13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Skgf. talaði hér nokkur orð, og ég fann það glögt, að honum var ljóst, að þetta mál er tapað fyrir hann og hans flokk. Og það er nú eins og stundum áður, að hann finnur sárt til þeirrar aðstöðu, að hann vill annarsvegar ekki, að hinar dreifðu byggðir verði troðnar niður, en verður hinsvegar að vera náinn samstarfsmaður þeirra manna, sem hafa hagsmuni af því, að þetta fólk sé skattlagt undir spekúlantana í landinu.

Þessi hv. þm. sagði, að það hefði ekki þurft hugrekki til þess að gefa út bráðabirgðal. um síldarbræðslustöðina á Sólbakka. Ég hefi nú ennþá engan mann hitt, sem ekki álítur, að þau bráðabirðal. hafi verið vitlaus. Flokksblaði hans var það líka kunnugt, að þetta tiltæki hans var ekki heppilegt, að hann skyldi rétt áður en hann fór úr embætti gefa út l. um að taka atvinnutæki á þennan hátt undan yfirráðum þess rétta eiganda og fela þjóðfélaginu stjórn þess. Sérstaklega hlaut þetta að vera hættulegt frá sjónarmiði hans flokks, þar sem aðalbaráttan á milli Sjálfstfl. og Alþfl. er einmitt um þetta atriði, að taka atvinnutækin úr höndum einstakra manna og leggja þau undir þjóðfélagið. Enda kom það glöggt fram í umr. um málið, að Alþfl. var þessum hv. þm. þakklátur fyrir tiltækið, og fannst með því vera skapað kærkomið fordæmi.

Það er alveg vitanlegt, að þáv. landbrh. gat vel, ef honum hefði verið mjög umhugað um landbúnaðinn, gert það sama eða svipað í afurðasölumálunum í vor fyrir eða eftir kosningar. Hann sagði nú um leið og hann lauk sinni ræðu, að hann hefði ætlað að koma skipulagi á kjötsöluna fyrir haustið, ef hann hefði verið áfram ráðh. En hvers vegna kom þessi hv. þm. þá ekki góðu skipulagi á mjólkursöluna? Um þá sölu er ekkert haust til í sama skilningi og um kjötið og því hægt að endurbæta tilhögun hennar á hvaða árstíma sem er. Og það var því ekkert annað en viljaleysi þáv. landbrh., sem gerði það að verkum, að mjólkursalan var ekki skipulögð í vor. En vissulega var stj. í þeim erfiðu kringumstæðum, sem ég hefi lýst viðvíkjandi hv. 1. þm. Skagf.

Þau eru orðin um 20 blöðin, sem ráðizt hafa á Framsfl. fyrir aðgerðir hans í kjötsölumálinu. Þessi blöð eru flokksblöð hv. 1. þm. Skagf. og mér er ekki kunnugt um, að eitt einasta þeirra hafi mælt kjötsölunni bót. Ekki hefir komið ein einasta grein í þeim um, að það hafi verið rétt af forsrh. að gefa út þessi bráðabirgðal. Aðstaðan í Sjálfstfl. og flokki hv. 10. landsk. er þannig, að af þeim flokkum eða blöðum þeirra hefir aldrei verið minnzt á neitt, sem sé þessu til afsökunar. Sýnir þetta ekki hinn sanna hug flokkanna? Hvers vegna segir Vísir, að kjötið hækki um 33%, og í annari grein, að þingið hafi bjargað Rvík vorið 1933 undan þeim ókjörum, sem átt hafi þá að leggja á hana með mjólkurl., og skorar á það að gera nú hið sama í kjötsölumálinu? Íhaldsflokkurinn sem heild hefir aldrei sagt eitt einasta orð til stuðnings málinu, en hinsvegar er það liðið, að einn og einn þm. þess flokks afneiti blöðum flokksins, af því þeir sömu þm. hafa komizt að þingsæti í kjördæmum úti í sveitum landsins. En þeir þm. eru stöðugt að reyna að koma fleygum inn í frv., til þess að valda upplausn á því. Hv. 2. þm. Rang., sem seigastur hefir verið við að smíða þessa fleyga, hann vill leysa upp þessa löggjöf með því að leggja til, að hægt sé fyrir einstaka menn að verzla með kjöt utan við allt skipulag. Ef þetta hefði tekizt, þá hefði þessi lagabálkur orðið árangurslaus. Þá hefði það yndislega ástand komið aftur eins og það var, þegar bændur hér á Suðurlandi fengu 60 aura fyrir hvert kg. af kjöti gegnum Sláturfélag Suðurlands, það eina samvinnufélag, sem hann. hv. 2. þm. Rang., vildi kannske. ekki sverja fyrir, að hann bæri velvildarhug til, af því að félagar þess munu vera nokkuð margir úr hans kjördæmi.

