13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1549 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég á hér brtt., sem mundu breyta frv. til talsverðra muna, ef þær yrðu samþ. Ég mun því halda mér við málið sjálft og tala um einstakar greinir og brtt., eins og gera á við 2. umr., þótt hv. frsm. meiri hl. landbn. hafi látið sér sæma að eyða hér nokkrum klukkutímum í skraf um Kveldúlfsportið, fangabúðir nazista og annað, sem kemur þessu máli álíka mikið við. Ég er satt að segja hálfhissa á forseta, að leyfa slíkar umr. En hv. frsm. meiri hl. hefir það sér til afsökunar, að hann hefir víst varla komið í stól sinn áður síðan þing hófst.

Ég held, að á þessu máli séu aðeins tvær skoðanir hér í d., önnur sú, er ég hefi, og hin sú, er allir aðrir dm. hafa. Ég heyrði það á ræðu hv. 4. landsk., að Alþfl. ætlar að svíkja umbjóðendur sína í þessum málum og stuðla að því, að landbúnaðurinn í kaupstöðunum verði lagður niður. Ég hafði þó búizt við, að jafnaðarmenn yrðu samherjar mínir í þessu máli. En þeim er það auðsjáanlega ekki síður kappsmál en öðrum hér að lýsa sem ákafast yfir fylgi sínu við frv.

Brtt. hv. 10. landsk. gengur í þá átt, að spilla frv. frá því, sem það nú er. Það á að gera það að ófrávíkjanlegu skilyrði, að neytendur megi aldrei njóta neins þess hagnaðar, er skipulagið kynni að hafa í för með sér, því að viðbótin er auðvitað bara til sýnis, „a. m. k. þangað til framleiðendur hafa fengið framleiðslukostnað sinn greiddan“. Mér þætti gaman að vita, hvenær þessi hv. þm. teldi, að bændur hefðu fengið þann kostnað greiddan, og þótt svo væri, er samt engin skylda, að neytendur njóti neins hagnaðar í verðlækkun eftir það, samkv. orðalagi till. Í þessari till. eiga víst að felast ákúrur fyrir þá voðalegu hagsbót í þágu neytenda, að mjólkurpotturinn lækkaði um 2 aura í haust. Þetta er einn liðurinn í því kapphlaupi, að vera sem mest með málinu.

Hæstv. forsrh. gerði sér mjög tíðrætt um mjólkurstríð milli bænda austanfjalls og framleiðenda kringum og í Rvík, og skildist mér, að hann þættist hafa afstýrt því með verðjöfnunarskattinum, sem renna ætti til bænda austanfjalls til að þeir héldu sig frá Rvíkurmarkaðinum. Ég skal játa það, að ég get fallizt á þessa hlið málsins. Að vísu má segja, að þessi verðjöfnunarskattur sé ósanngjarn, en hann kemur þó einhverjum að notum. En hitt er alveg óafsakanlegt, að láta framleiðendur í Rvík borga stórfé, sem enginn hefir gagn af. Enginn á jarðríki hefir gagn af þeim 160 þús. kr., sem reykvískir framleiðendur eiga að gjalda fyrir það, að glundra nýmjólk sinni saman við aðra mjólk og spilla henni þannig, til þess að verða að láta gerilsneyða hana á eftir. Sá skattur getur aðeins orðið til þess eins að eyðileggja framleiðendurna.

Ég veit það að vísu, að hv. d. er staðráðin í því að skella þessum skatti á og að ég verð hér ofurliði borinn. En það getur verið, að ég reyni þá að tala um málið á öðrum vettvangi, og þeir, sem þar mæta, hafi þá aftur áhrif á þingið.

Hæstv. forsrh. sagði, að Rvík yrði vafalaust undir, ef til mjólkurstríðs kæmi við austanbændur, og af einskærum kærleika til reykvískra framleiðenda og til þess að hjálpa þeim er það þá tekið til bragðs, að láta þá, sem áður hafa selt mjólk sína með engum kostnaði, greiða nú í hreinsunarkostnað og dreifingar 180 þús. kr. á ári. Það mætti ef til vill segja, að 20 þús. kr. af þessu, verðjöfnunarskatturinn sjálfur, gæti komið að einhverju liði í þessu mjólkurstríði, en þær 160 þús. kr., sem teknar eru af framleiðendum fyrir gerilsneyðingu, hjálpa þó enn betur til að koma í veg fyrir mjólkurstríð. Því ef annar aðili er drepinn fyrirfram, þá verður auðvitað ekkert úr neinu stríði.

