09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hygg, að ekki sé svo mjög um það deilt eins og nú standa sakir um verzlunarhorfur landsins út á við, að full þörf sé á að hafa hönd í bagga með því, hverjar vörur flytjist til landsins og hvernig þeim gjaldeyri er varið sem landsmenn hafa yfir að ráða. Ég hygg það sé í rauninni orðið ágreiningslaust mál, að þegar svo er komið fyrir einhverju landi, að erlendur gjaldeyrir hrekkur lítt fyrir því, sem kaupa þarf og eftirspurn er eftir innanlands, þá þurfi að viðhafa sterk tök, til þess að ekki verði keyptar inn meiri vörur en gjaldeyrir er til fyrir. Því að þó að það geti gengið um stund, að meira flytjist inn en hægt er að greiða á sama tíma, með því að stofna til skulda erlendis, þá er það vitanlegt öllum, sem hugsa af alvöru, að það getur ekki til lengdar gengið og brátt muni að koma, að ekki sé hægt að halda lengra á þeirri braut. Undanfarið hafa verið gerðar nokkrar takmarkanir í þessu efni, sem hafa átt að miða að því, að gjaldeyrir landsmanna gengi til þeirra vörukaupa, sem nauðsynlegust eru, og ekki væri keypt meira en það, sem hægt er að greiða nokkurn veginn með gjaldeyri þeim, sem til fellur á hverju ári.

Nú hefir það hinsvegar sýnt sig, að þetta hefir ekki að fullu tekizt, þrátt fyrir góða viðleitni, sem höfð hefir verið í frammi um þetta síðustu tvö árin. Að einhverju leyti er þetta því að kenna, að fyrirmælin, sem starfað er eftir, eru ófullkomin, en hitt veldur og miklu, að undanfarið hefir ríkt meiri bjartsýni en ástæða var til hjá þeim, sem með þessi mál hafa farið. Þetta sást, þegar málin skýrðust betur í reyndinni. Ýmsir menn hafa t. d. alls ekki gert ráð fyrir slíkum takmörkunum, sem hafa orðið á sölu þeirra vara, sem utanríkisverzlunin byggist mest á, nefnilega sjávarafurðanna, og framkvæmt margt með meiri bjartsýni en reynslan gat staðfest.

Eins og ég gat um í framsöguræðu með fjárlagafrv., þá er útlitið svo ískyggilegt, að litlar líkur eru til, að verzlun verði hagstæð á þessu ári, og engar líkur til, að greiðslujöfnuður verði hagstæður. Það er fyrirsjáanlegt, að við nú eins og 1933 söfnum skuldum við útlönd fyrir vörukaup umfram það, sem við getum greitt. Þetta ástand er vitanlega svo ískyggilegt, að það getur ekki staðizt til lengdar; á því verður að ráða bót. Og ég get ekki séð, að það sé nokkur önnur leið til þess en sú, að þeim, sem fara með stjórn þessara mála, sé gefin betri aðstaða en nú til að ráða fyrir um, hve mikið flutt sé af vörum í landið og hverjar vörur séu fluttar.

Ég vil taka alveg sérstaklega fram í þessu sambandi, að það er ekki nægilegt - eins og sumir halda fram - að hafa aðeins eftirlit með því, að ekki sé of mikið látið út af erlendum gjaldeyri. Það er ekki nóg, að erlendur gjaldeyrir sé nógur á einhverjum tíma til að borga allar vörur, sem eftir er spurt. Hitt verður að fylgja, að sá gjaldeyrir, sem til er, fari til að kaupa það nauðsynlegasta, en hitt sitji á hakanum, sem þjóðin getur án verið.

Nú mun kannske einhver skjóta hér fram, að ekki sé þörf á ströngum reglum, vegna þess að kaupgetan innanlands muni takmarka kaup á þeim vörum, sem telja verður, að landsmenn í heild geti án verið. En þessu er ekki svo varið. Og ástæðan er mjög einföld. Kaupgeta getur verið til hjá einstaklingum þjóðarinnar til að kaupa vissar vörur, þó að kaupgeta þjóðarinnar í heild sé svo rýr, að hún geti ekki keypt þær sömu vörur til landsins, ef fullnægja á öllum eðlilegum þörfum landsmanna fyrst. Vegna misskiptingar á kaupgetu innanlands er ómögulegt að láta kaupgetu innanlands takmarka innflutning fyrir þjóðina.