Hv. l. þm. Skagf. var að tala um, að Framsfl. væri svo lítill flokkur, borið saman við hans flokk, og að Framsfl. væri í stöðugri afturför. Ég vitna til þess nú, er Jón Þorláksson sagði árið 1932, eftir að hann hafði komið hv. 1. þm. Skagf. í stj. með tveimur framsóknarmönnum. Þá sagði hann, að hans hugsjón væri, að þegar Sjálfstfl. gæti ekki myndað meirihlutastj. einn sér, þá ætti hann að fá lánað í stj. hjá Framsóknarfl. til þess að framkvæma stefnu Sjálfstfl. Nokkrir menn úr Framsfl. aðhylltust þessa hugsjón Jóns Þorlákssonar, og þar á meðal hv. 10. landsk., sem gein yfir þessari flugu formanns íhaldsflokksins. Hver varð svo niðurstaðan? Hún varð sú, að í staðinn fyrir, að þegar hv. 10. landsk. kom sem utanþingsmaður í stj. í samstarf við þingflokkana, hafði hann töluvert fylgi í landinu, þá hefir þetta fylgi ákaflega mikið rénað nú, af því einu, að þessi maður hefir tekið að sér það hlutverk að vera í varaliði íhaldsins. Þessi mæti maður hafði gleymt gamalli ráðleggingu sjálfs sín, en hún var sú, að menn ættu aldrei að trúa íhaldsflokknum. Hann hefði átt að vita, hvernig handalag við íhaldið fer. Hann hefir tapað kjósendum sínum af vináttu sinni við þá menn, sem bændur álíta að sitji á svikráðum við þeirra menn. Svo lítið treysta bændur íhaldinu, að slík undur hafa gerzt að merkasti maður Bændaflokksins tapaði svo áliti sínu vegna vináttu sinnar við íhaldið, að hann féll við kosningar með miklum atkvæðamun. (MG: Voru það undur, að hæstv. núv. forsrh. skyldi ná kosningu?). Það voru afarmikil undur, að nokkur skyldi fella Tryggva Þórhallsson. Það sýnir aðeins ljóslega, að sá hefir fyrirgert trausti sínu, sem trúir íhaldinu. Það er svo langt frá því, að það sé nokkur ástæða fyrir hv. 1. þm. Skagf. að vera að klaga yfir þessu; hann ætti miklu heldur að reyna að leyna því, að hvenær sem frjálslyndir menn mynda samstarf við flokk hans, þá eyðileggjast þeir á sál og líkama, og þó sérstaklega á sálinni.

Þá vék hv. þm. (ÞBr) að því, að það hefði ekki verið Bjarni Ásgeirsson, sem kom fyrstur með hina nýstárlegu hugmynd um það, að hafa verðjöfnunargjad og stórfellt skipulag á mjólkursölunni. En hann treystir sér ekki til þess að neita því, að Bjarni Ásgeirsson hafi undirbúið málið og fengið landbn. til að vera með sér í því að flytja það. Það þýðir ekki að neita þessu, því að þetta vita allir. Það væri undarlegt, ef þessi hugmynd hefði fæðzt í flokki hv. 1. þm. Skagf., að öll blöð þess flokks myndu með öllum sínum fallbyssum reyna að spilla fyrir l. Það myndu þau ekki gera, ef flokknum væru þau kær. Ég mun síðar tala um ræðu hv. 1. þm. Skagf. Ég finn glöggt, að honum er raun að núv. aðstöðu sinni, raun að því að hafa þau handjárn yfir höfði sér, sem blöð flokksins eru, en þau sýna glögglega hug flokksins til málsins. Ég vil minna á það, að á hinum mörgu fundum, sem haldnir voru austanfjalls, voru lesnar upp ritstjórnargreinar úr Morgunblaðinu og Vísi og ennfremur úr blaði hv. 10. landsk., og mælti enginn þeim bót. Sumir afneituðu blöðunum algerlega, en hvergi voru færð fram nokkur orð til varnar hlöðunum. Sumir létu alveg vera að minnast á þau, eins og t. d. hv. þm. Snæf. En hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. Rang. afneituðu blöðunum algerlega.

Þá kem ég að hv 2. þm. Rang. Hann var óánægður yfir því, að nál. frá meiri hl. n. væri svo langt. Það er ekki hægt að áfella þá, sem skrifuðu nál. En það er eins og þessi hv. þm. megi ekki heyra nefnda sögu málsins. Þarna endurtekur sig það sama og á fundunum austanfjalls. Það er alveg eins með þessa menn og þegar saltaranum var veifað yfir hausnum á kölska. Það er honum sjálfum að kenna, en ekki mér, að honum líður illa út af atkvgr. sinni í fyrra. En hann verður að þola, að minnzt sé á verk hans. Það var auðséð, að hv. þm. áleit nál. meiri hl. þá biblíu, sem hann yrði að styðjast við í flestum hlutum. Hann studdist við hið prentaða álit, þegar hann var að glöggva sig á því, sem hefði gerzt í fyrra. Af því má sjá, hvað það var hentugt fyrir hann að hafa þetta álit. Hv. þm. gat ekki hrakið eitt orð af því, sem stóð í nál. Og þegar það er athugað, hvað hann hafði mikla þörf fyrir að drekka meðan hann flutti ræðu sína, og í hve mikilli geðshræringu hann var, þá hafa áheyrendur fengið hugmynd um, að það var bara fortíðin, sem var honum óþægileg. Það hefir víst verið nál., sem kom þessum hv. þm. til þess að láta þau orð falla, að það væri rétt að setja þingið undir eftirlit. Hvaða þjóðir eru það, sem hafa sett þingin undir eftirlit? Það er þar sem persónufrelsi, fundafrelsi og prentfrelsi hefir verið afnumið. Ég gat ekki betur séð en hann væri að minna á það einræðisland, sem Sjálfstfl. virðist eftir ýmsum blaðagreinum hafa tekið sér til fyrirmyndar. Í Þýzkalandi er þingið undir eftirliti, eða öllu heldur lagt niður sem lýðræðisstofnun. Blöð flokksins tala um einræðisfyrirkomulagið sem fyrirmynd, þar sem Einstein er útlagi nr. 14 og mörg hundruð beztu vísindamenn og rithöfundar þjóðarinnar fá ekki landvist vegna frjálsmannlegra skoðana sinna. Þar er draumur hv. 2. þm. Rang. gerður að veruleika. (MJ: Er þetta um mjólkurlögin?). Það er út af því, að Sjálfstfl. vill setja þingið undir eftirlit.

