09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. er að eggja menn á og egna til þess að tala um þetta mál samtímis því, að hann óskar eftir, að umr. verði ekki lengdar. Ég skil ekki, hvaða rétt hæstv. forsrh. hefir til að velta sér yfir stjórnarandstæðinga svo að segja í hverju einasta máli. Ég álít nóg, að hann deili á þann, sem hann á í höggi við í þann og þann svipinn. Ég furða mig á því, að hann skuli undrast það, að ekki séu allir sammála um öll mál í Sjálfstfl. Ég býst við, að hæstv. forsrh. sé kunnugt um það, að samkv. fyrirmælum stjskr. eigi þingmenn að greiða atkv. eftir sannfæringu sinni. Þessi ákvæði hefir Sjálfstfl. í heiðri og mundi ekki vilja nota andleg handjárn á sína þm., þó að hann ætti kost á. En af því að sjálfstæðismenn fylgja sinni sannfæringu, þá heldur hæstv. forsrh., ef marka má orð hans, sem ég fyrir mitt leyti geri ekki, að Sjálfstfl. sé að leysast upp vegna innbyrðis ósamþykkis. En þetta er fjarri sanni, og mun hæstv. forsrh. fá fullar sannanir fyrir því. Annars er það gamalt herbragð framsóknarmanna að halda því fram, að flokkur sjálfstæðismanna sé klofinn, en við allar kosningar kemur það í ljós, að þessi flokkur er langsterkastur allra flokka í landinu, og hann hefir ekki klofnað enn. Klofningur í flokknum hefir yfirleitt aldrei komið til mála nema hjá andstæðingum, sem af andlegum vesaldómi sínum skilja það ekki, að sjálfstæðismenn eru frjálsir um skoðun sína.

Ég skil orð hæstv. forsrh. þannig, að hann lofi, að þegar samsala mjólkur sé komin í kring, þá falli ekki meiri kostnaður á mjólkurlítrann frá fjósi framleiðandans til húss neytandans en 8 aur. Er þá að bíða og sjá, hverjar efndirnar verða.