Alstaðar þar, sem gjaldeyrisskortur er, er gripið til þessara ráðstafana. Ekki einungis að gæta þess að stofna ekki til skulda í útlöndum vegna vörukaupa, heldur líka hins, að keyptar séu þær vörur, sem mest þörfin er á. Mér finnst satt að segja, að um þetta atriði ættu allir að geta orðið sammála, að það verði að stilla innflutningi landsins í hóf og miða við það, sem hægt er að borga, og það sé ómögulegt að láta kaupgetu einstaklinga takmarka innflutninginn. Er þá að minni hyggju aðeins ein leið úr þessu, en það er að gera þær ráðstafanir, sem þarf, til þess að innkaup þjóðarinnar verði eins og þörf heildarinnar krefur.

Þetta frv. fer nú fram á ýmsar leiðréttingar á þeim fyrirmælum, sem nú gilda. Ríkisstj. er heimiluð íhlutun um innflutning allra vara til landsins, en í 1. frá marz sl. er aðeins heimild um vissar vörur, en ekki um almenna íhlutun né eftirlit. Eftir því, sem ég hefi komizt næst hjá þeim mönnum, sem fara með þessi mál, þá er þessi breyt. alveg nauðsynleg. M. a., vegna þess, að sé takmarkaður innflutningur vissra vara, er hætt við, að innflytjendur grípi til annara tegunda, sem ekki eru takmörkunum háðar. Þannig safnast þá óeðlilegar birgðir varnings og eyða gjaldeyrinum, en verða sjálfar óþarfar að því leyti, sem þær eru umfram nauðsyn.

En breytingin er í því fólgin, að það er afnumin undanþága í gildandi fyrirmælum um þetta efni, nefnilega að fyrirtæki, sem hafa yfir erlendum gjaldeyri að ráða, geti notað hann án íhlutunar þeirra, sem þessum málum eiga að ráða. Þessi undanþága, sem er ákaflega víðtæk, er orðuð þannig í löggjöfinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef eigandi hans (þ. e. erl. gjaldeyris) færir sönnur á, að hann þurfi að nota gjaldeyrinn til að borga nauðsynjavörur til atvinnurekstrar síns eða nauðsynleg tæki til hans á næstu sex mánuðum, eða þurfi að nota hann til fullnægingar skuldbindingum, sem hann hefir tekið á sig vegna atvinnurekstrar síns, nema nefndin tryggi honum yfirfærslu í því skyni allt að jafnmiklum gjaldeyri þegar hann þarf með“.

Það er öllum ljóst, að þessi undanþága getur verkað þannig, að menn geta selt ísl. afurðir og keypt inn fyrir andvirðið vörur, sem annars eru háðar leyfisveitingum, en verða óþarfar vegna þess, að of mikið er innflutt. Þannig hefir þetta ákvæði verið skýrt.

Náttúrlega mætti fyrirbyggja þessa notkun gjaldeyrisins með því að samþ. aðeins það, að allur vöruinnflutningur sé háður leyfum. En það er annað, sem gerir það að verkum, að þessu þarf að breyta; því að í skjóli þessa er hægt að ráðstafa nokkrum hluta gjaldeyrisins án íhlutunar og misnota hann.

Ég fer ekki frekar út í þetta að sinni, en vænti þess, að hv. þdm. sé ljóst, að víðtækar undanþágur með erlendan gjaldeyri utan við gjaldeyrisnefnd gefa möguleika til allskonar undanbragða, ef því er að skipta. Það hefir t. d. borið nokkuð á því, að þeir, sem hafa haft erlendan gjaldeyri undir höndum vegna sölu á vörum, hafi látið hann af hendi til annara. Þannig verður óeðlileg verzlun með erl. gjaldeyri, sem gjaldeyrisnefnd getur ekki haft eftirlit með Þess vegna er sú leiðrétting, sem lögð er nú til, alveg nauðsynleg, svo framarlega að menn vilji hafa tök á þessum málum. En það er óhugsandi að láta eftirspurnin, innanlands ráða innflutningnum, eins og ég hefi sýnt fram á, og þá get ég ekki séð aðra leið til öruggs eftirlits með gjaldeyrisverzluninni og því, hvaða vörur séu fluttar til landsins, fyrst þær nauðsynlegu, en síðan óþarfar vörur, ef gjaldeyrir er fyrir þær og eftirspurn er eftir þeim á annað borð.