10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

Kosningar

Jónas Jónsson:

Mér hefði fundizt það eðlilegast, að formaður Bændafl., sem búinn er að hugsa um þetta mál í 10 daga, hefði notað þann tíma til þess að snúa sér til hinna þingflokkanna með þetta mál, svo að hægt hefði verið að ræða það á flokksfundum. En við framsóknarmenn tókum ákveðna afstöðu í þessu máli fyrir 1. des. síðastl., og gengum við þá út frá því, að annaðhvort mundi Sjálfstfl. skipa tvö sætin í n. eins og verið hefir undanfarið, eða afhenda Bændafl. annað þeirra, og við hvorugu ætluðum við að amast. Það verður því að vera algerlega á hans baki, hvort hann gefur eftir sæti sitt eða ekki. Ég get sagt hv. þm. G.-K. það, að við framsóknarmenn höfum ekki átt við þessa svokölluðu sanngirni að búa áður. Þegar við vorum ca. ¼ hluti þingsins, vorum við algerlega bolaðir frá því að eiga sæti í nefndinni. Og ráðgjafarnefndin var búin að starfa í 8 ár áður en Framsfl. fékk að skipa mann í n. Flokknum var haldið fyrir utan hana á meðan hægt var. Þess vegna höfum við ekkert að þakka flokki hv. þm. G.-K., og heldur ekkert að ásaka fyrir í þessu efni eða vanþakka. Sjálfstfl. hefir jafnan háð viðskipti sín við okkur með valdi hins sterkasta.

Þetta mál er algerlega innan vébanda hinnar sameiginlegu fjölskyldu Sjálfstfl. og Bændafl., og ég vil benda hv. þm. G.-K. á, að enginn af þessum þremur Bændaflokksmönnum hefði nú átt sæti á Alþ., ef flokkur hv. þm. hefði ekki lánað nokkur atkv. við síðustu kosningar til þess að koma hv. þm. V.-Húnv. á þing. Menn úr miðstjórn Sjálfstfl. skrifuðu nokkur meðmælabréf í kjördæmið til handa frambjóðanda Bændafl., en á móti sínum eigin frambjóðanda, og þeir hafa nú uppskorið ávextina af þeim bréfum. — Framsfl. gerir ráð fyrir að koma einum fulltrúa í n. og skiptir sér ekki frekar af þessu máli.