerðar nokkrar skýrslur um, hve mjólkurneyzla væri mikil í bænum, og mun hún vera um 6 millj. lítra á ári. Þar af er 1/3 framleiddur af bæjarmönnum sjálfum og 2/3 aðflutt. Það er því augljóst, að mjólkurframleiðsla hér í bænum er orðin svo verulegur hluti af allri mjólkurframleiðslu fyrir bæinn, og mjólkurmagnið er það mikið, að rétt er að skipuleggja hvort út af fyrir sig.

Það má segja með fullum rétti, að sá mjólkurmarkaður, sem hér er fyrir hendi í Rvík og skipuleggja þarf, er sá markaður, sem verður eftir, þegar frá er talin sú mjólk, sem Reykvíkingar framleiða sjálfir. Það á enginn neinn rétt á þeim markaði, sem Reykvíkingar geta fyllt sjálfir. Það er því 4 millj. lítra, sem koma undir þetta frv.

Um framleiðslu Reykvíkinga sjálfra er það að segja, að þeir hafa brotizt í því að rækta landið hér í kringum bæinn, og eru það einhverjar hinar stórfelldustu jarðræktunarframkvæmdir á öllu landinu. Þetta hefir kostað afskaplega mikið, sennilega miklu meira en ræktun annarsstoðar á landinu, því að t. d. er kaupgjald hér hærra, og það er þess vegna óhugsandi, að þeir, sem framleiða mjólk á þessu landi, geti staðið sig við að fá fyrir hana sama verð og aðrir, sem framleiða mjólk undir miklu hentugri kringumstæðum. Til skamms tíma var hærra verð á mjólk framleiddri hér. Mjólkurframleiðendur hér fengu 5 aurum hærra fyrir lítra, því að meðan engin tök voru á að hreinsa mjólkina, var aðflutta mjólkin miklu lakari. Nú upp á síðkastið hefir hún þó verið seld fyrir sama verð, en Reykvíkingar hafa, þó fengið hærra verð fyrir sína mjólk með því að forðast kostnað, sem aðrir verða að hafa.

Ef maður skilur nú þessa tvo aðila að, sem alls, ekki eiga samleið, þá er það augljóst, hvað gera þarf við mjólk, sem er framleidd á bæjarlandi Rvíkur. Það þarf fyrst og fremst að sjá um, að hún sé holl vara, en mjólkin er aldrei hollari en þegar hún kemur úr kýrspenanum, ef kýrin er heilbrigð og engin óhreinindi komast að henni og sé hún seld ný. Það þarf að fyrirskipa nákvæma skoðun á kúm, sérstaklega berklaskoðun. Mér er sagt, að á Siglufirði og Akureyri sé þetta framkvæmt annaðhvert ár. Það mætti fyrirskipa árlega skoðun í Rvík. Það kostar tiltölulega lítið, 3 kr. í hvert skipti. Síðan mætti fyrirskipa eftirlit með hreinlæti. Ef eftirlit, eins og ég hefi hent á, væri framkvæmt hér, þá er sú mjólk, sem framleidd er hér og seld beint til kaupendanna, hollust og bezt. Ég tel það ekki betri öryggisráðstafanir að glundra mjólkinni saman við aðra mjólk, og þá oft gamla, og gerilsneyða hana síðan. Það er brýnt fyrir mönnum, að börnum eigi ekki að gefa gerilsneydda mjólk, af því að gerilsneyðingu fylgja ókostir, og ef mjólk er hollari ógerilsneydd fyrir börn, þá er hún það líka fyrir fullorðna. Nú er engin meining í að skylda þá menn, sem geta komið mjólkinni sem hollri vöru til neytenda með svona lítilli ráðstöfun, til að glundra henni saman við aðra mjólk, einungis til að auka kostnaðinn og gera vöruna lakari.

Viðvíkjandi sölu mjólkurinnar, þá er mér ómögulegt að skilja, hvað það á að þýða að taka mjólkina frá mönnum, sem hafa fasta viðskiptavini, og neyða þá til að selja hana frá mjólkurmiðstöð. Með því virðist ekkert unnið nema óþarfur milliliðakostnaður. Flestir þessara manna hafa fáar kýr og skipta við fá ákveðin heimili, og er ekki minnsta ástæða til þess að trufla þessi beinu viðskipti og skylda þá til að borga allmikið sölugjald í staðinn.

