13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1593)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., enda, hefi ég fáu að svara og hér liggja aðeins fyrir tvær brtt. frá hv. minni hl. landbn., sem ég hefi áður minnzt á. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum til andsvara hv. 1. þm. Skagf., enda kom ekkert fram í þessari aths. hans, annað en það, sem ég hefi áður svarað, og nenni ég ekki að endurtaka það. Þó var það eitt nýtt atriði, sem ég vildi gera aths. við. Hv. þm. sagði, að ég hefði komið til þáv. hæstv. atvmrh. (ÞBr) fyrir jól í fyrravetur og beðið um, að fresta mætti framkvæmd mjólkurlaganna fram að áramótum. Þetta er rétt hermt, en þrátt fyrir það er engin röksemd í því fólgin til stuðnings þeim framburði hv. þm., að ég hafi alveg viljað slá lögunum á frest. Ég óskaði aðeins eftir, að framkvæmd þeirra yrði frestað fram yfir jólin, vegna hátíðanna.

Þá kem ég að hv. 1. þm. Reykv., sem er aðalandstæðingur þessa máls hér í þd. Ég svaraði honum nokkrum orðum í fyrri ræðu minni, og skal ekki endurtaka það, enda geri ég ekki ráð fyrir, að við verðum sammála í þessum efnum. En það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm., sem virðast stafa af algerðum misskilningi á málinu. Hv. þm. sagði, að þeir peningar, sem mjólkurframleiðendum væri ætlað að greiða fyrir hreinsun og gerilsneyðingu mjólkurinnar, ca. 180 þús. kr., færu ekki í vasa nokkurs manns, þeim væri bara kastað á glæ. Þetta er alveg ný kenning, að peningar, sem greiddir eru út, renni ekki í vasa nokkurs manns!! Þessir peningar fara auðvitað til þeirra manna, sem annast um hreinsun mjólkurinnar og vinna að því. Nú fer vitanlega miklu hærri upphæð í dreifingarkostnað mjólkurinnar hér í bænum, eða upp undir ½ millj. kr. Þennan dreifingarkostnað er að miklu leyti hægt að losna við. Eins og allir vita, þá er það sáralítið af mjólk, sem framleiðendur hér í bænum geta losnað við fyrirhafnarlaust. Það getur náttúrlega staðið svo á, að einstöku menn geti látið mjólkina í næstu hús, og vera má, að hv. þm. hafi þá aðstöðu, að hann geti fengið mjólk til síns heimilis rétt við húsvegginn. En megnið af mjólkinni er flutt að í bæinn, og daglega mætir maður tugum af vögnum, sem eru að dreifa mjólkinni víðsvegar um bæinn, og það kostar mjólkurframleiðendur geysimikla vinnu auk innheimtukostnaðarins. Svo að það er mjög mikil spurning um, hvort kostnaðurinn við þessa fyrirhöfn er ekki meiri nú heldur en hann þarf að vera, þegar hið nýja fyrirkomulag er komið á, eins og lögin ætlast til. Ég skal taka það fram, svo að ég tali alveg vífilengjulaust, að einstöku af hinum smærri mjólkurframleiðendum í bænum og nágrenninu, sem vinna sjálfir að dreifingu mjólkurinnar og þurfa nálega enga vinnu að kaupa til búsins, þeir geta orðið hart úti fyrir hinu nýja skipulagi. En sú mjólkurframleiðsla er rekin á röngum grundvelli. Búin eru smá og rekin á of litlum löndum, með erlendum kjarnfóðurkaupum. En þeir mjólkurframleiðendur, sem hafa sæmilega stór bú, 10—20 kýr, og þurfa að kaupa vinnu til hússins til að dreifa mjólkinni um bæinn og innheimta verðið, hafa síaukinn rekstrarkostnað með hverju ári og margfalda erfiðleika af innheimtunni. Af þessu stafar það, að margir af hinum hyggnari framleiðendum í nágrenni bæjarins eru ekki á móti þessu skipulagi á mjólkursölunni. Þeir sjá, að þetta hefir verið of erfitt fyrir þá, og vænta sér hagsbóta af þessu fyrirkomulagi. Af sömu ástæðu eru mjólkurframleiðendur í nágrenni Akureyrar, sem stóðu utan við félagsskapinn fyrst í stað, nú komnir inn undir þetta skipulag. Það er þeim blátt áfram hagsmunamál.

Þá minntist hv. þm. á, að það kostaði að jafnaði mikið fé að framleiða mjólk hér í grennd við bæinn. En stóra atriðið í því máli er, hvað það kostar mikið að flytja mjólkina á markaðinn og að geta haldið viðskiptamönnunum. Það er léttara að losna við mjólkina á einum stað, eða fylla í skörðin eins og eftirspurnin segir til í bænum, því að um leið og skipulag er komið á mjólkursöluna, verða engin föst viðskipti við einstaklinga.

