09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. sagði um Spán og innflutningshöftin. Ég held, að engum detti í hug, að Spánverjar mundu una betur við, að hér væru engin innflutningshöft. Þessi krafa frá Spánverjum mundi hafa komið alveg jafnt, þó að engin innflutningshöft hefðu verið. Það er aðeins krafa um aukin vörukaup, og við hefðum þurft að beina ákveðnum viðskiptum þangað, þó að engar innflutningshömlur hefðu verið.

Ég vil benda hv. þm. á það, að ég veit ekki betur en að það hafi verið samið sérstaklega um innkaup á kolum frá Bretlandi; þó hafa kol aldrei verið nein haftavara, en það er bara af því, að þessi þjóð vildi fá aukna sölu á þessari vöru. Þannig ganga viðskiptin í heiminum. Þjóðirnar krefjast, að þessi og þessi vara sé keypt af þeim, en það á ekkert skylt við innflutningshöft. En þessi krafa frá Spáni kemur fram í svona formi af því að höftin eru. Þetta er því algerður misskilningur hjá hv. þm., og vildi ég aðeins leiðrétta hann.

Það, sem hann sagði að öðru leyti um þetta mál, ætla ég ekki að gera að umtalsefni, en ég vil aðeins drepa lítillega á það, sem hann sagði um neytendafélögin. Ég get ekki séð neitt voðalegt við það, þó að menn gangi í neytendafélög til þess að vernda sig gegn því að borga of mikla álagningu á vöruna vegna þess að eftirspurnin er meiri en framboðið. Það er eðlilegt, að menn vilji spara milliliðakostnaðinn eins og hægt er með slíkum samtökum. Með þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. gerði um sölu innlendra afurða, er einmitt verið að vinna að því, að milliliðakostnaðurinn verði sem minnstur - að neytandinn geti fengið vöruna með sem lægstu verði -, en framleiðandinn þó fengið það verð fyrir sína vöru, sem hann þarf að fá. Þetta stefnir í sömu átt eins og ég álít að þurfi að gera með útlendar vörur, ef þær ætla að hækka í verði.