Hv. þm. (PM) komst í úfið skap út af atkvgr. um samvinnufélögin. Hann var eitthvað að tala um það, að þar væri misjafn sauður í mörgu fé. Það voru helzt góðir menn í Sláturfélaginu, en það er víst af þeirri ástæðu, að það nær yfir kjördæmi hv. þm. En hann er samt á móti því, að Sláturfélagið sé stutt. Hann sagðist ekki ætla að þvo sér. Hvers vegna þarf þessi hv. þm. að þvo sér? Er það einhver innri nauðsyn fyrir hann að vera óhreinu? Ég verð að játa, að ég hefi aldrei heyrt tekið svona til orða fyrr. Mér finnst að þarna komi fram dýrkun á óhreinindunum. Hv. þm. gat ekki fært ástæðu fyrir fjandskap sínum. Jón Þorláksson vildi í fyrra ekki spyrja samvinnufélögin. Hverja átti þá að spyrja? Ég hélt því fram, að ekki væri völ á færari mönnum. Ekkert þýðir að spyrja kaupmenn. Þeir hafa ekkert gert í vöruvöndun ullar, kjöts eða osta. Þetta vita allir. Ef Jón Þorláksson hefði getað bent á færari menn, þá var auðvitað ekkert við því að segja. En það hefir Jón Þorláksson ekki gert, og ástæðan er sú, að hann hefir ekki getað það. En hver varð svo niðurstaðan? Hún varð sú, að leitað var til samvinnufélaganna. Ég er ekki að áfella landbrh. fyrir að gera það. Nei, þvert á móti. Það átti einmitt að tala við þessa menn, sem hv. 2. þm. Rang. vill ekki að sé talað við. — Þegar hv. þm. fór að tala um það, hvað hann hefði staðið sig vel á þinginu vorið 1933, þá varð mér á að brjóta blað við þá frásögn. Ég kemst þá ekki hjá því að minnast á orsökina til þess. Ég verð þá að byrja á upphafinu. Það var Bjarni Ásgeirsson, sem fyrstur flutti málið 1932. Síðan var það árið 1933, að Framsfl. reyndi að lokka flokksbræður hv. 2. þm. Rang. til þess að fylgja málinu. Það var spilað á hégómagirnd eins þm. sjálfstæðismanna og hann fenginn til þess að vera 1. flm. málsins. Frv. komst svo gegnum Nd. og til 3. umr. í Ed. Hvað varð svo málinu að falli? Ekki það, að blöð framsóknarmanna skrifuðu á móti því. Nei, það voru blöð sjálfstæðismanna, sem skrifuðu á móti málinu, og svo að segja allir samherjar hv. 2. þm. Rang. þrumuðu á móti því, sérstaklega þáv. form. flokksins. Svo þegar málið var komið þetta langt, þá snúast spilin. Hv. 2. þm. Rang. sagðist hafa ætlað að vera með því. En það er næsta ólíklegt, þar sem tókst að eyðileggja málið samt. En það hefir víst átt að reyna að halda honum hreinum og undirbúa það, að hann, byði sig fram í bændakjördæmi. Það, sem gerist bak við tjöldin, er þetta: Eftir að málið hefir gengið gegnum 2. umr. í Ed., þá er mótstaðan frá Jóni Þorlákssyni svo öflug, ekki eingöngu í Ed., heldur líka í bæjarstj., að sagt var af Jóni Þorlákssyni og nánustu samherjum hans, að sala mjólkurbúanna austanfjalls skyldi verða stöðvuð, og að bærinn myndi taka til sinna ráða og setja upp eigin mjólkursölu. Dettur hv. 2. þm. Rang. í hug, að fylgismenn Bjarna Ásgeirssonar hafi sleppt málinu af tómum leikaraskap? Nei, það varð að vera ástæða fyrir því. Og ástæðan var, að öll blöð íhaldsins voru á móti málinu. Í Ed. valt málið á hv. 2. þm. Rang. og hótuninni um að spila bændurna austanfjalls út úr mjólkursölunni hér í Rvík. Þegar svona var komið, þá var óskað eftir því, að málið væri lagt á hilluna. Það er þetta og ekkert annað, sem er tekið fram í nál. meiri hl. Enginn reynir að mótmæla því, að þetta var vegna innri baráttu milli Korpúlfsstaðabúsins annarsvegar og bændanna austanfjalls hinsvegar. Sú barátta er eins og allir vita afarsterk. Það getur meira að segja verið, að Jón Þorláksson hafi af þeirri ástæðu ekki óskað eftir járnbraut.

Það þurfti stjórnarskiptin 1927 til þess að koma skriði á þetta mál og stofnun búanna austanfjalls. Ef þau hefðu ekki komið, þá hefði alls ekki verið hugsað um mjólkurlög. Mjólkurframleiðendur í nágrenni Rvíkur voru ekki færir um að koma slíkum l. í kring. Hv. 2. þm. Rang. getur ekki mælt á móti því, að þeir menn, sem höfðu barizt móti mjólkurl., ætluðu að eyðileggja búin austanfjalls með því að setja upp samkeppnisbú. Þeir höfðu í þessu skyni keypt lóð leynilega. Sú stofnun átti að miðast við áþján og eymd bændanna, en þessi fyrirætlun varð ónýt, þegar járnbrautarplanið féll niður. Það er ekki til neins fyrir hv. 2. þm. Rang. að afsaka sig. Það er einungis honum og hans flokki að kenna, hvernig fór 1933. Og eftir að þessi ræfill af l., sem komst í gegn, hafði þvælzt fyrir fótum stj. var hann afnuminn með bráðabirgðal.

