13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1518 í B-deild Alþingistíðinda. (1585)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Guðmundsson:

Það er siður hæstv. forsrh. og hv. þm. S.-Þ. að stökkva burtu þegar á að fara að svara þeim, og út af þeim vana hafa þeir ekki heldur brugðið nú. En ég þarf að svara báðum nokkru og skipti mér ekkert af, hvort þeir heyra mál mitt eða ekki. Mun ég fyrst snúa mér að hæstv. forsrh. — Hann virðist líta svo á, að það sé aðallega ríkisstj., sem eigi að sjá um framkvæmd laga. En flestum mun kunnugt, að til þess eru settir aðrir embættismenn, sérstaklegu lögreglustjórar og sýslumenn. Yfirumsjón með þeim á svo ríkisstj. að hafa. Þegar ráðh. er að tala um, að það hefði getað komið til mála, að fyrirskipun hefði komið um að stöðva framkvæmd mjólkurlaganna, þá ætti hann að athuga það, að dómsmrh. hefir ekki heimild til þess að gera slíkt. Kæmi það fyrir, að einhver dómsmrh. skipaði einhverjum lögreglustjóra að stöðva framkvæmd gildandi laga, þá ætti lögreglustjórinn vitanlega ekki að fylgja því. Hann hefði svikizt undan skyldu sinni með því að fylgja slíkri fyrirskipun.

Ég kem svo að því hvort ég hafi gert þetta. Ég skal þá fyrst endurtaka það, sem ég hefi áður sagt, og lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, part úr bréfi frá 29. des., þar sem það er skilyrðislaust tekið fram, að það beri að framkvæma þessi lög. Þar stendur:

Jafnframt tekur ráðuneytið það fram, að lögreglunni bera auðvitað að sjá um, að enginn selji mjólk gegn skýlausum fyrirmælum laga nr. 97 frá 1933, hvað sem líður áfrýjun þessa máls“.

Hér er sagt berum orðum, að þó að þessum umrædda dómi sé áfrýjað, þá beri samt að framfylgja skýlausum ákvæðum laga nr. 97 1933. M. ö. o.: Ég gef þá fyrirskipun, að framfylgja lögunum þrátt fyrir áfrýjun dómsins. Dóminum sjálfum, sektarákvæðum hans og málskostnaðar, var auðvitað ekki hægt að fullnægja meðan dómur var ekki fallinn í hæstarétti, en þó að svo væri, þá vildi ég auðvitað láta framfylgja mjólkurlögunum, enda var það sjálfsagt. Þessu hefir hæstv. ráðh. óhlýðnazt sem lögreglustjóri, en það er hans sök, en ekki mín. Hann viðhefur blekkingar, er hann segir, að hann hafi ekki fengið fyrirskipun um að fullnægja hinum áfrýjaða dómi fyrr en eftir að hæstaréttardómur var fallinn. Auðvitað var ekki hægt að gefa slíkt fyrirskipun fyrri, en það, sem hægt var að gera, var gert, sem sé það, að fyrirskipa framkvæmd mjólkurlaganna yfirleitt.

Hæstv. ráðh. seljist ekki hafa vitað, hvað voru „skýlaus fyrirmæli“ mjólkurlaganna. Hefði hann verið í vafa um, hvað stj. meinti með þessu, þá átti hann að spyrja. En það gerði hann ekki. Nú veit ég, að hann getur ekki verið í vafa um, hvað stjórnarráðið meinti, því að þeir voru allir þrír, ráðh., skrifstofustjóri og fulltrúi, sammála um, að það bæri að fullnægja lögunum án tillits til þess, að dómnum væri áfrýjað. Í l. nr. 97 1933 stendur: „Í öllum þeim kaupstöðum og kauptúnum hér á landi þar sem fram fer sala á mjólk og rjóma frá fullkomnum mjólkurbúum, er viðurkennd hafa verið af atvinnumálaráðh., skal óheimilt að selja þessar vörur ógerilsneyddar“.