Hæstv. forsrh. sagði, að dreifingarkostnaður á mjólk framleiðenda hér í bænum væri 5 aurar á lítra. Þetta eru ósannindi, annaðhvort vísvitandi eða óvísvitandi. Langoftast er dreifingarkostnaðurinn enginn. Viðskiptamennirnir koma með sínar flöskur og fötur undir mjólkina og borga hana út í hönd. Eða skyldi eiga að bjarga þessum framleiðendum með því að láta þá borga 8—10 aura fyrir gerilsneyðingu á hverjum potti?

Hæstv. ráðh. sagði, að ef Reykvíkingar væru látnir einráðir um sölu mjólkur sinnar, yrði oft svo misjafnlega mikil mjólk á markaðinum, að það yrði að láta vinna úr nokkrum hluta bæjarmjólkurinnar. En þetta er alveg þveröfugt. Áður en bæjarlandið var ræktað var einmitt oft mjólkurskortur hér á haustin. En Reykvíkingar hafa lagað þetta, að vísu með ærnum kostnaði. Og þrátt fyrir hinu auknu mjólkurframleiðslu í Rvík hefir enginn stungið upp á því að taka fyrir flutninga á mjólk til bæjarins.

Það er hin mesta fjarstæða, að ég sé mótfallinn þessu frv. Ég álít, að það eigi að gerilsneyða alla þá mjólk, sem glundrað er saman og flutt langar leiðir; en það á ekki að lögbjóða að glundra hreinustu nýmjólk saman við aðflutta mjólk alveg að óþörfu. Ég álít líka fyllilega réttmætt og nauðsynlegt að skipuleggja söluna á þeim 4 millj. lítra, sem fluttir eru til bæjarins árlega.

Hæstv. forsrh. hefir hafið mjólkurstríð með þessum lögum. Og ég get fullvissað hann um það, að þetta mál er ekki búið enn. Það er að byrja. Málið er knúð fram af kjósendahræðslu, en það mun koma á daginn, að Reykvíkingar, sem lagt hafa millj. kr. í ræktun hér í kring og framleiða um 1 millj. mjólkurlítra á ári, láta ekki mótstöðulaust leggja allt í rústir fyrir sér.

Þó að ég verði undir í þessu máli hér í d., getur sumt verið, að ég geti komið einhverju til leiðar utan þings, sem hafi áhrif á málið. (Rödd úr stigaherberginu: Er þetta úr Kveldúlfsportinu?). Úr hvaða dauðragröf kom þetta hljóð?

Þá vil ég minnast örfáum orðum á afstöðu jafnaðarmanna. Ég ætla nú að spá því, að svo fari, að þeir dansi með mér í þessu máli áður en lýkur. Ég bauð þeim að vera með mér í tilraunum um að laga frv., og skyldi ég þá taka brtt. mína aftur og afsala mér þannig þeim pólitíska hagnaði, er ég hefði af aðstöðu minni. En því boði var hafnað, svo að útlit er fyrir, að handjárnin séu þar komin a. m. k. á annan úlnliðinn. En við skulum nú samt sjá, hvort þeir finna ekki áður en lýkur upp einhverjar nýjar till. í málinu, eins og t. d. með barnamjólkina í fyrra. En þá munu Reykvíkingar minnast þess, að það hafa þeir gert af kjósendahræðslu.

Hv. frsm. var að tala um, að hann vildi spyrða menn saman í máli þessu. Ætli spyrðubandið geti nú ekki slitnað? Hv. 4. landsk. segist auðvitað vera ennþá með því, að bærinn setji upp kúabú. Hvað verður þá um samkomulagið við bændurna, sem ekki vilja leyfa reykvískum framleiðendum að verzla með mjólk sína?

Ég veit ekki, hvort ég á að fara út í fyrri ræðu hv. frsm., sem mátti heita skemmtileg vitleysa, þar sem sú seinni var hinsvegar nauðaleiðinleg vitleysa. Hann sagði m. a., að ég vildi láta selja ógerilsneydda mjólk úr löggiltum fjósum, og gerði sér yfirleitt mjög tíðrætt um fjósbása og talaði illa um þá. En fjósbásar geta verið ágætir, og það viðurkenndi hv. flm. líka þegar hann löggilti fjósbásana í Reykholti og lét þá renna inn í skólann. Þá sagði hann og, að ég vildi, að fátæk börn drykkju óhreina mjólk úr fjósbásunum, en fína fólkið gerilsneydda mjólk frá Korpúlfsstöðum. En ég kaupi nú einmitt mjólk úr einum þessum fjósbás, sendi þangað með aura á morgnana.