Ég þykist þá hafa sýnt fram á, að þetta tvennt, gerilsneyðing og skylda til að selja frá einni miðstöð, á hvorugt við um þá mjólk, sem framleidd er á bæjarlandinu, en er aftur á móti aðeins til þess að auka kostnaðinn og gera vöruna lakari.

Næsta atriðið er verðjöfnunarskatturinn, hvort nokkur ástæða er til þess að leggja hann á mjólk, sem framleidd er á bæjarlandinu. Hæstv. forsrh. hefir gengið inn á það, og er það mjög góðra gjalda vert, að undanþiggja skatti mjólk úr þeim kúm, sem fóðraðar eru með fóðri af bæjarlandinu. En mér er óskiljanlegt, að þessi ívilnun skuli aðeins vera látin ná til nokkurs hluta framleiðslunnar. Ég hefi lýst eftir ástæðum, en ekki heyrt þær ennþá, en það kann að vera í sambandi við það, að hann var að tala um heilan bæ af fjósum, sem hér mundi rísa upp, til þess að menn þannig kæmust undan að greiða skatt. Ef þetta er eina ástæðan, þá þykir mér seilzt um hurð til loku, því að auðvitað eru til fjöldamargar afareinfaldar ráðstafanir gegn þessu. Þessir menn þyrftu að fá lóðir og sækja um leyfi til að byggja, til þess að geta framkvæmt þetta. Bærinn gæti því hindrað þetta gersamlega. Það má heita, að engin brögð hafi verið að þessu, og ég hefi heyrt talað um aðeins eitt kúabú, sem hafi verið flutt hingað að austan, og ef það færðist í aukana, þá eru til ofur einfaldar ráðstafanir til að varna því. Aðrar ástæður get ég engar séð til þess arna. Að miða þetta við einn hektara lands er ekki sanngjarnt. Hér hafa menn kappræktað land sitt svo vel, að þeir fá meira en eitt kýrfóður af hektaranum, stundum allt að því tvö, og þá er þessi mælikvarði ekki réttur, að miða kúafjöldann við tölu hektaranna. Auk þess er það ekki sanngjarnt. Ef t. d. maður hefði fengið 10 hektara af erfðafestulandi og ætlaði að rækta þá, þá verður hann, á meðan hann er að koma ræktuninni á, að borga verðjöfnunarskatt af þeim kúm, sem hann hefir, á meðan hann verður að nota aðflutt fóður. Þetta er ákaflega erfitt fyrir mann, sem verður að leggja mikið í kostnað við ræktun. Ég sé ekki heldur, hvaða ógnar athæfi það er, þó að menn vilji hafa kúabú og kaupa hey þar, sem það er ódýrast. Þetta er gert alstaðar. Ég miða við Rvík, af því að ég er kunnugastur hér. Úti um land er það víða svo, að menn kaupa fóður eða heyja sjálfir utan bæjarlandsins, því að það er oft hentugra en að leggja í kostnað við að rækta sjálft bæjarlandið.

Ég sé ekki, hvers vegna bæjarbúar mega ekki eiga sinn markað án þess að gjalda skatt af honum. Ég ætla að lýsa því með örfáum orðum, hvaða þýðingu þetta hefir fyrir mjólkurframleiðendur, og miða þá aftur við Rvík. Mér er sagt, að kostnaðurinn hjá Mjólkurfélagi Rvíkur sé 14 aurar á lítra við gerilsneyðingu, sölu og dreifingu. Nú er sagt, að með því að fækka búðunum og koma öllu í þetta fína horf komist þessi kostnaður niður í 8 aura. Ég er ákaflega hræddur um, að þetta standi ekki heima, því að reynslan virðist vera sú, að kostnaðurinn verður meiri en áætlað er. Ég hefi heyrt vitnað í Akureyri í sambandi við þetta, að þar sé kostnaðurinn 6 aurar á lítra. Ég þori ekki að dæma um, hvernig aðstaðan er þar í samanburði við þá aðstöðu, sem hér er. Mér er sagt, að Kaupfélag Eyjafjarðar hafi þetta með höndum, og get ég hugsað mér, að það sameini fyrirtækin, noti hús og vinnukraft þannig, að kostnaðurinn lækki. Ég er ákaflega hræddur um, að sá kostnaður, sem hefir reynzt hér 14 aurar á lítra undir öflugri stjórn, muni ekki lækka ofan í 7—8 aura, þó að þessi skipulagsbreyt. verði gerð. En þó svo yrði, þá er þessi skattur samt 160 til 200 þús. kr. Það er alveg tvímælalaust, að svona skattur, á ekki stærri atvinnuveg, sem rekinn er með jafnmiklum kostnaði og þessi, er hreinasta rothögg á framleiðsluna. Ef það er meiningin með þessum lögum að veita mjólkurframleiðslu Reykvíkinga rothögg, þá er þetta rétt aðferð, en sé það ekki meiningin, má ekki leggja þennan skatt á. Hér eru því 160—200 þús. kr. á lagðar engum að gagni, en mörgum að ógagni, með því að gera vöruna heldur lakari og fyrirkomulagið verra.