Þetta eru hin skýlausu ákvæði, sem átt er við í bréfinu. Spurningin var eingöngu sú, hvort leyfa ætti að selja ógerilsneydda mjólk hér í bænum, þrátt fyrir áfrýjun dómsins. Í nefndri lagagrein er skýlaust bannað að selja ógerilsneydda mjólk, og það er þetta skýlausa ákvæði, sem ég fyrirskipaði að fara eftir, og það er þetta ákvæði, sem hæstv. ráðh. segist hafa verið í vafa um, hvernig ætti að skilja. En hví spurði hann þá ekki ráðuneytið, ef hann var í efa? Því get ég vel svarað. Hann spurði ekki, af því að hann var í engum vafa. Hann vissi vel, að ógerilsneydda mjólk mátti yfirleitt ekki selja hér. En samt lætur hann slíka sölu ganga fyrir sig hér í bænum og kennir mér um þá yfirsjón sína og embættisbrot, þó að ég hefði skipað honum að gæta framkvæmdar laganna.

Ég get ekki séð, að hæstv. ráðh. hafi haft nokkra minnstu ástæðu til þess að hlýða ekki fyrirskipunum dómsmrn., sem honum var gefin í bréfinu 29. des. 1933. Hann talar um, að hann hefði ekki getað tekið á sig ábyrgðina á að framkvæma skýlaus lagafyrirmæli. Hvaða ábyrgð gat verið því samfara? Alls engin. Þetta er fyrirsláttur og ekkert annað. Auðvitað gat enginn komið sér undan þessum skýlausu fyrirmælum undir því yfirskini, að hann seldi einnig aðrar vörur í búð sinni. Það er beinlínis hlægilegt að halda slíku fram, eins og hæstv. ráðh. tæpir á. Ég slæ því þessvegna föstu, að frá des. 1933 til maí 1934 lætur hæstv. ráðh., þvert ofan í skipun yfirboðara síns, farast fyrir að framkvæma mjólkurlögin. Þessi fyrirskipun í bréfinu frá 29. des. 1933 hefir aldrei verið afturkölluð.

Hæstv. ráðh. vitnaði í viðtal við mig í síma 19. maí. Ég man eftir því samtali. Það var um það, að fresta að loka mjólkurbúð ákveðins manns fram yfir hvítasunnu. Ég samþykkti frestunina yfir helgidagana og ég man eftir því, að lögreglufulltrúi sagði mér, að þeir gerðu ekkert um hátíðirnar hvort sem væri. Frekari frest hefi ég ekki samþ. En 1. júní kom enn bréf um þetta mál. Ég lá þá veikur, en þegar ég kom í stjórnarráðið, ca. 7. júní, lá bréf þetta fyrir mér í skrifstofu minni, og skýrði skrifstofustjóri mér frá því, að bréfi þessu hefði þegur verið svarað munnlega og vísað til bréfsins frá 29. des. 1933. Skriflegt svar taldi ég því með öllu óþarft. Síðan fór ég norður í Skagafjörð í kosningaleiðangur, en þegar ég kom heim aftur, kom til mín form. Mjólkurfélagsins og kvartaði yfir því, að mjólkurlögin fengjust ekki framkvæmd, og sagði, að það væru orð lögreglustjóra, að það væri samkv. minni skipun. Þá skrifaði ég bréfið 21. júlí.

Þetta er rétt saga þessa máls. Hún sýnir greinilega, að í bréfinu frá 29. des. 1933 er gefin fyrirskipun um að framkvæma mjólkurlögin, og sú fyrirskipun var aldrei afturkölluð. Þvert á móti var hún áréttuð. Það kom fljótt fram, að hæstv. ráðh. var því mjög mótfallinn að framkvæma lögin, því að hann finnur upp á því gagnvart þáv. atvmrh. að segja, að hann hofi ekki löggilt neinar mjólkurbúðir, og sýknaði mann, sem hafði brotið lögin út af því. Nú segir hann, að dómsmrn. hafi sýnt, að það hafi talið sýknudóm hans réttan með því að áfrýja honum ekki. En þetta er mesta fjarstæða. Dómsmrn. vildi einmitt ekki áfrýja af því, að það hefði orðið til þess að fresta framkvæmd laganna. Þess vegna varð það að samkomulagi, að hæstv. atvmrh. gæfi út þessa yfirlýsingu, sem lögreglustjóri heimtaði, til þess að hann gæti kveðið upp sinn áfellisdóm. Þetta var einmitt gert til þess að flýta fyrir framkvæmd laganna. Þessi dómur, sem ekki var áfrýjað, var bandvitlaus, enda kom dómur einum eða tveimur dögum seinna þvert ofan í hinn fyrri, kveðinn upp af sama lögreglustjóra, þ. e. núv. hæstv. forsrh. Ekkert hafði komið fyrir dagana á milli dómanna annað en það, að auglýst hafði verið í Lögbirtingablaðinu, hvaða bú hefðu fengið styrk og teldust því löggilt. Með þessu sýndi ráðh., sem þá var lögreglustjóri, óþekkt eða þrjózku gagnvart atvinnumálaráðh., því að hann var alltaf pólitískt á móti þessum lögum, og var það ekki í fyrsta eða einasta skiptið, sem hann blandaði stjórnmálum í dóma sína. Þetta kom ekki niður á mér, því að ég hafði ekki löggilt þessar mjólkurbúðir, heldur hv. 10. landsk.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um það, að vafasamt væri. hvort áfrýjun frestaði framkvæmd dóma. Þetta hefi ég skýrt hér áður. Áfrýjunin frestaði framkvæmd ídæmdrar refsingar, en ekki framkvæmd þeirra laga, sem hann var dæmdur fyrir brot á. Það nær vitanlega engri átt, að maður, sem dæmdur hefir verið fyrir lögbrot, megi halda áfram að brjóta sömu lögin, meðan málið er í áfrýjun. Þessu heldur þó hæstv. ráðh. fram hér í öðru orðinu.