Það er ekki þörf að svara fyrir barnið, hvað Alþfl. hefir gert í þessu máli. Og þau orð, sem hv. þm. las sem tilvitnun og form. Alþfl. hefir látið falla — ef rétt var lesið — í garð þeirra manna, sem af hálfu íhaldsins réðu í mjólkurmálinu, voru alls ekki óeðlileg frá hans sjónarmiði.

Í till. þessara tveggja hv. bændavina kemur það enn fram, að þeir hirða ekkert um að læra af fordæmi Eyfirðinga, heldur að útpína neytendur eins og hægt er. Eyfirðingar hafa fundið það, að undir vissum kringumstæðum er meiri gróði að lækka mjólkina eitthvað heldur en hækka. Og Mjólkurfélagið er búið að lækka sína mjólk úr krónu og niður í 42 aura, og er, eftir því sem mér skilst, að lækka niður í 40 aura. Þessi mikla lækkun Mjólkurfélagsins síðan á stríðsárum hefir ekki þótt svik. Af hverju? Ekki var hækkunin framkvæmd af ást til neytenda, því að forstjóri þessa félags hefir verið mjög grimmúðugur í þeirra gerð fyrr og síðar. Það var af því, að menn fundu, að það var takmarkað, hvað hægt er að bjóða neytendum.

Þessi leyndi fleygur í till. hv. minni hl. lítur ósköp sakleysislega út á yfirborðinu, en er þess eðlis, að hann mun áreiðanlega sprengja mjólkurmálið, ef gengið er inn á hann. Það eru falleg orð, sem þessir ágætu menn segja, að allur hagnaður af skipulagningunni eigi að fara til framleiðenda. Hv. þm. veit vel, að ef hann flettir í gömlum bókum, er nóg dæmi að finna um það, að ef bændur ætla að hafa allan bæinn á móti sér, bæði braskarna og hina fátæku alþýðu, þá komast þeir ekki neitt. Þá verður niðurstaðan hin sama og nú er, þegar allmargir bændur í kjördæmi hv. 2. þm. Rang. fá 11—12 aura fyrir lítrann af sinni mjólk. Það er treyst á, að það verð hækki til stórra muna, jafnvel þótt neytendum sé sýnd nokkur sanngirni, en ekki eintómt harðræði.

Það er alveg nauðsynlegt í þessu máli að skýra það til róta. Það þarf að brjóta til mergjar þær leyndu hvatir og athafnir. Það þarf að segja frá mjólkurframleiðendunum hjá kaupfélaginu austur frá og atkvgr. hv. 2. þm. Rang., þegar hann vill ekki láta spyrja samvinnufélögin, og útskýra, hvers vegna hv. þm. heldur ennþá, að hann geti sprengt samtökin í þessu máli, geti gert framleiðendur og neytendur að óvinum. Það er bókstaflega af því, að menn Sjálfstfl. eru með Morgunblaðinu og Ísafold og þeim tuttugu sjálfstæðisblöðum, sem hafa þrumað á móti skipulagningu. Það er enginn innri skoðunamunur hjá hv. 2. þm. Rang. og hinum pólitísku ritstjórum Morgunblaðsins og Vísis. En það á við í þessu tilfelli að vera óhreinn á sumum stöðum, en reyna að sýnast hreinn a. m. k. þegar verið er á öðrum stöðum.

Það, sem nú hefir gerzt í þessu skipulagsmáli, er blátt áfram það, að sterkustu aðilar í landinu í þessu efni, samvinnufélögin annarsvegar, sem málsvari bænda, og verkamannafélögin hinsvegar, ætla sér að leysa þetta mál á skynsamlegan hátt. Og þau hafa jafnvel aðstöðu til að leysa það betur en sumar mestu þjóðir; t. d. er ekki búið að leysa mjólkurmálið í Kaupmannahöfn svipað því eins vel og er í Eyjafirði. Sannleikurinn er sá, að þessu sterka samvinnufélagi hefir tekizt betur en maður yfirleitt veit að gerzt hefir hjá nágrannaþjóðum. Og þó að við komumst ekki eins langt hér og Eyfirðingar, þá er samt hægt að komast í áttina.

Þá kem ég að framleiðslukostnaðinum. Ég hafði lagt ákveðna spurningu fyrir mína hv. andstæðinga, sem halda fram, að mjólkurverðið gæti orðið byggt á útreikningi um verð eftir framleiðslukostnaði. Þeir hafa engu svarað, ekkert útlent dæmi nefnt um, að þetta hafi verið gert, og ekki heldur neitt innlent. Það hefir aðeins verið nefnd ein ritgerð, sem ég skrifaði og snertir þetta mál ekki nema að litlu leyti. Þeir hafa þess vegna alveg gefizt upp, það hefir farið eins fyrir þeim og Jóni Jónssyni og forstjóra Mjólkurfélagsins á dögunum, — þeir gátu engin dæmi nefnt. Þeir fimbulfamba um hluti, sem þeir ekki vita til, að neinsstaðar hafi verið reyndir. Þegar ég spurði, hvort þeir vildu ekki selja fiskinn við framleiðsluverði, þá sögðu þeir ekkert um það. Þeir vita, að þetta er ekki hægt. Þeir vita, að það hefir ekki nokkurn skapaðan hlut að segja þetta á Spáni eða Ítalíu: „Við viljum, að sjómennirnir, sem sækja fiskinn, og stúlkurnar, sem þurrka hann, fái aðstöðu til að lifa við viðunandi kjör í menningarlandi — þó að sumir kannske álíti ekki jafnvel þörf á að þvo sér — og við viljum miða fiskverðið við það“.