Ég vona, að hæstv. ráðh., sem tekið hefir tillit til óska bæjarmanna um að fella niður verðjöfnunargjald af nokkrum hluta mjólkur, sem framleidd er í bæjarlandinu, líti líka á þessa ástæðu. Ofan á þetta kemur svo verðjöfnunargjaldið, en það kemur þó einhverjum að gagni, í staðinn fyrir að hinum peningunum er kastað til einskis. Það verður þess vegna til þess að eyðileggja að nokkru leyti þá framleiðslu, sem fyrir er, stöðva framþróun í þessari atvinnugrein bæjarmanna.

Hæstv. ráðh. minntist á það í þessu sambandi, að Reykvíkingar, sem framleiddu mjólk í bæjarlandinu, jöfnuðu þann mismun, sem er á framleiðslunni á mismunandi tímum ársins, með aðfluttri mjólk. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, þá eru það einmitt mjólkurframleiðendurnir í Reykjavík, sem stuðla að því, að mjólkin sé nokkurnveginn jafnmikil á öllum tímum árs. Fyrir nokkrum árum voru vandkvæði á að hafa nægilega mjólk til að fullnægja eftirspurn hér í Reykjavík á haustin. En síðan mjólkurframleiðslan í Rvík hófst hefir þetta lagazt, og það er af því, að hér eru kýrnar látnar bera fyrr heldur en bændur yfirleitt fást til að láta sínar kýr bera. Þeir hafa þannig jafnað mjólkurframleiðsluna, svo að nú ber ekki á neinum mjólkurskorti á haustin.

Ég hefi þá bent á, hvað ég álíti, að gera eigi við þennan aðila, bæjarmennina og þeirra framleiðslu. Það á að fyrirskipa skoðun á kúnum og eftirlit á hreinlæti í fjósum, og þá er fengin sú bezta vara, sem hægt er að fá.

En svo eru eftir 2/3 hlutar af markaðinum. Það eru, eftir því sem talizt hefir til, 4 millj. lítra á ári, og það er þessi mjólkursala, sem á að skipuleggja. Þá mjólk, sem aðflutt er í bæinn, verður að gerilsneyða. Það er óforsvaranlegt að hella svo mikilli mjólk saman án tillits til þess, hvernig hvert heimili er. Og þessir menn, sem flytja mjólk sína í bæinn, verða vitanlega að selja sína mjólk með milliliðum. Það er ómögulegt fyrir bændur, t. d. fyrir austan heiði, að hafa fasta viðskiptamenn.

Það er því þessi partur mjólkurinnar, sem þessi mjólkurlög eiga við, og ég hygg, að þetta frv. sé í flestum atriðum heppileg lausn á mjólkursölumálinu að því er aðflutta mjólk snertir. Ef svo þessir menn vilja leggja á verðjöfnunarskatt, til þess að jafna verðið og halda of mikilli mjólk frá markaðinum, þá er engin ástæða fyrir mig til að leggja stein í götu þess. Það miðar að vísu heldur til þess að halda uppi verðinu, en hinsvegar óska ég þess vegna neytendanna, að mjólkurverðið lækki. En sú lækkun gæti orðið til þess að framleiðslan minnkaði, en það álít ég ekki borga sig, og get ég því ekki verið á móti því, að þessi verðjöfnunarskattur sé lagður á aðflutta mjólk. Það er því rökrétt afleiðing af því, sem ég hefi sagt, að mjólkin skiptist í tvo flokka, eftir því hvort hún er framleidd í Rvík eða er aðflutt. Í Rvík þarf ekki annað en að fyrirskipa um hollustuhætti mjólkur, en þessi l. eiga við þá mjólk, sem flutt er að. Ég mun þess vegna fara fram á, að þetta frv. sé látið gilda aðeins um aðflutta mjólk til Rvíkur, en svo önnur ákvæði gefin um það, hvernig fara eigi með mjólk, sem framleidd er í Rvík, þannig að tryggt sé, að hún sé jafnan holl og góð var.