Annars var þessi ræða hans heil halarófa af afsökunum á því, hvað hann hefði gert í þessu máli, eða réttara sagt á því, sem hann hefði ekki gert í málinu.

Ég vík að því aftur, að bréfið frá 29. des. er svo skýrt, að enginn getur misskilið það, en annars verður að ætlast til þess, að lögreglustjóra höfuðborgarinnar þurfi ekki að gefa allt, sem viðkomur hans starfi, inn í smáskömmtum með skeið, eins og pelabarni.

Nú vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. S.-Þ. Ég ætla samt ekki að halda eins langa ræðu og hann, því að hann fékk eitt af sínum gömlu köstum og talaði samfleytt í 1½ klst. — Hann spyr fyrst, hvernig hægt sé að hugsa sér, að ég hafi látið framfylgja ákvæðunum um mjólkursölulögin gegn andmælum Jóns Þorlákssonar og Vísis. Það er ekki von, að hv. þm. skilji það. Sannleikurinn er sá, að hvorki J. Þ. né heldur vísir andmæltu því, að lögin yrðu framkvæmd, en þó slík andmæli hefðu legið fyrir, hefðu þau verið þýðingarlaus.

Ég get ekki verið að fara út í umr. um Sólbakkaverksmiðjuna, eins og hv. þm. Hún kemur þessu máli harla lítið við. Mér skildist hv. þm. vera að hæla mér fyrir hugrekki í þessu máli, en ég get ekki fundið, að ég eigi það skilið. En ef hann heldur, að ég hafi fengið óþökk hjá mínum flokksmönnum fyrir afskipti mín af þessu máli, þá er það misskilningur hjá hv. þm. Hann sagði, að ég vildi vel og væri víst bezta sál, en ég gæti bara litlu ráðið. Ég þakka fyrir vottorðið um hið góða innræti, en vil segja honum, að ég hefi ekkert að kvarta yfir, að ég sé borinn ráðum. Aftur á móti veit ég, að þessi hv. þm. vill ætið ráðgast við sinn flokk áður en hann tekur ákvörðun.

Hann sagði ennfremur, að þegar ég hafi verið á fundi fyrir austan fjall, hafi ég afneitað öllum blöðum flokks míns og blöðin hefðu síðan jafnvel afneitað sjálfum sér. Það kemur stundum fyrir, að þessi hv. þm. fer í gegnum sjálfan sig. Hann gleymir því, sem hann hefir sagt áður, og rífur sjálfur niður það, sem hann var byrjaður að byggja upp. Þess vegna er svo auðvelt að svara honum.

Hv. þm. svíður, að í Sjálfstfl. skuli vera menn sem hafa eigin sannfæringu, en ekki hópsannfæringu, og honum þykir leitt, að sjálfstæðismenn eru ekki með handjárn, eins og hans flokksmenn. Honum þykir miður, að hv. 1. þm. Reykv. skuli lýsa yfir andstöðu við sum atriði málsins, eins og það liggur fyrir, og með venjulegri sannleiksást sinni segir hann, að hv. 1. þm. Reykv. sé alveg á móti málinu. (MJ: Ég er alls ekki á móti málinu). Ég veit það. Ég er að rekja hugsanagang hv. þm. S.-Þ., sem er utan við sig af örvinglun yfir því, að hann finnur engin handjárn í Sjálfstfl.

