09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson:

Ég neyðist til að bera af mér sakir þær, sem hæstv. forseti bar á mig. Hann sagði, að ég hefði efazt um, að reikningar Kaupfélags Eyfirðinga og Mjólkursamlags Akureyrar væru réttir. Þetta er ekki rétt. Ég tók það fram, að ég vissi ekki, hvernig stæði á hinum lága dreifingarkostnaði þarna fyrir norðan. Ég sagði, að mér þætti sennilegt, að aðrar aðstæður væru þar, sem lækkuðu þennan kostnað, að þar væru notaðir aðrir starfskraftar til að vinna þetta verk. Ég þekki t. d. kaupfélagsstjórann þar, sem er slyngur maður að stjórna stórum fyrirtækjum. Þykir mér líklegt, að hann geti hagnýtt ýmsa krafta, er geri honum fært að minnka rekstrarkostnaðinn. — Mér þótti það hæpin ályktun hjá hv. þm., að þetta sýndi, að allar mínar upplýsingar væru óábyggilegar. Þær voru alveg réttur, það sem þær náðu.

Hv. þm. gaf nokkrar tölur viðvíkjandi dreifingarkostnaðinum. Sagði hann vera 2 aura á lítra, af því að dreifingin væri unnin í akkorði. En mér þætti þá gaman að vita, hvað þeir menn, sem þetta vinna, græða á verkinu. Ég gæti t. d. fengið byggt hús á ódýran hátt, of það væri gert í akkorði, sem væri lægra en byggingarkostnaðurinn.

Annars liggur í augum uppi, að þetta má skipuleggja á ódýrari hátt á Akureyri, sem er 10 sinnum minni bær en Rvík. Þessi kostnaður hlýtur að aukast með stærð bæjarins. Þó þykir mér gerilsneyðingar- og dreifingarkostnaðurinn á Akureyri, alls 5,8 aurar, óeðlilega lítill. Ég hefi heyrt, að af 14 aura heildarkostnaði hjá Mjólkurfélaginu fari 5 aurar í gerilsneyðingu. Má vera, að á Akureyri séu notaðar ófullkomnari aðferðir við gerilsneyðinguna. Öðruvísi get ég ekki skýrt þetta.

Þá spurði hv. þm., hvernig ég gæti haft vit á þessum málum, sem aldrei hefði framleitt mjólk. Ég verð að kalla þetta hina heilögu einfeldni sjálfa. Hvernig eiga þá þm. yfirleitt að taka afstöðu til mála? — Ég hefi fyrir mitt leyti fengið upplýsingar hjá þeim mönnum, sem mjólkina framleiða, hefi t. d. nýlega setið margar klst. á fundi með þeim. Ég verð að taka þesskonar afstöðu til 9/10 af þeim málum, sem fjallað er um á Alþingi, og slíkt hið sama verða þm. yfirleitt að gera. Þingmannshæfileikinn fer eftir því, hve laginn maður er að afla sér upplýsinga og raða þeim niður. Og þessar upplýsingar mínar munu verða staðfestar af þeim, sem hér eiga hlut að máli. Út frá hugsanagangi hv. þm. mætti t. d. segja: Hvernig ætti hann að hafa vit á mjólkurframleiðslu kringum Reykjavík, þar sem hann hefir aldrei fengizt við hana?

Akureyringar fá að vísu gerilsneyðingu og dreifingu mjólkurinnar fyrir lítið verð, en betra væri þó að fá hana beint frá spenanum. Betra væri að fá hana að kostnaðarlausu en jafnvel fyrir 5,8 aura.

Um afleiðingu þessara l. segi ég hið sama og Höffding heitinn prófessor, þegar hann var spurður, hvort hann héldi, að vér lifðum eftir dauðann. Hann svaraði þessum orðum: „Við fáum að sjá það, þegar þar að kemur“.