09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að svara hv. 1. þm. Reykv. viðvíkjandi ummælum hans um handjárn og ófrelsi í Framsfl. — Ég hefi nú verið lengi í bæjarstj. Rvíkur, og gæti ég því nefnt dæmi um starfsaðferð Sjálfstfl. Það er lagður fram listi viðvíkjandi því, hvernig ráða eigi málum til lykta. Fulltrúum flokksins er síðan skipað að greiða atkv. í samræmi við það, sem á listanum stendur. Þessi starfsaðferð er staðreynd. Nokkur mál hafa verið afgr. í þinginu á svipaðan hátt. Sem dæmi má nefna, að hv. 1. þm. Skagf. ætlaði að drepa frv. um tóbakseinkasöluna með því að sitja hjá. Þannig hefir jafnan verið farið að í þessum flokki, þegar hagsmunirnir eru í veði. Það er ekkert við því að segja, þótt menn standi saman um hugsjónir, sem þeir berjast fyrir. Aftur á móti er öðru máli að gegna, þegar á aðra hönd eru hagsmunir Rvíkur, en á hina hagsmunir sveitanna.

Í gær sagði sami hv. þm., að hann væri fylgjandi kjötsölumálinu. En aftur á móti ræðst málgagn flokksins á kjötsölulögin. Þetta sýnir mæta vel, hverju bændur ráða í þessum flokki. Þannig er þetta alltaf, þegar hagsmunir framleiðenda eru í tafli, eða annara, sem ekki verða ofan á.

Það er þýðingarlaust að nefna bannlögin í þessu sambandi. Þau eru sérstakt mál, sem samkv. minni skoðun ber að líta í öðru ljósi heldur en mál eins og kjötsölumálið. Bannmálið er eitt af þeim málum, sem ekki eru flokksmál.

Hv. þm. minntist á þá óánægju, sem hann kvað ríkja meðal mjólkurframleiðenda í Rvík. Hann sagði ennfremur, að það væri ekki rétt, að samkomulag hefði náðst um þetta mál. Ég vil segja, að þetta frv. var fyrst gert í samræmi við frv. það, sem hv. þm. G.-K. bar fram hér í þinginu í fyrra. Það gekk út á, að lagður yrði verðjöfnunarskattur á alla mjólk. Þegar frv. kom fram, mótmæltu mjólkurframleiðendur í Rvík og nágrenni þessu verðjöfnunargjaldi. Ég átti tal við félag þeirra, og það skrifaði mér bréf. Í því bréfi kemur fram eindregin andstaða mjólkurframleiðenda félagsins við verðjöfnunarskattinn. Fáum dögum síðar barst mér annað bréf í mótmælaskyni frá mjólkurframleiðendum í lögsagnarumdæmi Rvíkur. Þar er mótmælt aðferð þeirri á skattálagningu, sem fólgin er í frv. því, sem hv. þm. G.-K. bar fram á þinginu 1933 og ætlazt var til, að borið yrði fram á þessu þingi. Þeir gengu því að samningum með því skilyrði, að skattinum skyldi létt af þeim, ef látinn yrði 1 ha. fyrir hverja kú. Síðan er jafnvel byrjað á að losa framleiðendur við að selja mjólkina gegnum eina sölumiðstöð. Vitanlega vilja mjólkurframleiðendur vera lausir við það líka. Til þess var fundur sá haldinn, sem hv. 1. þm. Reykv. sagðist hafa verið á. Hann var haldinn til þess að halda áfram „agitation“.

Það er örðugleikum bundið að benda á, hvernig skipulagning mjólkursölunnar hér í Rvík og nágrenni skuli vera. Ef framlengd verður undanþága frá skatti, verður að selja í gegnum sölumiðstöð. Afleiðingin verður sú, að ómögulegt er að „kontrollera“ mjólkursölu úr lögsagnarumdæmi Rvíkur. Af því leiðir aftur samkeppni milli einstakra mjólkurframleiðenda. Þeir hafa því enga tryggingu fyrir að geta sent mjólkina á markaðinn hér í Rvík. Svo þegar farið væri að framkvæma þau mjólkursölulög, sem samþ. voru á þingi árið 1933, þá gætu ýmsir mjólkurframleiðendur í nágrenni Rvíkur ekki selt sína mjólk. Þeir yrðu þess vegna að semja við Mjólkurfélagið um að taka afgangana. Ég vil benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að ef þessi aðferð yrði tekin upp, þá gæti hún leitt til mjólkurstríðs. Það er engin trygging fyrir því, að mjólkin komist á markaðinn sem neyzlumjólk, því að það er ekkert skipulag á mjólkursölunni. En mjólkurstríð er bæði til tjóns fyrir framleiðendur og neytendur. Skipulagning á mjólkursölubúðum er nauðsynleg, því að kostnaðurinn við umsetningu mjólkurinnar er meiri en góðu hófi gegnir. En það er sjálfsagt ekki ætlun hv. 1. þm. Reykv., að undanskilja eigi mjólkurframleiðendur hér í lögsagnarumdæmi Rvíkur frá því að selja mjólk í gegnum eina mjólkursölumiðstöð og greiða skatt og láta svo þar við sitja fyrir mjólkursöluna. Það verður ekki séð, hvernig á að koma því fyrir. Það er ekki um aðra leið að ræða en annaðhvort þá, að mjólkurskattur sé lagður á framleiðendur hér, eða ein sölumiðstöð. Í þessu sambandi get ég minnzt á það, að í Englandi var valin sú leiðin að selja mjólkina gegnum sölumiðstöð. Þar er fyrirkomulag, sem hv. l. þm. Reykv. kallar miðaldafyrirkomulag. Á Englandi og Wales er landinu skipt í 11 verðjöfnunarsvæði, eins og hér, Sautján manna nefnd hefir alla umsjón með málinu. En lengra var ekki gengið, því að neyzlumjólk var ekki nægilega mikil til þess, að hægt væri að leggja nógu mikinn verðjöfnunarskatt á hana sem uppbót á vinnslumjólkina. Ákveðið var að verja 78 millj. kr. til þess að greiða verðuppbót á vinnslumjólk. Þetta á að taka aftur eftir tvö ár, þegar þeir eru lausir við samning um kaup á osti og smjöri frá útlöndum, sem fellur úr gildi 1936. Þeir verja 22 millj. kr. til þess að „agitera“ fyrir aukinni mjólkurneyzlu þar í landi.

Augljóst er, eins og ég hefi sagt áður, að sú leið verður tryggust, að grípa til lögþvingaðrar skipunar, eins og gera á í mjólkurmálinu. Við verðum neyddir til þess að gera þetta fyrir framleiðendur. Þetta fyrirkomulag með 80 sölubúðum hefir geysilegan kostnað í för með sér, svo að verðið á mjólkurlítra kemst upp í 40—42 aura. Slíkt fyrirkomulag er með öllu óviðunanlegt.