Það er spaugilegt að heyra þennan hv. þm. S.-Þ. svo að segja í hverri ræðu, sem hann heldur, velta sér með hrópyrðum yfir Mgbl. og Sjálfstfl. Hið sama gerir hann í flestum blaðagreinum. En hver er svo árangurinn af öllum þessum ósköpum? Árangurinn er sá, að Sjálfstfl. er langsterkasti flokkur landsins og Framsfl. er alltaf að tapa fylgi og var við síðustu kosningar hér um bil hálfdrættingur um atkvæðamagn í samanburði við sjálfstæðismenn. Honum ferst því illa, þessum hv. þm., að setja sig á háan hest og láta dólgslega. Kjósendur landsins hafa í þessu kveðið upp sinn hæstaréttardóm. Hv. þm. getur nöldrað eins og hann vill yfir þessum dómi, en hann getur ekki breytt honum. Framsóknarfl. gat átt glæsilega framtíð hefði hann bara ekki haft þennan mann innanborðs og látið hann ráða.

Hv. þm. sagði, að þm. Mýr. hefði verið flm. mjólkurlagafrv. 1932. Ég tók fram, að það hefði verið flutt af hv. landbn. Nd. og að í þeirri n. hefðu átt sæti 5 menn; meðal þeirra var hv. þm. Mýr. Frv. kom til n. frá búnaðarþingi.

Hv. þm. sagði svo, að ef við sjálfstæðismenn hefðum tekið höndum saman við jafnaðarmenn fyrir nokkrum árum, þá mundi nú vera komið svo, að Reykjavík framleiddi nægilega mjólk fyrir sig og þyrfti enga mjólk að kaupa úr sveitum. Þetta er víst alveg rétt hjá hv. þm., en þetta vildu og vilja sjálfstæðismenn ekki og hafa með því sýnt, að þeir eru um þessi mál ólíkt hollari sveitunum en jafnaðarmenn. Þess vegna er útilokuð samvinna milli Sjálfstfl. og sósíalista, en þó að Framsfl. viti um, hvað sósíalistar vilja í þessum málum, þá hafa þeir samt samvinnu við þá og látast vera patentvinir sveitanna engu að síður. Það getur verið, að hv. þm. S.-Þ. miklist af því að hafa snúið jafnaðarmönnum öllum í þessu máli, en ég vil sjá, hversu haldgott það verður, áður en ég trúi því, að þeir hafi alveg horfið frá þeirri skoðun, sem þeir létu í ljós 1932 og 1933. Ég las hér upp nokkur orð eftir hv. 2. þm. Reykv., varaform. Alþfl., sem hann lét falla, er mjólkurmálið var til umr. í fyrra, en ég gæti líka lesið upp svipuð ummæli eftir form. Alþfl., hv. 4. landsk. Ég man glöggt, að hann tók alveg í sama streng. Hv. þm. S.-Þ. sagði að lokum, að hv. þm. G.-K. hefði leikið „grínrullu“ með því að flytja mjólkurmálið á þingi. En þetta er alveg sama „rullan“ og hæstv. stj. hefir nú. (Forsrh.: Þar er þó sá munur á, að stj. kemur málinu líklega fram). Hv. þm. G.-K. kann málinu með heiðri og sóma í gegnum sína deild, og meira verður ekki krafizt af flm. máls.

Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Reykv., að mér kæmi ekki á óvart, þótt stj. yrði að breyta einhverju í frv. áður en lýkur, og sú alda kæmi einmitt frá bandamönnum hennar, jafnaðarm. Þeir hafa þegar fengið mjólkina lækkað, áður en nokkuð var farið að ávinnast fyrir framleiðendunum við hið breytta skipulag. Ég býst við, að bændur austan fjalls muni það, að það var fyrir tilstilli jafnaðarmanna, að mjólkin lækkaði í haust. Þótt sú lækkun sé að vísu ekki svo mikil, að hún muni neytendur neinu sem heitið geti, munar hún þó framleiðendur talsverðu yfir lengri tíma.