Hv. þm. sagði, að till. sínar í þessu máli hefðu ekki mikið fylgi hér í þd., en hann skyldi sýna það svart á hvítu, að þær hefðu fullkomið fylgi hér í bænum og grenndinni. Á að skoða þetta sem hótun frá hv. þm., um að hann ætli að vinna á móti þessu skipulagi á mjólkursölunni? Það er vitanlegt, að einmitt með því að egna hlutaðeigendur á móti skipulaginu, þá er það helzta leiðin til þess að láta lögin ekki ná tilgangi sínum og framkvæmd og skipulagningu mjólkursölunnar takast verr en ella, a. m. k. til að byrja með. Og hver yrði svo aðalafleiðingin af því? Hún yrði vitanlega sú, að neytendur mjólkurinnar hér í bænum, og ekki sízt framleiðendunum í grennd við bæinn, er unnið hið mesta ógagn. — Þetta hefir komið ákaflega glöggt í ljós í nágrannalöndunum, Noregi, Svíþjóð og Englandi, þar sem samskonar skipulag, á mjólkursölunni hefir verið framkvæmt um nokkurra ára bil. Þar, sem mjólkurframleiðendur hafa orðið fullkomlega samtaka um framkvæmd skipulagsins, þar hefir það orðið þeim öllum til mikilla hagsbóta. En á einstökum stöðum, þar sem deilur hafa risið um mjólkurmarkaðinn, í nágrenni við Osló og Stokkhólm, voru mjólkurframleiðendur, sem næst stóðu markaðnum, æstir upp til mótspyrnu gegn skipulaginu. Þar hefir útkoman orðið sú, að framleiðendur hafa yfirleitt orðið fyrir miklum hnekki, engu síður þeir, sem gerðu uppreisn á móti skipulaginu.

Það er alveg fullvíst, að ef ekki rís upp óeining á milli þeirra, sem eiga að búa undir skipulaginu, og ef ekki tekst að dreifa þeim eða æsa þá gegn því, þá er hægðarleikur að láta það verða þeim til mikilla hagsbóta; engu síður þeim, sem búa í nágrenni við bæinn.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að með þessum lögum — sérstaklega verðjöfnunargjaldinu — ætti að drepa mjólkurfrumleiðsluna í Rvík. En í þessu eru í raun og veru fullkomnar mótsagnir, því að þeir, sem eiga að njóta framleiðslunnar hér í Rvík, eiga ekki að borga verðjöfnunargjald af mjólk, sem framleidd er á ræktuðu landi innan lögsagnarumdæmisins, og gildir það fyrir eina kú fyrir hvern ræktaðan hektara. Það er fullkomlega vitað mál, að samkv. samningum, sem nú er verið að gera við framleiðendur hér í Rvík, fá þeir nettó talsvert hærra verð fyrir mjólkina en aðrir mjólkurframleiðendur. — En þá komum við að hinu, hvernig þessir framleiðendur hér í bænum og grenndinni standa að markaðinum, ef mjólkurstríð verður hafið og markaðurinn hér í bænum verður yfirfylltur af þeim, sem framleiða ódýrari mjólk og mundu selja hana við lægra verði. Hér ber allt að sama brunni. Það er fengin fullkomin reynsla fyrir því erlendis, í Noregi, Svíþjóð og Englandi, eins og ég gat um áðan, að það er skipulagið á mjólkursölunni, sem bjargar öllum hlutaðeigendum, enda hefir það alstaðar reynzt vel. Þjóð eins og Englendingar, sem jafnan hafa orðið síðastir allra þjóða til þess að setja höft á verzlun og viðskipti manna á meðal, þeir hafa nú komið þessu skipulagi á mjólkursöluna hjá sér fyrir tveimur árum síðan. Hér á landi hefir verið beðið of lengi með þær framkvæmdir. Og ég skal segja hv. 1. þm. Reykv. það, að þrátt fyrir hótanir hans og staðhæfingu um það, að gerð verði uppreisn gegn þessum lögum hér í bænum, þá skal ég bera fram aðra staðhæfingu á móti, og hún er sú, að þetta skipulag skal verða framkvæmt, svo sem lögin mæla fyrir, og sigra að fullu. Hv. þm. skal ekki takast að æsa hér upp mótþróa gegn lögunum og eyðileggja árangurinn af þeim. Og svo skulum við talast við um þetta aftur, eftir hálft ár eða svo. Ég er alveg óhræddur við hótanir hv. þm. og bíð rólegur átekta í þessu máli.