Í þessu liggur það fullkomna strand hjá þessum mönnum. Þessi útreikningur þeirra er „grunnfært fleipur. Hvorki fyrr né síðar hafa þeir komið með röksemdir. Og svo heldur hv. þm., að hann geti bjargað sér út úr þessu með því að snúa út úr grein, sem ég skrifaði fyrir tuttugu árum og stendur óhögguð enn í dag. Þar geri ég alveg ljósan muninn á tveimur hagfræðistofnum, sem liggja bak við allar deilur um hagfræðimál, skoðun auðmannanna og öreiganna. Hvergi er nokkur mótsögn við það, sem hér er um að ræða, né talað um, að vörur séu seldar eftir framleiðslukostnaði. Það er sýnt fram á, hvernig aðalhöfundur jafnaðarmanna, Karl Marx, hafi leitt rök að því, að bak við allt liggi líf, framfærslan eins og undiralda, en ofan á komi bylgjurnar eftir atvikum. Þetta er viðurkennt af öllum í aðalatriðum. Og 85% af öllum hagfræðingum halda því fram, að það megi ekki líta við að reyna að miða við það, hvað þurfi til þess, að menn fái nóg til að lifa af. En hvernig færi um stétt þá, sem hv. 2. þm. Rang. heyrir til, ef við t. d. hugsum okkur, að kominn væri taxti á hennar vinnu, svo sem 25% af eyrarvinnukaupi í Reykjavík? Ég geri þá ráð fyrir, að þessi stétt mundi líða undir lok, þar sem enginn vegur væri til að kaupa lífsnauðsynjar fyrir greitt kaup. Nú vill svo vel til, að þessi stétt hefir ekki við þessi kjör að búa. T. d. hefir þessi hv. þm. tekið 30 þús. kr. árið sem leið fyrir eitt einasta mál, sem hann flutti fyrir hæstarétti. „Dýr mundi Hafliði allur“. Hvað mundi framleiðslukostnaðurinn vera eftir þessum kokkabókum, ef sá tími af æfi hans, sem hann vann að þessu máli, er 30 þús. kr. virði? Er hann hér að hugsa um framleiðslukostnaðinn eins og Karl Marx taldi hann koma til greina? Ég held ekki. Hér eru óblandaðar andstæður á ferð hjá hv. þm. Og ég verð að segja, að það þarf brjóstheilindi hjá þessum hv. þm. til þess og yfirleitt hans stétt — að slá um sig með því allt í einu, að þeir vilji verja fyrir hungurvofunni.

Ég hafði dálítið gaman af lestri hv. þm. á þessum sundurlausu atriðum úr grein minni; þegar getið er um öldurnar á yfirborði markaðsins, þá las hann lágt. Af hverju? Af því að hann vildi blekkja, vildi leyna því, að ég tók skýrt fram þessa hlið málsins, að veröldin kann ekki ennþá að fara eftir þessu. Jafnvel þeir, sem virkilega vilja bæta lífskjör almennings, verða að viðurkenna, að bylgjurnar ofan á verði stundum allmiklar og verði ekki við það ráðið. Enda sést þetta, vel af þeim árum, sem gengu yfir heiminn síðan þetta var skrifað.

Ég hygg ég hafi þá gengið frá þessu atriði um framleiðslukostnaðinn, sem þessir þrír hv. andmælendur frv., sem alltaf hafa tafið fyrir þessu skipulagsmáli, ekkert vita hvað þeir meina með, þó að þeir slái honum fram í sínum rökþrotum. Þeir geta ekki bent á neina staðreynd sínu máli til stuðnings.

Hv. 10. landsk. ásakar mig eins og félagar hans fyrir það að hafa sagt frá rótum þessa máls. Er það mér að kenna, þótt hann gerði ekki neitt í þessu máli? Aðrir hafa knúð það fram, og að honum nauðugum, að því er virðist. Hann kvað lítinn samvinnuhug að sjá í þessu nál. Hvernig á að vera hjá mér samvinnuhugur við aðstandendur þeirra blaða, sem hafa tortryggt og rógborið þessa skipulagsviðleitni á alla lund? Hvernig á að verða samstarfshugur við hann, ritnefndarmann að því blaði, þar sem ýtarleg ritstjórnargrein er skrifuð til ófrægingar stj. fyrir þetta skipulagningarstarf? Það er sagt, að verið sé að taka frelsið af bændum. Í greininni segir einnig, að bændurnir hafi verið frjálsir hingað til um að leggja verð á sína vöru, Sláturfélagið hafi lagt verð á kjötið í Reykjavík og kaupfélögin fyrir norðan o. s. frv. Þessi grein er nafnlaus og stendur því á ábyrgð þessa hv. þm. Hvernig var svo þetta „frelsi“ Sláturfélagsins til þess að ákveða verðið? Ég man tölurnar, sem Helgi Bergs gaf mér upp, hvað bændur fengu hæst nokkur undanfarin ár. 1931 voru það 85 aurar, 1932 60 aurar, í fyrra, 1933, 72 aurar, en í haust fyrir skipulagninguna, fullyrða þeir, sem að skipulagningunni hafa staðið, að það muni verða 93—95 aurar.