Þá spurði hann, hvort ég teldi Spánverja, Portúgala og Ítali hræ, af því að ég talaði um, að allir vildu lifa á þessu hræi, Reykjavík. Hvernig skyldu Spánverjar og þessar þjóðir taka því, ef þeir væru búnir að koma sér upp flota og við færum að reyna að setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

Þá spurði hann, hvort ekki ætti að vera verkaskipting í þjóðfélaginu. Þegar hann fór að tala um þetta, sá hann hinar hræðilegustu ofsjónir. Hann sá Öskjuhlíð græna upp á brún, fagra og frjósama sem Eden. Það var alveg óskaplegt.

Fram til þessa hefir ræktun við bæi verið talin til framfara bæði af framsóknarmönnum og öðrum, og þingið verið örlátt á fé í ræktunarvegi. En ég vil bara spyrja hv. þm., hvað hann álítur, að liggi fyrir íbúum þessa bæjar og þjóðinni í heild, ef það gengi reglulega illa að selja fiskinn. Og það er alveg rétt, að hinar suðrænu þjóðir eru alltaf að setja nýjar og nýjar hömlur hjá sér á innflutning fiskjar. Sá voði vofir yfir okkar þjóð um hver áramót, að fiskbirgðir hlaðist upp í landinu og verði óseljanlegar. En væri það þá nokkur voði fyrir þennan bæ, ef allt landið í nágrenni Rvíkur væri vel ræktað? Ég held, að það væri ekki nema gott fyrir Reykvíkinga að geta þá farið að lifa á landbúnaði, þegar neyðin knýr þá til að draga úr útveginum. Mér virðist því, að þessi röksemdaleiðsla hv. þm. S.-Þ. sé algerlega öfug, eins og flest annað í ræðu hans. Mér skildist á hv. þm., að lausn þessa máls væri einkum fólgin í því að blanda mannviti í mjólkina, og að það hefði verið gert á Akureyri. Ég veit ekki, hvernig á þetta er litið fyrir norðan, en árangurinn mun vera talinn sá, að mjólkurverðið lækkaði þar niður í 25 aura lítr. við það, að mannviti var blandað í mjólkina. Samkv. þessu skilst mér, að tilgangurinn muni vera sá, að lækka mjólkurverðið hér sunnanlands niður í 25 aura ltr. Ætli bændurnir yrðu þá sérstaklega ánægðir yfir því, þegar það liggur við, að þeir ætli nú að ærast út af því, að mjólkin hefir nýskeð verið lækkuð um 1—2 aura — eða niður í 40 aura ltr.? En við skulum nú segja, að gengið verði út frá sömu hlutfallslækkun á verði mjólkurinnar og á Akureyri, og að þessi óguðlega eða vitlausa mjólk, sem berst hér á Reykjavíkurmarkaðinn, yrði seld á 28—29 aura ltr. — allur kostnaður við hreinsun og sölu hinnar víðfrægu mjólkur við Eyjafjörð mun vera talinn 6—8 aur. pr. ltr. — samkv. því ættu bændur að fá 17—19 aur. fyrir ltr. — En bændur hér á Suðurlandi ættu eftir sama hlutfalli að fá 28—29 aur. pr. ltr., ef hreinsunar- og sölukostnaður væri talinn 11—12 aur. pr. ltr. — Annars virðist hugsjón hv. þm. vera sú, að neytendur mjólkurinnar eigi að borga 25 aur. pr. ltr., en að bændur og aðrir framleiðendur eigi að fá 29 aur. pr. ltr. Hér er því um að ræða samskonar dæmi og af konunni, sem vildi vera ákaflega fótsmá og þurfti að kaupa sér skó. Hún bað að selja sér skó, sem væru stórir að innan en litlir að utanmáli. Mér virðist, að hér hafi komið fram í þessu máli alveg samskonar kröfur um mjólkurverðið. Það er bent á útsöluverð mjólkurinnar á Akureyri sem hugsjón eða fyrirmynd, en jafnframt er þess krafizt, að mjólkurframleiðendur hér sunnanlands fái sem hæst verð fyrir mjólkina. — Annars er það máske réttara fyrir mig að tala fremur um þetta mál á öðrum vettvangi en hér á Alþingi, t. d. á borgarafundi hér í bænum, ef verða mætti, að það hefði þau áhrif þar, að losað yrði um handjárnin á einhverjum hv. þm. (JJ: Er þetta hótun?). Já, það er hótun.