11.12.1934
Sameinað þing: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2838 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

Kosningar

Jónas Jónsson:

Eins og hv. 10.landsk. hlýtur að vera ljóst, þá verður þetta að vera mál á milli hans og Sjálfstfl. Hv. þm. getur ekki búizt við, að hinir flokkarnir falli frá því, að hafa sína fulltrúa í nefndinni; enda þykist ég vita, að hann eigi ekki við það, heldur að Sjálfstfl. láni Bændafl. annað af sínum sætum í n. Við því er náttúrlega ekkert að segja frá hálfu hinna flokkanna. Þetta getur því aðeins orðið á þann hátt, að Sjálfstfl. gefi eftir annað sæti sitt eða skipti atkv. sínum til stuðnings við lista Bændafl. — Ég vona, að hv. þm. sjái, að þetta getur ekki náð til annara flokka. Enda skilst mér, að undanfarna daga hafi eitthvað verið unnið að þessum kosningaundirbúningi á milli hinna flokkanna, og athugað, hvaða menn ættu að koma í n. fyrir Sjálfstfl. og Bændafl. Nú mun það vera afgert mál, og er þá væntanlega ekkert því til fyrirstöðu, að kosning geti farið fram.