Ég vil nú spyrja hv. 10. landsk.: Finnst honum þetta ekki dásamlegt frelsi fyrir Sláturfélagið, að mega ákveða 60 aura fyrir kjötkíló fyrsta flokks? Þetta var fyrsta árið, sem þessi hv. þm. var ráðh. landbúnaðarmála. Ég áfellist hann ekki út af þessu; hann hefði litlu getað til vegar komið, en hann beitti sér heldur ekki fyrir skipulagningu. En ég bendi aðeins á, að hans blað virðist vera ánægt með þetta ástand. Ég er nú búinn að vera æðimikið á ferðum austanfjalls upp á síðkastið, og ég veit ekki um einn einasta mann, sem ekki er þakklátur fyrir aðgerðir í þessu máli. Íhaldsmenn eru leiðir yfir því, að forgangan var hjá framsóknarmönnum, og leiðir yfir sínum blöðum, sínum mönnum og sínum flokki fyrir að vera á móti málinu. Bændurnir eru svo hlálegir, að þeir gefa ekki túskilding fyrir það frelsi að fá 60 aura fyrir kílóið, móts við núverandi áþján skipulagsins, sem veitir þeim frá 93—95 aura fyrir kílóið. Lítum svo til Eyjafjarðar, þar sem blöðin sögðu vera þetta dásamlega frelsi með kjötverðið. Ég hefi það frá kaupfélagsstjóranum þar, Vilhjálmi Þór, að dag nokkurn í fyrra sumar var kílóið af kjötinu kr. 1.30. Og svo berast hvaðanæva þennan sama dag kjötskrokkar, og hvað haldið þið að verðið hafi hrapað? Það komst niður í krónu. Var þetta ekki glæsilegt ástand fyrir bændurna?

Hvernig heldur hv. þm., að honum takist að sannfæra menn um það, að hann sé heill í þessu máli, þegar blað hans talar eins og það talar, sem flytur sæg af andstyggilegum ósannindum í ritstjórnargrein um það mál, sem við erum að reyna að þoka áfram og með árangri? Það stendur ekki á samhug og samstarfshug hjá mér og þeim, sem vinna með mér í þessu máli og gagn er að vinna með. Við viljum vinna með þeim, sem við höfum reynt í örðugleikunum og vitum að hafa hagsmuni af góðri úrlausn málsins. Því að ég get líka sagt hv. 10. landsk. það, að þeir skynsamari verkalýðsleiðtogar líta ekki eingöngu á það, að skipulagningin hafi í för með sér einhver þægindi fyrir verkamenn. Þeir hafa þá víðsýnu ástæðu, að ef bændur á Suðurlandi fá 60 aura eða 72 aura fyrir kjötkílóið, þá líður ekki á mjög löngu áður en stórir hópar af þessum sömu bændum flosna upp og koma til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar ofan á litla atvinnu, sem fyrir er, og auka á eymdina. Þetta má kannske kalla eigingirni, en framsýn er hún og viðeigandi. Skynsamir bændur óska ekki eftir, að verkamönnum líði illa. Til eru þeir bændur, sem það vilja, helzt þeir, sem hafa nú verið að slá sér á þennan nýja flokk, sem hefir eiginlega gert sér að takmarki að spilla á milli stéttanna. En sú aðstaða skynsamra bænda að óska líka eftir vellíðan verkamanna, byggist á tvennu: sjálfsagðri mannúð auðvitað og svo meðvitundinni um það, að ef eymd og hungur er í kaupstöðunum, t. d. Reykjavík og Hafnarfirði, þá hafa þeir ekki markað og verzlun, ok þeir sjálfir ofurseljast eymdinni á sama hátt. En því betur sem verkamönnum líður, því meiri markaður fyrir sveitirnar. Á þessum grundvelli er samstarf um núv. stj. byggt. Það er ekki byggt á neinum fimmaurahrossakaupum um vegavinnukaup, heldur á djúpum skilningi á þörf þjóðfélagsins í heild og lífsmöguleikum stóru stéttanna í landinu.

Ég hafði skorað á þennan hv. þm. að standa við dylgjur sínar um það, að eitthvað annað en skipulagsmálið hafi knúið Framsfl. til að óska eftir stjórnarskiptum í fyrra. Hann nefndi það lögreglumálið. Það er rétt, að það var eitt af málunum, en það var líka margt annað af æskilegum hlutum. Heldur hann, að við framsóknarmenn höfum verið ánægðir yfir strandgæzlunni? Heldur hann, að við höfum verið glaðir yfir því, að sjá þann mann, sem unnið hefir hið mesta afrek í strandgæzlunni, ofsóttan og fölskum ásökunum hellt yfir hann eins og óbótamann með vísvitandi lygum af hans öfundarmönnum? Og þessi ofsóknarmál halda áfram í tvö ár, til þess að halda honum frá sjónum, varna honum að vinna sitt þjóðþarfa starf. Við töluðum ekki mikið um þessa hluti, en við mundum þá.

Eða heldur hv. þm., að það sé ákaflega mikil ánægja í Dölum, þar sem reknir voru frá sjö skólanefndarformenn eftir að hann var fallinn við kosningarnar í vor? Eða t. d. þegar sjálfur hinn ágæti maður, sýslumaður Dalamanna, þótti of auðvirðilegur til að vera í skólanefnd? Hann þurfti að rýma fyrir flokksmanni hv. þm. Eða þegar svo langt er gengið að taka varð bónda, sem var hans flokksbróðir í vor, til þess að koma að presti, sem er enn meiri flokksmaður, í formennsku í skólanefnd.

En hvað um þetta. Við vorum ekki að verðleggja ámóta atriði og þetta, sem þá voru fram komin, heldur var það afkoma fólksins. En hv. þm. talaði um lögreglumálin. Hver var hans stefna í því máli? Hann veit, að stjórn hans borgaði út 400 þús. kr. í laun til þessara manna, sem stafaði af því, að bandamenn hans æstu upp fátæklingana móti sér fyrir tveimur árum með mjög auðvirðilegri framkomu. Menn, sem höfðu 16 þús. kr. í laun, eins og ritstjóri Vísis, vildu níðast á mestu smælingjunum í bæjarvinnunni. Út af þessu urðu óspektir, sem alkunnar eru orðnar. En var það tilvinnandi af bandamönnum þessa hv. þm. að hefja þennan leik til þess að verða á liðugu ári að kasta út 400 þús. kr.? Ég segi nei. Síðan farið var að líta á hag þeirra stóru stétta í landinu hefir ekki þurft þennan her, af því að fátæklingarnir hafa vitað það, að það er verið, þó af veikum mætti sé, að lyfta þeim til betri kringumstæðna. Þess vegna eru engin barefli upp tekin. Þá var það svo, að á fáum dögum létu 1300 menn innrita sig í ofbeldisfélag í bænum, sem tók allar venjur eftir þeim versta glæpaflokki, sem nokkurntíma hefir starfað í þjóðflokki skyldum okkur Íslendingum. Þessi hreyfing breiddist svo það út, að sumir sýslumenn landsins í þessum sama flokki vegsömuðu þetta og skrifuðu greinar um það, og það er vitað um a. m. k. 2 bandamenn hv. þm., sem studdu þessa óverulegu hreyfingu.

Ég geri ráð fyrir, að hann viti um fólkið, sem var að æfa, í Kveldúlfsportinu, sumpart niðursetningar úr bænum og allskonar óþjóðalýður, sem var þar að æfa einhver ofbeldisverk, sem ekki var lýst fyrirfram, en stóðu í nánu sambandi við bandamenn hv. þm. Hér á landi hefir ekkert verið gert, sem minnti á ofbeldisflokkinn í Þýzkalandi, nema þetta eina. Og það var sama aðferðin í Kveldúlfsportinu eins og hjá Hitler, þegar hann var að æfa sína pilta, og það voru vissir spekúlantar og braskarar, sem lögðu í kosningasjóðinn hjá Hitler, og alveg eins var þetta hér, hjá þessum mönnum, sem æfðu í Kveldúlfsportinu.

Við skulum hugsa okkur, að það hafði farið eins og hv. 10. landsk. bjóst við, að þessi flokkur, sem hafði innan sinna vébanda hreyfingu, sem innskrifaði 1300 menn á útmánuðunum 1933 og hafði liðsaukann í Kveldúlfsportinu, við skulum hugsa okkur, að hann hefði tekið völd og farið að eins og í Þýzkalandi, þegar ríkisherinn sameinaðist auðmannahernum. Hvað gerðist þá? Þá var þingið sett undir eftirlit. Þá var Einstein gerður númer 14 meðal útlaga landsins. Það þýðir ekkert fyrir þennan hv. þm. með þennan ólánsfélagsskap, sem hann lenti i, að gera lítið úr því, að lögreglumálið hafi nokkra þýðingu, því að ástæðan til, að þetta datt niður eins og kommúnisminn og æfði í Kveldúlfsportinu þessa niðursetninga og allt fólk, sem þar var nú farið að vera heima sem niðursetningur, það er heppilegt fyrir þá, og það er bókstaflega af því, að þeir vita, að meðan þetta bandalag stendur að stj., þá þýðir ekki að vera að æfa niðursetninga og annað fólk til að gera óspektir hér. Sýslumennirnir, sem höfðu skrifað í blöðin um þessa hreyfingu, hættu því og vildu láta það gleymast, að þeir höfðu verið með þessu. Ég vonast því til, að þessi mikli kennimaður, sem ég hugði þennan hv. þm. einu sinni vera, hann sjái nú og skilji, að þessi valdalegi inngangur í landinu hefir verið ákaflega óheppilegur frá siðferðislegu sjónarmiði hér á landi, ekki að hann sé potturinn og pannan í þessu öllu, heldur hefir hann verið það, sem Jón Þorláksson óskaði eftir, varalið fyrir þann flokk, sem er ekki í meiri hl. í landinu, og í skjóli þessa varaliðs var þetta gert, sem ég drap á. Það er rangminni hjá hv. þm., að það hafi verið þessi mikli maður, sem nú er farinn úr Frsmfl., sem hafi gert þessa kröfu við stjórnarmyndunina 1933, að landbúnaðarmálin væru sett á oddinn, því að það var ógæfa þessa góða manns, að hann trúði þessum manni of vel og hafði of háar hugmyndir um hans einlægni og hæfileika. Þess vegna var það, að þótt þetta væri í boði, sem gaf Rangárvallasýslu 40 þús. kr. á ári og Árnessýslu 60þús. fyrir sama kjötmagn, svo að teknar séu tvær sýslur og ein vörutegund, þó að þetta væri í boði, lét sá mæti maður ekki úr því verða að styðja málið áfram, af því að aðalmennirnir voru núv. hæstv. fjmrh. og útflutningsstjórn Sambandsins, að okkur öllum öðrum ólöstuðum, sem að þessu stóðum og vorum þar minni menn.

Hv. þm. tók svo til orða, að hann vildi ekki afsaka Jón Þorláksson, af því að hann hefði verið á móti sér meðan hann var í stj. Ég heimta ekki vörn fyrir þennan mikla borgarstjóra hér, en hinsvegar ferst honum ekki jafnkærleiksríkt við hann eins og þessum miklu manni úr íhaldsflokknum fórst við hans flokk. Þegar Jón í Stóradal kom á fundi austur í sýslur, þá breiddi sýslumaður þar kærleiksfaðminn á móti honum, þakkaði honum fyrir starf hans og vildi öll blíðmæli við hann eiga. Og þetta var rétt. Þessi sýslumaður, þó að ég dáist ekki að öðru leyti að hans yfirborði, þá tók hann sína afstöðu með hreinskilni og réttlæti. Og þó að ég vilji ekki ráðleggja hv. 10. landsk. að ganga þessa braut, þá á hann þó þess að minnast, að hann var í 2 ár í bandalagi við Jón Þorláksson, og hans valdalegi metnaður er bundinn við þann tíma, sem Jón unni honum að vera í stj.

Hv. þm. var að reyna að vera fyndinn, er hann sagði, að ég héldi, að 7. febrúar væri í okkar tímatali á eftir 20. marz. En hv. þdm. hafa tekið eftir því, að ég hefi ekkert um þetta sagt og ekkert minnzt á 7. febrúar. En það, sem hann á við með 7. febrúar, er, að hann gekk þá inn á mína till., sem hann lét drepa 28. nóv. í fyrra. Þá hefir hann skrifað Sambandinu og Alþfl. og beðið þau um að búa til frv. Ég er þakklátur hv. þm. fyrir, að hann sá, að hann hafði haft þarna rangt fyrir sér, eins og oft áður, og ég hafði reynzt forsjálli með mína, till. heldur en hann, en það kemur ekki við þessu máli, því að það, sem till. Jóns gekk út frá og hann reyndi ekki að verja, var að einhverjir menn í Stjórnarráðinu gerðu rannsóknina. Síðan átti að spyrja samvinnufélögin, og svo átti að fleygja þessu inn í þingið. En á þessum tíma, frá því að þingi sleit og til 7. febr., hafði hann snúizt frá Jóni í Stóradal og til mín, og 7. febr. var hann kominn á mína skoðun í málinu. Ég var ekki nema stuðningsmaður annara, sem höfðu forustu þessa máls, og gerði ekki kröfu til að vera meira. Sá, sem fyrst og fremst hafði forgöngu þessa máls, var Jón Árnason. Hann og Eysteinn Jónsson áttu mestan þátt í því, að þetta var gert að aðalmálinu í samningunum við Alþfl., að byggja á því nýja stjórnarmyndun, en mín till., sem hv. 10. landsk. lét fella, var blátt áfram lítill liður í þessu máli. En áður en Jón Árnason kom með þetta og ég kom fram með mína brtt., var Jón Árnason búinn að afla sér allrar vitneskju um fyrirkomulag þessa skipulags í nágrannalöndunum, og ef hv. þm. hefði verið svo forsjáll að leita um þetta til Sambandsins, þá hefði hann ekki þurft að síma til útlanda eftir þessum upplýsingum. Og ef hann hefði viljað vera fljótur, þá hefði hann ekki þurft annað en að síma til Sveins Björnssonar, og þá hefði hann fljótlega getað fengið allar upplýsingar, ef hann hefði viljað. Þess vegna er það, að 5. febrúar gerist ekkert annað en það, að hann veit, að kaupfélagsstjórarnir eru búnir að taka upp málið og undirbúa það. Svo kemur nefndin og henni er afhent frv., og í henni voru aðalmennirnir þeir sömu, svo sem Jón Árnason og Egill Thorarensen, svo að ég nefni aðeins tvo, og svo einn af greindustu mönnum, sem starfað hafa í Alþfl., séra Ingimar Jónsson. Allt, sem þessi hv. þm. gerir, er það, að hann skrifar 7. febr. og lætur félögin í bænum, eins og Sambandið og Sláturfélagið, ekki svara sér fyrr en komið er undir vor, en virðist ekki hafa símað til þeirra. Í stuttu máli, hann gerir ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu máli nema að senda þetta plagg frá sér, og hans þegjandi játning liggur í því, að því aðeins fór hann frá grundvelli Jóns í Stóradal og inn á grundvöll minn, að hann sá, að hans grundvöllur var hruninn og ekki til neins að halda áfram á honum. Ég álít það virðingarvert af þessum þremur andstæðingum framsóknarmanna, hvað þeim leiðist, að hér sé talað um aðdraganda málsins; í því liggur játning þeirra, hvernig þeir standa í því.

Ég vil minna hv. 2. þm. Rang. á það, þegar hann kom austur í Rangárvallasýslu og fór að tala við sína menn, hvernig hann ætti að taka í þetta mál, þá kom einn af beztu bændum héraðsins með dæmi um þessa afstöðu hv. þm. og nokkuð margra af félögum hans, sem hafa hallazt að sömu skoðun. Hann benti á, að hér í Rvík væri þessi harða ádeila á lögin, en þegar út í sveitirnar kæmi, þá þættust þeir vera vingjarnlegir í garð málsins. Og ef maður tæki flokkinn eins og einingu, þá mætti taka, án þess að vilja meiða flokkinn, dæmi af dýri, sem okkur, sem höfum verið við smalamennsku, er kært, nefnilega hundi. Þessi bóndi sagði, að þessi aðferð flokksins væri eins og hjá hundi, sem hann hefði eitt sinn mætt á bæ, hann hefði komið og flaðrað með rófunni, en urraði um leið og fitjaði upp á trýnið. Varð honum þá að orði: „Hvoru á ég að trúa?“ — Þannig er öll frammistaða íhaldsins í þessu máli.